Rekstrarskilyrði smáfyrirtækja

Miðvikudaginn 06. desember 1995, kl. 13:44:37 (1626)

1995-12-06 13:44:37# 120. lþ. 54.1 fundur 122. mál: #A rekstrarskilyrði smáfyrirtækja# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur


[13:44]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni að auðvitað skipta mestu máli fyrir öll fyrirtæki hin almennu rekstrarskilyrði sem þeim eru sköpuð. Sem betur fer eru rekstrarskilyrði atvinnulífsins nokkuð góð um þessar mundir og það er hlutverk stjórnvalda á hverjum tíma að tryggja að svo sé.

Það eru ýmsar tillögur sem kannski ekki liggja fyrir af hálfu nefndarinnar, en ég býst við að þær muni sjá dagsins ljós alveg næstu daga. Þar er gert ráð fyrir talsvert miklum breytingum á einmitt eftirlitsiðnaðinum eins og hann er hér nefndur.

Ein tillagan sem nefndin hefur kynnt fyrir mér er sú að sérhvert ráðuneyti skipi starfshóp sem hafi það hlutverk að skipuleggja og hreinsa til í sínum eigin laga- og reglugerðafrumskógi sem snertir rekstur fyrirtækja með einum eða öðrum hætti. Þannig hefur í raun og veru hvert ráðuneyti fyrir sig það hlutverk að fara yfir þau lög og reglur sem í gildi eru og með hvaða hætti þau íþyngja atvinnulífinu. En það skiptir líka máli hvernig við búum að litlum fyrirtækjum og atvinnulífinu almennt með lagasetningu frá þinginu.

Ein af þeim tillögum sem nefndin mun vera með í undirbúningi er að sérstök nefnd eða ákveðinn aðili fari yfir, líkt og fjmrn. gerir og leggur mat á öll lagafrumvörp og þingsályktunartillögur sem hér eru lagðar inn og meti hvaða áhrif slíkar tillögur hafa á ríkissjóð. Menn hafa rætt um Þjóðhagsstofnun í þessu sambandi. Ef Þjóðhagsstofnun verður fyrir valinu leggur hún mat á hvaða áhrif lög og reglur hafa á atvinnulífið þannig til þess að menn vandi sig í þessari virðulegu stofnun, að fara yfir lög og reglugerðir svo þær verði ekki til þess að íþyngja atvinnulífinu.

Hv. þm. Pétur Blöndal benti á viðamikinn þátt tel ég en það er sá kostnaður sem hlýst af því að stofna hlutafélag. Það kostar í dag í kringum 100 þús. kr. Nú hefur þessu verið skipt upp, annars vegar í einkahlutafélag og hins vegar í almenn hlutafélög. Tillögur liggja fyrir um það í þinginu, en eftir því sem ég held er frv. um aukatekjur ríkissjóðs komið fram, þar sem gert er ráð fyrir að kostnaður við að stofna einkahlutafélag verði lækkaður úr 100 þús. kr. í 75 þús. kr. einmitt í þeim tilgangi eins og hv. þm. kom inn á að hvetja fólk til þess að taka þátt í atvinnulífinu.