Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 07. desember 1995, kl. 11:21:51 (1674)

1995-12-07 11:21:51# 120. lþ. 56.4 fundur 207. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (fasteignaskattur, þjónustuframlög) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur


[11:21]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995.

Í þessu frv. eru einkum lagðar til tvenns konar breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga.

1. Sérstakur skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði lækki í þrepum á næstu fjórum árum og falli alveg niður 1999. Jafnhliða hækki fasteignaskattur skv. b-lið 3. mgr. 3. gr. laganna í þrepum. Hækkunin komi að fullu til framkvæmda 1999.

2. Hlutverk þjónustuframlaga Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði að jafna mismunandi útgjaldaþörf sveitarfélaga með sérstöku tilliti til stærðarhagkvæmni þeirra. Samkvæmt tekjustofnalögunum er núverandi hlutverk þjónustuframlaga það að úthluta framlögum til sveitarfélaga sem skortir tekjur til að halda uppi þeirri þjónustu sem eðlilegt má telja að sveitarfélag af þeirri stærð veiti.

Í desember 1993 var gerð breyting á lögum nr. 90/1990, um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum. Sú breyting fól í aðalatriðum í sér að aðstöðugjaldið var fellt niður en í þess stað var útsvarið hækkað og einnig fasteignaskattur á atvinnuhúsnæði. Um leið hætti ríkið álagningu sérstaks 1,5% skatts á verslunar- og skrifstofuhúsnæði en sveitarfélögin innleiddu svipaða skattlagningu, þó heldur lægri eða 1,25%. Þessi ráðstöfun var þó gerð með það fyrir augum að hún yrði aðeins til bráðabirgða, sbr. bráðabirgðaákvæði við tekjustofnalögin, en í lok þess segir:

,,Bráðabirgðaákvæði þetta gildir þar til félagsmálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa unnið að nánari útfærslu málsins með það að markmiði að þessi sérstaki viðbótarskattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði falli að núverandi fyrirkomulagi við álagningu fasteignaskatts sveitarfélaga.``

Í samræmi við þetta skipaði félmrh. starfshóp í maí 1994 til að fjalla um þennan sérstaka fasteignaskatt. Starfshópurinn var skipaður fulltrúum frá félmrn., fjmrn. og Sambandi ísl. sveitarfélaga. Starfshópurinn var sammála um niðurstöður en þær voru í stuttu máli að leggja til að lagður verði niður hinn sérstaki fasteignaskattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði en bæta sveitarfélögunum tekjutapið með því að hækka almenna fasteignaskattinn á atvinnuhúsnæði. Starfshópurinn skilaði drögum að frv. sem er fellt óbreytt inn í þetta frv.

Frumvarpsgreinarnar sem um þetta fjalla eru 1., 6. og 7. gr.

Í l. gr. er lagt til að fasteignaskattur skv. b-lið 3. mgr. 3. gr. hækki úr allt að 1,12% af álagningarstofni í allt að 1,32%. Þetta þýðir að með 25% álagi getur skatturinn þá hæst orðið 1,65% í stað 1,40% áður. Eins og kemur fram í 6. gr. frumvarps þessa er gert ráð fyrir að hækkun þessi komi til framkvæmda í þrepum á fjórum árum.

Í samræmi við tillögur starfshópsins, sem getið er um fyrr í athugasemdunum, er í 6. gr. lagt til að sérstakur fasteignaskattur samkvæmt ákvæði til bráðabirgða við lögin verði felldur niður í stiglækkandi þrepum á fjórum árum en jafnframt hækki fasteignaskattur skv. b-lið 3. mgr. 3. gr. laganna samsvarandi í þrepum á fjórum árum.

Í 7. gr. er kveðið á um að bráðabirgðaákvæðið um sérstaka fasteignaskattinn gildi þar til álagningu fasteignaskatts 1999 er lokið á grundvelli ákvæðisins. Sérstaki fasteignaskatturinn er þá fallinn alveg niður en heimilað að leggja almenna fasteignaskattinn á atvinnuhúsnæði að fullu í samræmi við b-lið 3. mgr. 3. gr. laganna. Þá er bráðabirgðaákvæðið óþarft og fellur þar með niður.

