Húsnæðisstofnun ríkisins

Fimmtudaginn 07. desember 1995, kl. 14:19:50 (1682)

1995-12-07 14:19:50# 120. lþ. 57.3 fundur 215. mál: #A húsnæðisstofnun ríkisins# (lánstími húsbréfa o.fl.) frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur


[14:19]

Svanfríður Jónasdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er til umfjöllunar frumvarp sem lengi hefur verið beðið eftir. Lengi beðið eftir, segi ég, vegna þess að hér birtast lausnir Framsfl. á vanda þeirra sem lent hafa í vanskilum eða greiðsluerfiðleikum vegna húsnæðiskaupa. Hér eru kynntar aðgerðir sem varða heill og hamingju þúsundanna, svo vitnað sé til frægra ummæla hv. þm. Guðna Ágústssonar, síðan fyrir kosningar. Þá þoldi það enga bið að ganga til verka. En hér eru verkin látin tala, verk Framsóknar sem hafði ráð undir rifi hverju fyrir kosningarnar í vor og hefur nú setið í átta mánuði í ríkisstjórn án þess að hafast að. En málið þoldi sem sé enga bið. Og þá skyldi maður ætla að um nokkurn atburð væri að ræða, tímamót og nýmæli.

Nú er ég, virðulegi forseti, hreint ekki að gera lítið úr vanda allra þeirra sem lent hafa í erfiðleikum með húsnæðislánin sín. Þeir eru sem betur fer ekki nema hluti þeirra sem fengið hafa lán hjá Húsnæðisstofnun en sannarlega hefur erfitt atvinnuástand, minni yfirvinna, atvinnuleysi og aðrar efnahagsþrengingar leikið allt of stóran hóp grátt og gerir enn. Ég var hins vegar aldrei sammála því að kerfinu væri bara um að kenna eins og Framsókn hélt fram og að með því að breyta kerfinu mætti með einu handtaki kippa öllu í liðinn. Aldeilis ekki. Og svo var um fleiri. Þess vegna er það stærri atburður en ella þegar hæstv. félmrh. leggur fram tillögur sínar til breytinga á þessu kerfi. Því eins og áður sagði, hér eru verkin loksins látin tala. Hér kemur fram svart á hvítu hvað átt var við með gagnrýninni og þá ekki síður loforðunum frá því í vor.

Þegar þetta litla frumvarp er skoðað kemur í ljós að það eru aðallega 1. og 2. gr. sem skipta máli fyrir fólkið í landinu, þá sem kunna að hafa beðið annarra og betri úrlausna en Húsnæðisstofnun býður upp á nú. Hinar eru fremur tæknilegar og þurfa skoðun sem slíkar. En það eru sem sé þær tvær fyrstu sem eitthvað kjöt hafa á beinunum, virðulegi forseti. Ég ætla fyrst að fara yfir efni 2. gr. því þar er stungið á kýlinu. Þar er tekið á vandanum, eða hvað? Í grg. með frumvarpinu er rakin saga greiðsluerfiðleikalána Húsnæðisstofnunar frá 1985. Fram kemur að þann áratug sem sagan er rakin hafa einlægt verið hópar sem þurft hefur að skuldbreyta hjá ýmissa aðstæðna vegna sem ekki var mætt með öðrum hætti að mati þáv. stjórnvalda. Sá hópur sem gripið var til ráðstafana út af 1985 var t.d. misgengishópurinn svokallaði, sá sem lenti einna harðast úti þegar verðtrygging var tekin af launum en látin halda sér á lánum. Vinnubrögð og aðferðir hafa þróast og árið 1993 var gert samkomulag félmrn., Húsnæðisstofnunar, banka og sparisjóða í samstarfi við Samtök lífeyrissjóða, um sérstakar aðgerðir til að leysa vanda íbúðareigenda. Þær skuldbreytingar byggja á reglugerð með heimild í lögum sem nær bæði til vanskila lána Byggingarsjóðs ríkisins og af fasteignaverðbréfum húsbréfadeildar. Þessar skuldbreytingar hafa byggst á sérstökum lánaflokki innan Byggingarsjóðs ríkisins og hafa lánin verið veitt til allt að 15 ára. Skuldbreytt hefur verið allt niður í fimm ár og lægstu fjárhæðir hafa verið innan við 200 þús. kr. Sú upphæð segir okkur e.t.v. mest um sorglega lág laun og greiðslugetu þeirra sem eru að reyna að eignast húsnæði á Íslandi í dag. Samtals hefur 500 millj. verið varið til þessa verkefnis frá hausti 1993 og nú tveimur árum síðar eru tæplega 30 millj. eftir til ráðstöfunar. Jafnframt hefur samkvæmt bráðabirgðarákvæði í lögum verið unnt að grípa til greiðslufrests til allt að þriggja ára. Þá birtast hinar nýju ráðstafanir, allsherjarlausn Framsfl. Og í hverju eru þær þá fólgnar? Eftir því sem fram kemur í frumvarpinu eru þær helstar að í stað þess að byggt sé á heimild í lögum varðandi skuldbreytingu og á bráðabirgðaákvæði varðandi frestun greiðslu, er lagt til lausnar vanda húsnæðiskaupenda að lögfest verði að fara megi báðar þessar leiðir. Að það verði lögfest, að þær fái skýrari lagastoð. Þetta þykir sumum stórbrotið og kann hver að hafa sinn smekk í því.

