Afnám laga nr. 96/1936

Fimmtudaginn 07. desember 1995, kl. 11:06:09 (1669)

1995-12-07 11:06:09# 120. lþ. 56.3 fundur 206. mál: #A afnám laga nr. 96/1936# frv., GÁ
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur


[11:06]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins koma inn í umræðuna, ekki síst vegna þess að hæstv. fjmrh. sagði í öðru máli áðan að rétt skal vera rétt og tek ég undir það með hæstv. fjmrh. Ég tel að þar sem rangt er farið með, beri mönnum að leiðrétta og gera það með skýrum hætti. Mér fannst það ekki koma nógu skýrt fram hjá hæstv. fjmrh. hvað þetta mál varðar því að greinargerðin sem fylgir þessu frumvarpi er blekking. Í henni er farið með rangt mál.

Við hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur vil ég segja það, að um leið og hún fagnar þessu máli gæti hún líka, hv. þm., sest niður og reiknað aftur í tímann hvað barnafjölskyldur í Reykjavík hafa hagnast um marga milljarða á því að þessi lög hafa verið í gildi frá árinu 1936. Það er mikið reikningsdæmi og þýðir að mjólk og mjólkurvörur hafa verið ódýrari en annars hefði verið. Ég hygg að það skipti einhverjum tugum milljarða sem barnafjölskyldur í Reykjavík og á Reykjavíkursvæðinu hafa hagnast á þessum skattalögum sem í eðli sínu voru mjög eðlileg þar sem Mjólkursamsalan er þannig fyrirtæki að þar hafa engar tekjur setið eftir. Hún er nefnilega afurðastöð og hefur verið rekin sem slík allt fram til 1985 að lögum var breytt og bændur fengu fullt afurðaverð lögum samkvæmt. Þeir náðu stundum ekki fullu afurðaverði en fengu það sem eftir stóð sem þýðir að Mjólkursamsalan var rekin á núlli, hún fékk það sem eftir stóð. Ég tel því að barnafjölskyldur og Íslendingar hafi hagnast á lögunum. Ég geri ekki athugasemdir við þá breytingu nú. Ég get tekið undir það með hæstv. fjmrh. að þetta er eðlilegt vegna jafnræðisreglu. En ég vil að hér komi fram að mér hefur borist bréf um þetta atriði frá Mjólkursamsölunni sem skýrir það sem rangt er í greinargerðinni, en í henni er látið að því liggja að allt sem Mjólkursamsalan framleiði hafi verið án skattlagningar og notið skattfrelsis. Þar er að sjálfsagt verið að tala um safa, ís, brauð o.s.frv. Og á dögunum sá ég í Viðskiptablaðinu, sem ég er með, að þar eru samkeppnisaðilar að fagna þessari breytingu vegna þess að Mjólkursamsalan hafi haft sérstök og önnur lög gagnvart samkeppnisaðila, en það er rangt. Í greinargerð Viðskiptablaðsins segir á þessa leið:

,,Ljóst er að málum hefur verið skipað með öðrum hætti að því er varðar Mjólkursamsöluna og forsendur löggjafans fyrir skattfrelsi því löngu brostnar. Þá hefur komið fram að á vegum Mjólkursamsölunnar hefur verið byggður upp og rekinn margvíslegur annar atvinnurekstur en hefðbundinn mjólkuriðnaður í samkeppni við annan matvælaiðnað í landinu.``

Þetta er það sem er líka rangt í greinargerð frumvarpsins, hæstv. fjmrh. Rétt er rétt og því ber að leiðrétta það og ég bjóst við að hæstv. ráðherra mundi gera það með skýrum hætti. En það bréf frá Mjólkursamsölunni sem ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa, er afrit af bréfi sem sent var í fjmrn. Þar segir:

,,Tekið skal fram að Mjólkursamsalan styður efnislega ofangreint frumvarp. Mjólkursamsalan harmar hins vegar að hafa fyrst heyrt af þessu frumvarpi í frétt sem birtist í Viðskiptablaðinu 29. nóvember sl. Síðar sama dag barst reyndar bréf frá yður``, sem er þá sjálfsagt hæstv. fjmrh., ,,til forstjóra Mjólkursamsölunnar ásamt texta frumvarpsins.

