Afnám laga nr. 96/1936

Fimmtudaginn 07. desember 1995, kl. 11:01:04 (1666)

1995-12-07 11:01:04# 120. lþ. 56.3 fundur 206. mál: #A afnám laga nr. 96/1936# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur


[11:01]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta flokkast kannski ekki beinlínis undir andsvar, kannski svar frekar en andsvar. En ég vil taka það fram að þegar menn segja að þetta hafi týnst í kerfinu er fyrst og fremst átt við það að lög nr. 96/1936 hefur ekki verið hægt að finna í Lagasafni í þau sex skipti sem það hefur verið gefið út. Það þýðir ekki að lögin séu ómerk eða hafi ekki gildi. Þetta er auðvitað handvömm þeirra sem hafa fyrr á árum safnað lögum saman í Lagasafn. Það á ekki við þá sem hafa gert það á undanförnum árum, heldur kannski fyrr á öldinni. En af einhverjum ástæðum hefur þetta ekki fallið inn í Lagasafnið.

Ég vil einnig taka fram að SÍF var lagt niður í þeirri mynd sem það starfaði frá þessum tíma til 1992, en styrinn stóð um SÍF 1936. Hæstaréttardómur gekk um skyldu þess fyrirtækis eða samlags að greiða aukaútsvar. Það var pólitísk ákvörðun þingsins árið 1936 að hnykkja á hæstaréttardómnum og Mjólkursamsölunni var bætt við af þeim ástæðum að menn töldu að arðurinn gengi gegnum þessi samlög og beint til framleiðenda en þar væri arðurinn skattlagður. Nú er þetta fyrirbæri liðið undir lok og allar ástæður fyrir því að breyta lögum. Að sjálfsögðu hafa fjmrn. og skattyfirvöld fylgt þessum lögum alla tíð og vitað af þeim. En það var fyrst nú fyrir nokkrum mánuðum að menn tóku málið upp við mig. Ég hafði satt að segja ekki hugmynd um að þetta væru sérlög fyrr en fyrir fáeinum vikum síðan og ég hef ekki orðið var við neina fyrirstöðu, hvorki hjá fyrirtækjunum né öðrum í því að lögunum verði breytt.