Helstu efnisbreytingar eru síðan þær að í stað þess að um sérstakan lánaflokk sé að ræða eins og nú er, verða skuldbreytingar til lausnar vandanum fjármagnaðar með húsbréfum til 15 ára. Ekki með sveigjanlegum tíma eins og nú er þar sem tíminn hefur eins og áður sagði farið niður í allt að fimm ár ef aðstæður hafa verið þannig. Nei, til 15 ára. Punktur og basta. Vextir í núv. kerfi eru 4,9% en verða samkvæmt tillögu til lausnar vandanum 5,1% plús afföll. Í núv. kerfi eru ekki tímamörk varðandi það hve lengi vanskil mega hafa safnast upp áður en gripið er til frystingar og/eða skuldbreytingar. Aðili sem er með einhverra ára skuldahala getur fengið þriggja ára greiðslufrest ef hans fjárhagur er slíkur og síðan skuldbreytingu. En samkvæmt tillögum til lausnar vandanum mega skuldbreyting og/eða greiðslufrestur ekki fara fram yfir fimm ár og þar af greiðslufrestur ekki lengur en þrjú. Greiðslugeta nú er miðuð við 30%. Í tillögum til lausnar vandanum er gert ráð fyrir 30% sömuleiðis. Veðmörk eru nú 70% af brunabótarmati. Í tillögum til lausnar vandanum er miðað við 65% af matsverði sem er kaupverð íbúðar samkvæmt útskýringum í frumvarpinu. Í núv. kerfi er upphæðum allt niður í 150 þús. skuldbreytt og meðaltalsupphæð þeirra vanskila sem skuldbreytt er er undir 400 þús. kr. Í tillögum til lausnar vandanum er ekki minnst á lágmarksupphæð en af því að einungis á að lána með húsbréfum er rétt að geta þess að húsbréfalán samkvæmt gildandi reglum fæst einungis fyrir um 700 þús. kr. upphæð eða hærri. Nauðsynlegt er því að það fram komi hvort tillögur til lausnar vandanum gera ráð fyrir að vanskil þurfi að hafa náð þeirri tölu áður en hægt er að skuldbreyta.

Virðulegi forseti. Nú hrannast spurningarnar upp. Getur verið að tillögur til lausnar vandanum séu þær í fyrsta lagi, að lögfesta það sem Húsnæðisstofnun hefur verið að gera á grundvelli heimildar og bráðabirgðaákvæðis í lögum? Þær eru þá fyrst og fremst tæknilegs eðlis. Í öðru lagi: Verður í stað sérstaks lánaflokks um húsbréfalán að ræða með tilheyrandi vaxtahækkunum frá því sem nú er? Og það einungis til 15 ára. Í þriðja lagi: Verða tímamörk þrengd varðandi það hve lengi vanskil hafa verið ef um greiðslufrest á skuldbreytingu á að vera að ræða? Í fjórða lagi: Verður miðað við sömu greiðslugetu og nú? Í fimmta lagi: Verða veðmörk lækkuð og umbúnaður þannig að um mun lægri upphæðir verður að ræða, sérstaklega út á landi? Í sjötta lagi: Hefur verið ekki hugsað fyrir því að sumt fólk hefur svo takmarkaða greiðslugetu að það þarf að fá allt niður í 150 þús. kr. skuldbreytt?

