Útvarpslög

Miðvikudaginn 06. desember 1995, kl. 15:12:30 (1650)

1995-12-06 15:12:30# 120. lþ. 55.7 fundur 195. mál: #A útvarpslög# (ráðning dagskrárfólks) frv., Flm. MÁ
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur


[15:12]

Flm. (Mörður Árnason):

Herra forseti. Ég flyt hér frv. til laga um breytingu á útvarpslögum sem eru nr. 68/1985, með síðari breytingum. Frv. er í tveimur greinum og hljóðar svo:

,,Orðin ,,þó að fengnum tillögum útvarpsráðs ef um starfsfólk dagskrár er að ræða`` í 6. mgr. 21. gr. laganna falla brott.``

Í 2. gr. þessa frv. er kveðið á um að lög þessi öðlist þegar gildi. Um útvarpsráð er fjallað í útvarpslögum, 19. gr., 20. gr. og að einhverju leyti í 21. gr. Í 19. gr. er kveðið á um hve margir menn skuli vera í útvarpsráði, hvernig þeir eru kosnir, hve margir varamenn eru í þessu ráði, á hvaða tímabili þessir menn eru kosnir, hver skipar formann ráðsins og varaformann. Í 20. gr. er hins vegar sagt fyrir um hlutverk útvarpsráðs og verksvið þess. Það tekur ákvarðanir um hversu útvarpsefni skuli haga í höfuðdráttum innan marka fjárhagsáætlunar. Ráðið setur reglur eins og þurfa þykir til gæslu þess að fylgt sé ákvæðum 15. gr. Ákvarðanir útvarpsráðs um útvarpsefni eru endanlegar, þó með þeirri undantekningu að útvarpsstjóri getur stöðvað gerð þegar samþykkts dagskrárefnis o.s.frv.

[15:15]

Í 21. gr. er fjallað um útvarpsstjóra o.fl. Í lokalið hennar stendur þetta: ,,Starfsmenn Ríkisútvarps aðrir en framkvæmdastjórar skulu ráðnir af útvarpsstjóra, þó að fengnum tillögum útvarpsráðs ef um starfsfólk dagskrár er að ræða.``

Framkvæmdastjórar eru síðan skipaðir af menntmrh. Ekki er að sinni gerð tillaga um að breyta því þó við það megi ýmislegt athuga, sem og útvarpslögin almennt. Flm. er fyllilega kunnugt um að þau eru í endurskoðun í ákveðinni nefnd og hafa verið í endurskoðun um nokkurt árabil. Meðan þessi endurskoðun hefur farið fram og allmiklu lengur hefur hins vegar gilt ákvæðið um að starfsmenn Ríkisútvarps, ef um starfsfólk dagskrár er að ræða, þurfi sérstakar tillögur útvarpsráðs. Um það eitt fjallar þetta frv. til laga og beinist þá að því að afnema þennan lið til að bæta úr þeim göllum sem hann hefur í för með sér fyrir starfsemi Ríkisútvarpsins, einkum fréttastofanna.

Ákvæði 21. gr. um sérstakar tillögur útvarpsráðs þegar ráðið er starfsfólk dagskrár er í raun arfur frá liðnum tíma þegar hlutleysisreglur Ríkisútvarpsins voru túlkaðar á annan veg og þrengri en nú tíðkast. Fyrrum var fjölmiðlun á Íslandi fyrst og fremst í höndum stjórnmálaflokkanna og má vera að þá hafi það verið eðlilegt eða þótt eðlilegt að útvarpsráð, sem er kjörið pólitískri kosningu á Alþingi og ég ætla ekki að ræða rök með því eða móti að sinni, legði mat á umsækjendur um dagskrárstöður og greiddi um þá sérstakt atkvæði eins og nú tíðkast. Nú eru hins vegar aðrir tímar í fjölmiðlun, kröfur um þagmælsku, menntun og hæfni í fjölmiðlastörfum aukast, en staða einstakra fjölmiðlamanna gagnvart pólitískum flokkum, hvað þá meintar stjórnmálaskoðanir þeirra, skipta minna máli og vonandi í flestum tilfellum engu, nema um einhverjar sérstakar öfgaskoðanir sé að ræða. Þau mál eru þó yfirleitt leyst inni á fréttastofunum sjálfum þannig að menn sem hafa sérstæðar einkaskoðanir á ákveðnum fyrirbrigðum eru ekki útilokaðir en er þó beint frá því að fjalla um þau fyrirbrigði á sama hátt og menn fjalla ekki um fjölskyldu sína í sínum miðli o.s.frv.

