Málefni samkynhneigðra

Miðvikudaginn 06. desember 1995, kl. 14:18:06 (1636)

1995-12-06 14:18:06# 120. lþ. 54.4 fundur 196. mál: #A málefni samkynhneigðra# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi MÁ
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur


[14:18]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason):

Herra forseti. Fyrirspurn mín varðar málefni samkynhneigðra, en snýr auðvitað öðrum þræði að almennum mannréttindum þar sem við höfum lengi staðið að baki öðrum Norðurlandaþjóðum og ýmsum Evrópuríkjum, a.m.k. hvað formshliðina varðar. Ég spyr sérstaklega um það hvernig hæstv. dómsmrh. gangi að semja frv. til laga um réttarstöðu samkynhneigðra í sambúð. Í raun væri ástæða til að spyrja um fleiri frumvörp sem nú eiga að vera í smíðum um breytingar á ákvæðinu um háð og róg gegn hópum manna í hegningarlögum, um fræðslu í skólum um þessi efni og fleira, en nær út fyrir ráðuneyti hæstv. ráðherra.

Málið á þinglegan uppruna sinn í till. til þál. sem þáv. og núv. hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Össur Skarphéðinsson, Ólafur Þ. Þórðarson, Guðrún Helgadóttir og Einar K. Guðfinnsson fluttu og var samþykkt samhljóða með örlitlum breytingum í maí árið 1992. Raunar kom önnur slík tillaga fram 1985 en náði ekki úr nefnd. 1. flm. hennar var Kristín S. Kvaran sem þá sat á þingi fyrir hinn ágæta flokk, Bandalag jafnaðarmanna.

Í þáltill. var ríkisstjórninni falið að skipa nefnd til að kanna stöðu samkynhneigðra á Íslandi, lagalega, menningarlega og félagslega og gera tillögur um úrbætur og nauðsynlegar aðgerðir til þess að misrétti gagnvart samkynhneigðu fólki hverfi hér á landi. Forsrh. skipaði nefndina tæpu ári síðar, í apríl 1993. Hún vann mikið verk og gott og skilaði svokallaðri skýrslu nefndar um málefni samkynhneigðra í október 1994. Þar var m.a. lagt til að smíðuð yrðu þau frumvörp sem áður er getið og tiltekið í tillögum frá meiri hluta og minni hluta í nefndinni hvað í þeim ætti að vera. Það er fróðlegt hvað varðar þessa fyrirspurn að í skýrslunni er að finna m.a. norræn lög um skráða sambúð samkynhneigðra, sem eru okkur eðlilegar fyrirmyndir. Ríkisstjórnin samþykkti skömmu síðar að vísa frumvarpsgerðinni til viðeigandi ráðuneyta.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það, forseti, hversu brýn þessi frumvarpsgerð og lagasetning í framhaldinu er fyrir samkynhneigða og samfélagið allt sem frá því í forneskju hefur þjáðst af margvíslegum fordómum gagnvart hommum og lesbíum eins og samkynhneigt fólk kýs sjálft að kalla sig. Víst er það svo að lög ein og sér útrýma ekki fordómum og ofsóknum, en þau eru eins og allir vita mikilvægur áfangi í réttindabaráttu eins og þeirri sem samkynhneigt fólk hefur staðið í síðustu ártugi, einkum innan vébanda Samtakanna '78 sem kennd eru við stofnár sitt.

Lög um sambúð samkynhneigðra mundu geta bætt stöðu þeirra á fjölmargan veg. Það má nefna forsjá barna, tæknifrjóvganir, skattalega stöðu, lífeyrismál og erfðarétt, sem dæmi um svið þar sem lög um sambúð samkynhneigðra geta bætt úr því misrétti sem nú viðgengst í samfélagi okkar á forsendum kynhneigðar einum saman.

Í tillögu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og félaga var á sínum tíma vísað m.a. til samþykkta Evrópuráðsins og Norðurlandaráðs um þessi efni. Það væri við hæfi að lesa þingheimi þær ályktanir. Ég kýs þó að gera í lokin, að mínum þau orð sem biskup þjóðkirkjunnar hafði um ályktunartillöguna í umsögn sinni þar sem hann lýsti þeirri von að tillagan yrði skref til þess að efla sanngirni og skilning gagnvart samkynhneigðu fólki, líðan þess og hlutskipti og bætti við, með leyfi forseta, að fátt sé ,,jafnógeðfellt og fjarlægt frumatriðum kristinnar siðfræði og útskúfun þeirra sem eru öðruvísi en fjöldinn.``

Dómsmrh. mun á sínum tíma hafa haldið stystu þingræðu sem flutt hefur verið í sölum Alþingis. Hún hljóðaði svo, með leyfi forseta: ,,Nei.`` Ég var að gantast við hann um daginn með því að hann gæti bætt um betur og komið með jafnvel enn styttri þingræðu eins og fyrirspurnin er orðuð, nefnilega svarinu já, en ég treysti því að hann tali aðeins lengur.