Húsnæðisstofnun ríkisins

Fimmtudaginn 07. desember 1995, kl. 14:35:39 (1684)

1995-12-07 14:35:39# 120. lþ. 57.3 fundur 215. mál: #A húsnæðisstofnun ríkisins# (lánstími húsbréfa o.fl.) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur


[14:35]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er mál til komið að húsnæðismál komi aðeins á dagskrá. Sá málaflokkur hefur verið fyrirferðarmikill í umræðu undanfarin ár og áratugi og er það að vonum, aðrar eins kollsteypur og gengið hafa yfir í þeim efnum með nokkuð reglulegu millibili. Mér telst svo til að með svona 6--10 ára millibili hafi Íslendingar staðið í því að umbylta húsnæðislánakerfi sínu. Þar gætir auðvitað þeirrar sérstöku stöðu sem hér var komin upp undir lok verðbólgutímabilsins og fyrir daga verðtryggingar að svo til allt íbúðarhúsnæði í landinu var afskrifað og skuldlaust og engin eðlileg langtímafjármögnun var þar fyrir hendi. Það gerði það að verkum að ástand á fasteignamarkaði fyrir notað húsnæði var afar afbrigðilegt og þess sér enn stað að það tekur langan tíma að byggja upp eðlilegan stofn að langtíma fjármögnun þegar þannig ástand hefur skapast. Þetta er það sem snýr að notaða markaðnum, en síðan hafa miklar hremmingar gengið yfir þá sem hafa á síðustu einum til tveimur áratugum verið að reyna að koma sér upp eigin húsnæði með nýbyggingum eða öðrum hætti.

Vandinn hefur sjaldan verið meiri en einmitt núna síðustu árin. Um það vitna vaxandi vanskil og vaxandi erfiðleikar fólks. Þar liggja til grundvallar óhrekjanlegar staðreyndir sem oft hafa verið rifjaðar upp og óþarfi að eyða tíma í það hér í stuttri ræðu. En þar liggja líka til grundvallar aðstæður sem öllum eru kunnar og tengjast versnandi lífskjörum, minni kaupmætti, vaxandi atvinnuleysi og erfiðleikum sem gengið hafa yfir, minni vinnu o.s.frv. Það er því ekki nema að vonum að húsnæðismál voru fyrirferðarmikil í umræðum í aðdraganda síðustu alþingiskosninga eins og mörgum er í fersku minni.

Fyrri ríkisstjórn, sú sem sat síðasta kjörtímabil, á sér ákaflega ljótan feril í þessum efnum. Hún greip til þess, þvert ofan í gefin fyrirheit um hið gagnstæða, að raska kjörum fólks að þessu leyti, koma aftan að fólki m.a. með því að skerða vaxtabætur sem lofað hafði verið að mundu haldast og kippa þannig grundvellinum undan áætlanagerð og ákvarðanatöku einstaklinga í þúsundavís úti í þjóðfélaginu, þar á meðal sínu eigin greiðslumati sem sömu stjórnvöld höfðu fest í lög að skyldi viðhafa áður en fólk fengi fyrirgreiðslu úr hinu opinbera húsnæðislánakerfi. Verður nú varla komið verr aftan að mönnum en þetta. Ég hef sagt það áður, herra forseti, og endurtek það hér að næst á eftir hinu illræmda misgengi sem varð til þegar launavísitalan var tekin úr sambandi á árunum 1983--1984, en verðtrygging hélt áfram óbreytt, þá er það sem síðasta ríkisstjórn gerði í húsnæðismálum verst af því sem ég þekki til svona í seinni tíma sögu í samskiptum stjórnvalda og þegna. Að kippa þannig grundvellinum undan efnahag fólks með stjórnvaldsákvörðunum og koma aftan að mönnum eins og gert var til að mynda þegar vaxtabæturnar voru skertar og vextir hækkaðir á íbúðarlánum, er svívirða og það er óleyfileg framkoma stjórnvalda við þegna sína. Við þá erfiðleika sem fólk mætti af þessum sökum á síðasta kjörtímabili og tengjast þessum óbilgjörnu aðgerðum stjórnvalda og versnandi lífskjörum og lakari kaupmætti, bættust svo þær ógöngur sem húsbréfakerfið lenti í á þessum tíma með allt upp í 25% afföllum þegar verst lét. Það þarf að minna á það vegna þess að það vill oft gleymast hvað 25% afföll þýða fyrir þá sem tóku þau lán. Þau þýða, t.d. í dæmi bónda nokkurs norður í Skagafirði sem ég hef áður minnt á, að hann skuldar 4 millj. í húsbréfum en fékk aldrei nema 3 í hendur. Hann skuldar einni millj. kr. meira en hann fékk til að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um hversu ósanngjarnt og harkalegt þetta er.

