Rekstrarskilyrði smáfyrirtækja

Miðvikudaginn 06. desember 1995, kl. 13:42:20 (1624)

1995-12-06 13:42:20# 120. lþ. 54.1 fundur 122. mál: #A rekstrarskilyrði smáfyrirtækja# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., EKG
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur


[13:42]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda og hæstv. ráðherra fyrir hans svör. Það sem mestu máli skiptir í þessu sambandi er það að búa almennt vel að atvinnulífinu í landinu með því að rekstrarskilyrðin séu þeim hagstæð. Það getum við gert með því að skrá gengi með eðlilegum hætti, tryggja hér áframhaldandi efnahagslegan stöðugleika og tiltölulega lágt vaxtastig.

Maður verður hins vegar oft var við það einmitt hjá forsvarsmönnum lítilla og meðalstórra fyrirtækja að þeir eiga oft erfitt við það að glíma við þann mikla reglugerðafrumskóg og lagafrumskóg sem er í kringum þessa atvinnustarfsemi og ekki síst þann mikla eftirlitsiðnað sem hefur verið að spretta upp á undanförnum árum í kringum atvinnustarfsemina í landinu. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra að því, hvort eitthvað af þeim tillögum sem hann kynnti áðan að væru í farvatninu geri ráð fyrir því að reyna að grisja þann mikla eftirlitsiðnað og þann mikla eftirlitsskóg sem hefur umlukið þessa atvinnustarfsemi í landinu og ekki síst litlu fyrirtækin sem stundum eiga mjög erfitt með að rétta úr sér einmitt vegna þessara ströngu ákvæða sem því fylgir.