Allt frá upphafi hefur tilgangurinn með skattfrelsi Mjólkursamsölunnar verið sá að halda niðri verði til neytenda á mjólk. Á árinu 1983 voru t.d. gerð drög að frumvarpi um afnám skattfrelsis sem aldrei var lagt fram, m.a. vegna áhrifanna sem slíkt hefði haft á verð mjólkur.

Ekki verður hjá því komist að gera athugasemdir við það að stafshópur sá sem vann frumvarpstextann fyrir fjmrn. skuli ekki hafa leitað eftir upplýsingum hjá fyrirtækinu þar sem í athugasemdum við frv. eru fullyrðingar um starfsemi Mjólkursamsölunnar sem sumar eru rangar og aðrar sem auðvelt er að mistúlka.

Þær athugasemdir sem Mjólkursamsalan telur óhjákvæmilegt að gera við texta greinargerðarinnar eru eftirfarandi:

Í 5. gr. athugasemdanna segir að ,,á vegum Mjólkursamsölunnar hefur verið byggður upp og rekinn margvíslegur annar atvinnurekstur en hefðbundinn mjólkuriðnaður í samkeppni við annan matvælaiðnað í landinu,`` svo sem samkeppni í framleiðslu og sölu á hreinum og blönduðum ávaxtadrykkjum. Það hafa alla tíð verið greiddir skattar af þeirri starfsemi Mjólkursamsölunnar sem ekki fellur undir mjólkuriðnað. Að því er ávaxtasafann varðar skal tekið fram að Mjólkurbú Flóamanna annast sem verktaki, framleiðslu og pökkun á safanum. Mjólkurbú Flóamanna nýtur engra skattfríðinda. Mjólkursamsalan annast hins vegar dreifingu á safanum. Í byrjun árs 1994 var stofnað sérstakt hlutafélag, Samsöluvörur hf., sem annast dreifingu á ávaxtasafanum. Tilvitnuð fullyrðing í athugasemdum við frumvarpið er því röng.

Brauðgerð Mjólkursamsölunnar var stofnuð 1946. Allt frá upphafi hafa allir skattar og gjöld verið greidd af starfsemi brauðgerðarinnar. Sérstakt hlutafélag um rekstur brauðgerðarinnar var síðan stofnað árið 1992, Samsölubakarí hf.

Ísgerð Mjólkursamsölunnar var stofnuð árið 1960. Skattar hafa verið greiddir af þeirri starfsemi ísgerðarinnar sem ekki féllu undir mjólkurvöruframleiðslu eða með öðrum orðum, framleiðslu á jurtaís og ávaxtasafa. Í byrjun árs 1994 var stofnað hlutafélag um framleiðslu á jurtaís og ávaxtaklaka. Í byrjun árs 1994 var stofnað hlutafélag um rekstur ísgerðarinnar, Emmessís hf.

Þessar upplýsingar og ýmsar fleiri hefði starfshópi fjmrn. verið í lófa lagið að fá hjá Mjólkursamsölunni í stað þess að setja í athugasemdir með frumvarpinu. Að einhverju leyti munu þó hafa verið stofnuð hlutafélög um afmarkaða þætti starfseminnar. Til þess að koma í veg fyrir deilur um orðalag sem í sjálfu sér skipta litlu máli um tilgang lagabreytingarinnar er lagt til að málsgreinar 4, 5 og 6 í athugasemdum verði felldar út en í staðinn komi svohljóðandi setning:

,,Með vísan til meginreglunnar um jafnræði við skattlagningu þykja ekki rök fyrir skattfrelsi Mjólkursamsölunnar.``

Virðingarfyllst, fyrir hönd Mjólkursamsölunnar,

Þórunn Guðmundsdóttir.``

Svo mörg voru þau orð. Ég hef leiðrétt þessar rangfærslur sem hér koma fram í greinargerð frumvarpsins og vil segja við þessar aðstæður að í sjálfu sér fagna ég þessu máli ekkert sérstaklega. Ég geri mér grein fyrir því, eins og ég sagði áðan að vegna jafnræðisreglunnar verður breytingin að ganga í gegn, en auðvitað liggur fyrir að framleiðslan verður að bera uppi þá viðbótarskattlagningu sem nú fellur á fyrirtækið. En hins vegar væri fróðlegt að reikna til fullnustu dæmið um hvað barnafjölskyldur í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu hafa hagnast mikið á því að lögin hafa verið í gildi um svo langan tíma.

Hæstv. forseti. Fleiri athugasemdir hef ég ekki við málið að sinni.