Ógöngunum í húsbréfakerfinu hefur svo ekki linnt þar sem einnig var gripið til þess ráðs að fara að hringla með vextina á bréfunum þannig að nú er þar uppi misræmi eftir því á hvaða tíma menn tóku lánin. Og var þó svarið og sárt við lagt að hvorugt mundi henda af þáv. hæstv. félmrh., Jóhönnu Sigurðardóttur. Afföll áttu aldrei að verða nein af þessum bréfum því að þau voru með ríkisábyrgð, sú speki var lögð fyrir menn að þar með væri það klappað og klárt. Jafnframt var því heitið á sínum tíma við upptöku bréfanna að þau yrðu með föstum vöxtum og við þeim yrði ekki hróflað frekar en vaxtabótunum.

Þetta er smásaga, herra forseti, um ógöngurnar í húsbréfakerfinu og þær hörmungar sem hafa gengið yfir þar. Öllu lakari verður ekki frammistaða manna en sú sem hér er boðið upp á af hálfu hæstv. félmrh. Hann var einna fremstur í flokki manna á síðasta kjörtímabili sem gagnrýndu ástandið í húsnæðismálum. Nú leggur hann fyrir frv. þar sem á að lappa lítillega upp á húsbréfakerfi Jóhönnu Sigurðardóttur og er tæplega hægt að tala um að í þessu felist úrbætur. Það eru öll ósköpin, það er öll reisnin. Lítið leggst þar fyrir góðan dreng, hæstv. félmrh. Pál Pétursson, að þetta skuli verða örlög hans í stjórnmálum og þá sérstaklega í sambandi við húsnæðismál að hann skuli nú leggja fyrir pappír sem felur í sér minni háttar krukk í hið meingallaða húsbréfakerfi hæstv. fyrrv. félmrh., Jóhönnu Sigurðardóttur. Einhvern tíma hefði maður haldið annað þegar maður hlustaði á skörulegar ræður hæstv. félmrh., þáv. hv. þm. og stjórnarandstæðings Páls Péturssonar.

Nú er ekki eins og hæstv. ráðherra sé ekki með dálitla arfleifð á bakinu. Hann er sennilega með þyngri byrðar á bakinu í þessum efnum en nokkur annar núlifandi stjórnmálamaður. Sennilega er leitun að öðrum eins byrðum í allri stjórnmálasögunni og hæstv. ráðherra hefur á bakinu því að hann er með á bakinu öll kosningaloforð Framsfl., eins og þau leggja sig. Nú stendur upp á hæstv. félmrh. Pál Pétursson að efna loforðin fyrir hönd Framsóknar, öll stóru loforðin. Og það er rétt að rifja þau upp og það hefur svo sem verið gert. Ég er með tvær útgáfur af helstu kosningaritum Framsóknar, þ.e. hina meiri útgáfu. Það er loforðabókin hin meiri og síðan er stytt útgáfa fyrir þá sem voru seinir að lesa og komust ekki yfir mikið, þá var búin til tveggja blaðsíðna útgáfa. Það eru ,,helst-in`` eins og sagt er á fréttamannamáli í dag, ,,helst-in`` úr kosningaloforðum Framsóknar. En það er samt nóg til þess að inn í þennan tvíblöðung komast þvílíkar yfirlýsingar um það sem Framsókn ætlaði að gera að leitun mun að öðru eins. Og það verður lítið úr þessu litla frv., þessum skóbótum eða viðbótum við húsbréfakerfið hennar Jóhönnu þegar farið er yfir loforðalistann.

