Afnám laga nr. 96/1936

Fimmtudaginn 07. desember 1995, kl. 11:18:29 (1672)

1995-12-07 11:18:29# 120. lþ. 56.3 fundur 206. mál: #A afnám laga nr. 96/1936# frv., GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur


[11:18]

Guðni Ágústsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Mjólkursamsalan hefur verið rekin með þeim hætti að hún býr ekki við frjálst verð. Öll verðlagning hennar er undir fimm manna nefnd og engar tekjur hafa setið eftir í Mjólkursamsölunni.

Hæstv. fjmrh. fullyrðir hér enn að Mjólkursamsalan sé einokunarfyrirtæki sem er auðvitað rangt. Hafi hún einhvern tímann verið það þá er hún það ekki lengur. Skattaglaðir fjmrh., sem skilja kannski ekki hollustuvörur og gera þar engan greinarmun á, leita auðvitað eftir nýjum og nýjum vörum til að leggja skatta sína á. Þarna dettur hæstv. fjmrh. kókómjólkin í hug og ber hér fram umkvörtun frá drykkjarvöruframleiðendum sem framleiða nú ekki miklar hollustuvörur.

Ég hef sagt það hér, hæstv. fjmrh., að ég geri ekki athugasemdir við þetta mál nú vegna jafnræðisreglunnar. En ég lýsi svo sem ekki yfir neinum sérstökum fögnuði með málið. Ég geri mér grein fyrir að því fylgir sá böggull að sjálfsagt verða vörur fyrirtækisins að hækka til neytenda.