Meðferð kynferðis- og sifskaparbrota

Miðvikudaginn 06. desember 1995, kl. 14:10:29 (1634)

1995-12-06 14:10:29# 120. lþ. 54.3 fundur 186. mál: #A meðferð kynferðis- og sifskaparbrota# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur


[14:10]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Umfang þessarar fyrirspurnar er býsna mikið og að mínu mati hefði verið rétt að bera þetta mál fram í beiðni um skýrslu. Svör við fyrirspurnum sem þessum eru alltaf takmörkuð við þau tímamörk sem þingsköp setja og það er mjög mikilvægt að mál séu borin fram með réttum hætti þannig að þingmenn fái þá umfjöllun um málin sem þeir óska eftir. Á þann veg vilja ráðuneytin svara og taka þátt í umræðu á Alþingi.

Hér er í fyrsta lagi spurt um fjölda dóma í kynferðis- og sifskaparmálum síðustu tíu árin. Til skamms tíma hefur afbrotatölfræði verið lítið sinnt hér á landi, en með tilkomu nýja dómstólakerfisins 1. júlí 1992 var fyrst hafist handa við að halda tölvuskrár með upplýsingum um dómsmál, þar á meðal hvaða brot er ákært fyrir, niðurstöðu mála og refsingar. Frá þeim tíma hafa allar þessar upplýsingar verið skráðar og því hægt að veita upplýsingar um fjölda mála sem ákært hefur verið fyrir eftir brotategundum. Mikinn tíma tekur hins vegar að nálgast upplýsingar frá fyrri tíma þó að þær séu að sjálfsögðu til í dómabókum, en til þess hefur ekki unnist tími.

Dómsmrn. hefur sent fyrirspurn til héraðsdómstólanna um fjölda kynferðis- og sifskaparmála frá 1. júlí 1992 og eru svör enn að berast. En svör hafa þegar borist frá þremur héraðsdómstólum sem fara með 75% sakamála í landinu, þar á meðal héraðsdómunum í Reykjavík og Reykjanesi. Á tímabilinu 1. júlí 1992 til 1. desember 1995, eða á tæpu þremur og hálfu ári, hafa 76 kynferðis- og sifskaparbrot komið til afgreiðslu hjá þessum þremur dómstólum. Af þeim eru sjö enn í dómsmeðferð. Af þeim 69 sem afgreidd hafa verið hefur 57 eða 83% lokið með sakfellingu, 9 eða 13% með sýknu, þrjú mál eða um 4% hafa verið felld niður eða endursend þar sem ekki hefur náðst til ákærðra. Þótt þessar tölur séu ekki tæmandi fyrir allt landið veita þær þó ákveðna vísbendingu um hlutfall sakfellingardóma og sýknudóma. Ekki hefur unnist tími til að kanna niðurstöðu Hæstaréttar, enda um mikið verk að ræða. En með tilkomu dómasafns Hæstaréttar í tölvutæku formi ætti að vera mögulegt að vinna úr dómum réttarins um þessi efni, en mér er tjáð að á morgun komi dómasafn Hæstréttar út í tölvutæku formi.

Spurt er sérstaklega um refsingar þeirra sem fundnir voru sekir. Það er rétt að vekja á því athygli að einföld svör við spurningu eins og þessari geta verið misvísandi og jafnvel villandi. Þótt brotin séu öll alvarleg eru þau misjafnlega gróf, allt frá blygðunarsemisafbrotum og upp í hrottafengnar nauðganir. Þannig eru refsingar í þeim 57 málum sem sakfellt var í frá 10 þús. kr. sekt fyrir blygðunarsemisafbrot og upp í 10 ára fangelsi fyrir hrottalegar nauðganir.

Ef tekinn er út einn flokkur brota, nauðgunarbrotin, má segja að algengasta refsingin fyrir slíkt brot hafi verið 18 mánaða fangelsi. Meðaltalsrefsingin liggur hins vegar nokkuð hærra vegna fárra mjög hrottafenginna nauðgunarbrota. Það sem gerir rannsókn á refsingum mikið vandaverk er að þessi tegund brota verður ekki algerlega aðskilin frá öðrum brotaflokkum. Þannig er í mörgum málum refsað fyrir fleiri en eina tegund kynferðis- og sifskaparbrota í sama máli eða slík brot ásamt t.d. auðgunarbrotum. Í sumum tilfellum er um að ræða að brotamenn hafa rofið skilorð reynslulausnar og óafplánuðum eftirstöðvum er bætt við refsinguna. Þá er refsing mishá eftir því hvort um er að ræða fyrsta brot eða brotamaður á að baki lengri brotaferil. Afbrotatölfræði er því vandmeðfarin og ítarleg og vönduð svör við fyrirspurnum eins og þessum krefjast allmikillar rannsóknarvinnu.

Að því er varðar þriðju spurninguna um það hvort hér á landi sé að finna viðurlög í lögum sem ekki hafa verið nýtt er því til að svara að hámarksrefsing við nauðgun er 16 ára fangelsi. Hærri refsing en 10 ára fangelsi hefur ekki verið dæmd á því tímabili sem þessar tölur gefa tilefni til. En flestar refsingarnar liggja á bilinu 12--24 mánaða fangelsi.

Herra forseti. Hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins hafa verið útbúnar ýmsar verklagsreglur sem lúta að meðferð slíkra mála, allt frá kæru til dómsmeðferðar. Þær reglur hafa verið mótaðar í nánu samráði við neyðarmóttöku vegna nauðgunar sem starfrækt er í Reykjavík og á Akureyri. Sérstök eyðublöð hafa verið hönnuð vegna slíkra rannsókna og önnur rannsóknargögn ávallt tilbúin í sérstökum umbúðum. Frumrannsókn brota hjá lögreglu og í heilbrigðiskerfinu er í höndum fagmanna sem vita nákvæmlega hvað þarf að gera til að vernda brotaþolana fyrir frekari áföllum en jafnframt hvað þarf til að tryggja að sem mestar líkur verði á að hinn seki finnist og hann verði sakfelldur. Að mínu mati er full þörf á að samræma vinnubrögð af þessu tagi þannig að þau nái til meðferðar þessara mála hjá öllum embættum um land allt. Ég tek undir með hv. fyrirspyrjanda að það er mjög þarft að útfæra þær verklagsreglur og þau vönduðu vinnubrögð sem menn hafa verið að móta hér í Reykjavík, og um landið allt, og að því er stefnt.