Í febrúar 1992 skipaði félagsmálaráðherra nefnd til að endurskoða ákvæði reglugerðar um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, þ.e. 13. og 14. gr. reglugerðar nr. 390/1991. Greinar þessar fjalla um svokölluð jöfnunarframlög, þ.e. tekjujöfnunar- og þjónustuframlög. Nefndin var skipuð tveimur fulltrúum þáv. stjórnarflokka, teimur fulltrúum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einum skipuðum af félmrh. Ýmsir fleiri með sérstaka þekkingu á þessu máli komu einnig að þessu verki. Verk þetta dróst nokkuð á langinn vegna breytinga á tekjustofnalögunum við niðurfellingu aðstöðugjaldsins.

Rétt er að rifja upp að við breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og á tekjustofnum sveitarfélaga sem tóku gildi í ársbyrjun 1990 voru gerðar veigamiklar breytingar á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Áður hafði aðeins um 6% af árlegum tekjum sjóðsins verið varið til jöfnunar á milli sveitarfélaga en eftir breytinguna hafa þetta verið um 70% af ráðstöfunarfé sjóðsins.

Eitt af nýmælum sem tekið var upp voru svokölluð þjónustuframlög sem ætlað var að jafna að einhverju leyti mismunandi kostnað sveitarfélaganna. Fyrirmyndin að þessu var sótt til hinna Norðurlandanna en þar hafa einmitt jöfnunarkerfi ríkisins í þágu sveitarfélaganna tekið verulegum breytingum á undanförnum árum.

Nefndin skilaði félmrh. tillögum sínum í nóvember á sl. ári. Áður höfðu þær verið rækilega kynntar á fundi fulltrúaráðs Sambands íslenskra sveitarfélaga í mars 1994 og á landsþingi sveitarfélaganna haustið 1994. Bæði fulltrúaráðsfundurinn og landsþingið lýstu yfir stuðningi við tillögurnar.

Tillögurnar voru tvíþættar og sneru annars vegar að tekjujöfnunarframlögunum og hins vegar að þjónustuframlögunum. Reglugerð sem fól í sér breytingar á tekjujöfnunarframlögunum var gefin út í desember í fyrra en hún kemur til framkvæmda við úthlutun tekjujöfnunarframlaganna á næsta ári.

Í tillögunum kemur fram að gert er ráð fyrir að breyta þurfi jöfnunarsjóðskafla tekjustofnalaganna til að tillögur um breytt þjónustuframlög geti náð fram að ganga. Lagt er til að skilgreiningu þjónustuframlaganna verði breytt í tekjustofnalögunum þannig að hlutverk þeirra verði að jafna mismunandi útgjaldaþörf sveitarfélaga með sérstöku tilliti til stærðarhagkvæmni þeirra.

Frumvarpsgreinarnar sem fjalla um breytingar á jöfnunarsjóðnum eru 2.--5. gr. frv. Í 2. gr. er lagt til að tónlistarskólaframlögin verði felld inn í þjónustuframlögin en þau hafa numið um 1,8% af vergum tekjum sjóðsins og að öðrum framlögum sem úthlutað hefur verið samkvæmt e-lið 11. gr. verði skipt milli kostnaðarsamra stofnframkvæmda hjá fámennum sveitarfélögum og til að aðstoða dreifbýlissveitarfélög við að standa undir reksturskostnaði við grunnskóla.

Í 3. gr. eru lagðar til breytingar í samræmi við tillögur endurskoðunarnefndarinnar. Að verulegu leyti fela þessar breytingar í sér skýrara og markvissara orðalag en nú er án þess að um efnislegar breytingar sé að ræða. Þó er lagt til að skilgreiningu þjónustuframlaganna verði breytt þannig að þeim verði úthlutað til að jafna mismunandi útgjaldaþörf sveitarfélaga með sérstöku tilliti til stærðarhagkvæmni þeirra, en nú segir að þeim skuli úthlutað til sveitarfélaga sem skortir tekjur til að halda uppi þeirri þjónustu sem eðlilegt má telja að sveitarfélög af þeirri stærð veiti.

Þar sem lagt er til að framlög samkvæmt e-lið 11. gr. laganna verði felld inn í önnur framlög er í 4. gr. felld brott núverandi skýring en rétt þykir að setja í staðinn skýringu á framlögunum samkvæmt d-lið 11. gr. laganna, þ.e. grunnskólaframlögunum.

5. gr. er af sama toga, það er afleiðing þess að framlög samkvæmt e-lið 11. gr. laganna verða felld inn í önnur framlög.

Herra forseti. Ég vona að góð samstaða geti tekist um að afgreiða þetta frv. nú fyrir jólin þannig að lögin geti tekið gildi 1. janúar nk. Á það er lögð mikil áhersla af hálfu Sambands íslenskra sveitarfélaga.