Virðulegi forseti. Hverjar eru tillögur Framsóknar til lausnar þeim vanda sem enginn hefur útmálað með jafndramatískum hætti og frambjóðendur þess flokks? Er þetta það sem boðið er upp á, þrengingar frá því sem nú er í öllum helstu atriðum. Og hvað með samkomulagið frá 1993 við banka, sparisjóði og lífeyrissjóði o.fl. Er það í uppnámi? Í ljósi þessa, virðulegi forseti, verður athyglisvert að skoða frumvarpið um greiðsluaðlögun sem væntanlega verður til umfjöllunar bráðlega því að vandinn er jú mikill samkvæmt lýsingum þeirra sem nú um véla.

Í 1. gr. frumvarpsins núna er gerð tillaga um að lánstími fasteignaverðbréfa sem húsbréfadeild kaupir skuli vera 15, 25 eða 40 ár í staðinn fyrir 25 að hámarki eins og nú er. Í grg. er farið nokkuð yfir afleiðingar og fyrirkomulag og okkur gerð grein fyrir því að ljóst sé að mismunandi lánstími húsbréfa hafi í för með sér mismunandi ávöxtunarkröfu og afföll, allt eftir lengd bréfanna og aðstæðum á markaði hverju sinni. Hér hæfir að segja: Vissu fleiri en þögðu þó.

[14:30]

Hitt kemur aftur á móti á óvart í frv. og hlýtur að vekja upp spurningar um viðbrögð að á bls. 3 þar sem fjallað er um 40 ára bréfin eru leiddar að því líkur að bréf til langs tíma beri minni afföll en bréf til styttri tíma eða eins og segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Því er ekki ólíklegt að 40 ára bréf geti selst með lægri afföllum en húsbréf til 25 ára.``

Á bls. 5 er hins vegar verið að réttlæta það að skuldbreytingalánin verði einungis til 15 ára með tilvísan til reynslunnar, en auk þess er það réttlætt með lægri afföllum eða eins og þar segir orðrétt, með leyfi forseta: ,,enda lægri afföll eftir því sem lánstíminn er styttri.`` Og nú er mér allri lokið, virðulegi forseti. Á bls. 3 er það kostur að lengja lánin af því að þá geti bréfin selst með lægri afföllum, en á bls. 5 er það hins vegar fullyrt að það séu lægri afföll eftir því sem lánstíminn er styttri. Og við hljótum að spyrja: Hverjir eru ráðgjafar ráðherrans? Okkur er það öllum ljóst að aðstæður geta skipt sköpum varðandi afföll hvort sem um er að ræða 15, 25 eða 40 ára bréf. Og það er í meira lagi billegt að grípa til þessara kúnsta til þess að reyna að selja 40 árin sem sérstaka lausn í húsnæðismálum. Nær er auðvitað að segja bara eins og ráðherrann sagði hér áðan: Það getur verið ágætt að hafa þennan möguleika til lengri lána, en það þýðir auðvitað breytingar á verði fasteigna. Það þýðir breytingar á vöxtum og á afföllum o.s.frv. Þessir þættir ráðast m.a. af lengd lánanna núna rétt eins og áður.

Virðulegi forseti. Það eru ýmis mál sem hv. félmn. mun þurfa að láta skoða betur og ýmsum spurningum er ósvarað eins og ég rakti áðan. Einni er þó fullsvarað. Framsfl. hafði því miður ekki eins mikið vit á því sem hann lofaði í kosningabaráttuni í vor og menn kannski héldu. Eða ekki það afl og kjark til að framkvæma í samræmi við það sem lofað var. Það sést því miður best á þeim leiðum til lausnar vandanum sem hér hafa verið kynntar. Um þær er einungis hægt að segja það sama og drengurinn sagði í sögunni um nýju fötin keisarans: Mamma. Keisarinn er ekki í neinu.