Afnám laga nr. 96/1936

Fimmtudaginn 07. desember 1995, kl. 10:58:43 (1665)

1995-12-07 10:58:43# 120. lþ. 56.3 fundur 206. mál: #A afnám laga nr. 96/1936# frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur


[10:58]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta frv. er hið besta mál og full ástæða til að styðja fjmrh. sem flytur það nú. Engu að síður vekur það mjög til umhugsunar að sjá þetta frv. flutt árið 1995 með þeim upplýsingum sem fram koma í athugasemdum við lagafrv.

Það má leiða að því getum að þessi setning í greinargerð með frv. frá 1936 sem hljómar svo:

,,Með því að nú allur sá arður, sem stofnanir þær, sem ræðir um í frumvarpi þessu, gefa, rennur til framleiðendanna sjálfra, þeir greiða skatta og skyldur af þeim arði, og þess vegna um engan milliliðagróða að ræða, þykir ekki rétt, að telja stofnanir þessar útsvars- eða skattskyldar.``

Ég á von á því að frá árinu 1936 hefði verið hægt að finna ýmsa aðila sem þetta hefði á sama hátt getað átt við. En það sem mig furðar á er að þetta mál skuli hafa getað týnst í kerfinu eins og skilja mátti á hæstv. fjmrh. Það kemur fram að Mjólkursamsalan hefur verið undanþegin tekjuskatti og eignarskatti að því er varðar vinnslu og dreifingu mjólkurafurða. Þá hlýtur Sölusamband íslenskra fiskframleiðenda einnig að hafa verið undanþegið tekju- og eignarskatti. Þó að þetta litla lagaákvæði hafi ekki birst í lagabálkum eða útskriftum, sem einnig er undarlegt, þá spyr ég hæstv. fjmrh.: Hefur enginn í fjmrn. eða hjá skattyfirvöldum áttað sig á því að þessi fyrirtæki voru ekki að bera umrædda skatta? Það er það sem vekur mesta furðu.