Ég tel eðlilegt að löggjafinn geri Ríkisútvarpinu kleift að laga sig að nýjum tímum með því að fella þetta ákvæði út, m.a. vegna þess að Ríkisútvarpið stendur í mikilli samkeppni, ekki síst á fréttasviði við ýmsa aðra fjölmiðla og þetta heftir beinlínis starfsemi fréttastofanna. Af hverju gerir það það? Er það ekki nokkuð augljóst þegar menn hafa hvað eftir annað á síðustu árum þurft að hafa af því fréttir að umsækjendur sem fréttastjóri hefur mælt með, yfirmaður fréttastofunnar á sjónvarpi eða útvarpi, að um þá hafa verið greidd sérstaklega atkvæði í útvarpsráði. Og það hefur komið fyrir oftar en ekki að útvarpsráð hefur samþykkt annan umsækjanda en fréttastjóri sjálfur vildi. Í sumum tilfellum er um að ræða alveg ágæta menn. Ég nefni t.d. síðustu afgreiðslu útvarpsráðs þar sem kosið var á milli tveggja manna. Ég hef unnið með báðum á fjölmiðlum og mundi ekki treysta mér til þess að gera upp á milli, a.m.k. ef ég sæti í pólitískri kosningu í útvarpsráði. En hvað mundi ég gera ef ég stæði frammi fyrir þeim tveimur umsækjendum um starf á fréttastofu sem ég stýrði? Jú, það mundi fara eftir minni fréttastefnu, hvor er hæfari til þess verks sem ég ætla af manninum, hvor er hæfari til þess að fylla það gat eða sækja þar fram þar sem ég tel þörf.

Ég ætla ekki að fjalla hér um störf fréttastjóranna. Margir fréttastjórar bæði hjá útvarpi og sjónvarpi hafa verið hinir mætustu menn og margir þeirra hafa verið svo ágætir að þeir hafa einmitt staðist þann pólitíska þrýsting sem lýsir sér m.a. í þessu ákvæði um útvarpsráð. Hins vegar torveldar þetta störf þeirra. Menn sem hafa fengið nokkra stjórnunarreynslu geta ímyndað sér sjálfir, og ég geri ráð fyrir að flestir í þessum sal hafi hana, hvernig það er að vilja fá einn mann en láta skipa sér að taka við öðrum. Enda skapar það líka inni á fréttastofunum hættu á að tortryggni skapist um þá fréttamenn sem þar eru ráðnir. Vonandi er það í flestum tilvikum ósanngjörn tortryggni en tortryggni engu að síður og fréttamennirnir sem ráðnir eru af tilteknum, pólitískum meiri hluta í útarpsráði eiga þá líka nokkuð á hættu. Um það hef ég dæmi sjálfur sem mér hafa verið sögð. Reynt er að beita þá þrýstingu í starfi vegna þess að þeir eru af einhverjum aðilum flokkaðir sem okkar ,,fréttamenn`` og ekki þeirra fréttamenn.

Ég hlýt að treysta því að menn skilji þessi rök. Mér finnst mjög erfitt að koma auga á rök gegn því að á Ríkisútvarpinu sé viðhöfð sama skipan og á ölum öðrum fjölmiðlum þar sem menn ráða yfirmenn einstakra deilda, menn ráða ritstjóra eða fréttastjóra og eru svo sjálfráðir um að ráða sína starfsmenn, búa til sína fréttastefnu innan þess almenna, víða ramma sem eigendur eða aðstandendur fjölmiðilsins marka og síðan standa þeir sjálfir og falla með sinni heildarframmistöðu. Þetta er auðvitað alkunnugt kerfi og tíðkast í flestum fyrirtækjum, a.m.k. á einkamarkaði.

Með þeirri skipan sem þetta frv. gerir ráð fyrir er útvarpsráð losað undan þessari umsagnarskyldu. Ég hef líka kynnst nokkrum útvarpsráðsmönnum og orðið var við að þótt þeim þyki auðvitað vald sitt nokkuð aukast við að að vera bundnir þessum lögum, en þar hafa margir góðir fagmenn setið, ekki síst frá fjölmiðlum, hefur þeim líka þótt þetta undarlegt og einkennilegt.

Þeir hafa orðið fyrir því, útvarpsráðsmenn, að í þá er hringt af umsækjendum sem stundum vitna til pólitískrar afstöðu sinnar, flokksaðildar sinnar eða fjölskyldu sinnar. Þeir hafa líka orðið fyrir því að hringt er í þá af þeim flokki sem kaus þá í ráðið og þeim lagðar fyrir ákveðnar reglur í þessu skyni. Þetta er auðvitað óeðlilegt og ég held að útvarpsráð gæti líka sinnt hlutverki sínu betur varðandi almennan ramma dagskrár og aðstoð við skipulagningu á fjárhag stofnunarinnar ef það væri losað undan þessari skyldu.