Afnám laga nr. 96/1936

Fimmtudaginn 07. desember 1995, kl. 10:53:40 (1664)

1995-12-07 10:53:40# 120. lþ. 56.3 fundur 206. mál: #A afnám laga nr. 96/1936# frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur


[10:53]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að flytja frv. til laga um afnám laga nr. 96/1936. Þetta er mál er að finna á þskj. 267 og er 206. mál þingsins.

Þrátt fyrir heiti laganna hefur afnám þeirra í raun eingöngu í för með sér breytingu hvað varðar Mjólkursamsöluna í Reykjavík, en Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda var slitið á árinu 1992 og stofnað hlutafélag um þann rekstur. Alllöngu áður hafði skattfrelsi Sölusambandsins þó fallið niður því samkvæmt lögunum var skattfrelsið bundið því skilyrði að SÍF hefði löggildingu sem aðalútflytjandi saltfisks samkvæmt lögum.

Frv. til þessara skattfrelsislaga var á sínum tíma flutt af meiri hluta allshn. að tilhlutan þáv. forsrh. Meginástæða frv. var reyndar að hnykkja á hæstaréttardómi sem þá var nýgenginn um útsvarsskyldu Sölusambandsins eða kannski réttara sagt, aukaútsvarsskyldu Sölusambandsins. Mjólkursamsalan var þó látin fylgja með þar sem það fyrirtæki þótti hliðstætt Sölusambandinu á þeim tíma. Og í greinargerð frv. frá 1936 var svohljóðandi rökstuðningur, með leyfi forseta:

,,Með því að nú allur sá arður, sem stofnanir þær, sem ræðir um í frumvarpi þessu, gefa, rennur til framleiðendanna sjálfra, þeir greiða skatta og skyldur af þeim arði, og þess vegna um engan milliliðagróða að ræða, þykir ekki rétt, að telja stofnanir þessar útsvars- eða skattskyldar.``

Í dag fá þessi lög engan veginn staðist þær grundvallarreglur sem skattkerfið byggir á. Þótt Mjólkursamsalan í Reykjavík sé án efa ágætt fyrirtæki og mjólkin sé góð, þá er það í andstöðu við jafnræðisreglur að taka með þessum hætti eitt atvinnufyrirtæki út úr löggjöfinni og undanþiggja það skattskyldu. Það er í raun undrunarefni að ekki skuli fyrir löngu vera búið að taka þetta skref og afnema lögin. Ég hugsa að skýringin hafi kannski helst verið sú að fáir vissu um tilvist þeirra laga. En einhverra hluta vegna hafa lög þessi aldrei birst í þeim sex lagasöfnum sem út hafa verið gefin frá því Alþingi samþykkti lögin. Ég vona að það sé nánast einsdæmi að lög birtist ekki í Lagasafni.

Ég vil taka það skýrt fram vegna þess að það kann að misskiljast í athugasemdum þessa frv. að brauðgerð Mjólkursamsölunnar og ísgerð hafa að sjálfsögðu greitt opinber gjöld samkvæmt lögum, enda um sérstök fyrirtæki að ræða. Skattleysið hefur því eingöngu náð til mjólkurframleiðslunnar. Fyrirtækið sjálft hefur að sjálfsögðu ekki gert athugasemdir við flutning þessa frv. en mér er kunnugt um að forráðamenn fyrirtækisins telja að misskilja megi athugasemdir við lagafrv. þetta. Ég tel að það sé reyndar ekki rétt. Það er ekkert sem kemur fram í athugasemdunum sem að mínu áliti má misskilja, en til þess að taka af allan vafa hef ég lýst því yfir að fyrirtækið hefur að sjálfsögðu greitt skatta og skyldur af annarri starfsemi sem það stendur fyrir.

Frv. gerir ráð fyrir að lögin komi til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 1997 vegna tekna á árinu 1996 og eigna í lok þessa árs. Lögin koma því ekki til með að virka fyrr en á árinu 1997 vegna tekna á næsta ári. Með sama hætti og gert var þegar bankarnir voru gerðir skattskyldir á árinu 1982 er í bráðabirgðaákvæði sérstaklega kveðið á um hvernig haga skuli skattalegu mati á eignum.

Að öðru leyti vísa ég til frv. og greinargerðar með því og legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.