[14:45]

Því var í fyrsta lagi lofað að sett yrðu lög um greiðsluaðlögun sem gæfu einstaklingum í langvarandi og alvarlegum greiðsluerfiðleikum möguleika á að ná stjórn á fjármálum sínum eins og þau leggja sig þá væntanlega, allsherjarendurreisn. Í öðru lagi átti að breyta Húsnæðisstofnun. Hún átti að fá nýtt og breytt hlutverk sem ráðgjafar- og endurreisnarstöð heimilanna. Ég hafði aldrei áður séð þetta orð á prenti, herra forseti, ég hygg að þetta sé nýyrði, endurreisnarstöð heimilanna átti þetta að verða. Ég sé ekki að það standi til að breyta nafninu á Húsnæðisstofnun í fyrirsögn frv. Þessi stofnun, endurreisnarstöð Framsóknar, átti að aðstoða fólk við þetta sama, þ.e. að greiða úr skuldavandamálum sínum. Engir fyrirvarar þar enda skildi fólk þetta unnvörpum þannig úti í þjóðfélaginu að Framsókn væri að boða allsherjaraðgerðir gagnvart skuldavanda heimilanna og það væri ekkert bundið við húsnæðisskuldir. Menn hringdu og spurðu: Hvenær má fara að sækja ávísanirnar? Hvenær kemur að því að við getum skuldbreytt öllum lausaskuldum eins og Framsókn lofaði?

Það var gengið enn lengra. Það var gengið svo langt að ég hef aldrei séð annað eins á prenti. Í næstu setningu var eftirfarandi sagt: ,,Grípa til víðtækra skuldbreytinga sem fela í sér að vöxtum og/eða lánstíma sé breytt, skuld sé lækkuð eða fryst.`` Það voru beinlínis gefin fyrirheit um að um skuldaniðurfellingu yrði að ræða. Það er ekki hægt að skilja þetta öðruvísi. Auðvitað er yfirgengilegt ábyrgðarleysi að setja slíka hluti frá sér og ég tala ekki um öll ósköpin þegar það reynist jafnalgerlega innstæðulaust og hér. Það er aldeilis ekki þannig að Framsókn sé að taka á málum með þessum hætti. Það er ekki verið að taka á lausaskuldavanda heimilanna almennt heldur eru menn eingöngu bundnir við vanskilavanda sem þeir eiga í í viðskiptum sínum við húsnæðislánakerfið. Vextir eru ekki lækkaðir eins og Framsókn lofaði og enn síður er verið að lækka stofninn sjálfan eða skuldirnar. Það er ekki vottur af þessu. Nei, það er lappað lítillega upp á meingallað húsbréfakerfi sem framsóknarmenn sjálfir gengu einna harðast í að gagnrýna á síðasta kjörtímabili og sett eru upp sem stórtíðindi að það eigi að bjóða upp á breytilegan lánstíma.

Herra forseti. Ég held að úrræðin sem eru boðuð í þessu frv. skipti nánast engu fyrir vanda þess fólks sem á um sárast að binda, afar litlu satt best að segja, vegna þess að á undanförnum árum hafa af og til verið í gangi almennar skuldbreytingaaðgerðir. Það má spyrja sig að því hvort svigrúmið í lánstíma sé ekki af hinu góða. Út af fyrir sig er það það. Það er heppilegt að fólk geti valið sér aðstæður að því leyti til ef einhvern tíma væri eitthvað að marka þær forsendur sem settar eru upp fyrir fólk. Eiga menn að velja sér lánstíma í fullkominni óvissu um það hvort það verða einhverjar vaxtabætur og þá hverjar, hverjir vextirnir verði, hver afföllin verði o.s.frv.? Þetta leiðir mig að þeirri niðurstöðu sem er svo sem ekki ný og ég hef fyrir löngu sannfærst um að grunnfjármögnunin í þessu húsnæðislánakerfi á ekki að vera svona. Það er út í hött að hafa markaðsbréf sem geta tekið afföllum þar sem vextir eru breytilegir og sem byggja að einhverju leyti á mjög svo svikulum stuðningi hins opinbera til að mynda við þá sem eru að kaupa eða byggja húsnæði í fyrsta sinn. Grunnfjármögnunin á að vera föst lán til langs tíma með föstum, lágum vöxtum. Það merkilega er að í raun og veru er kannski það eina jákvæða við þennan snepil frá hæstv. félmrh. að það er verið að hverfa til baka, a.m.k. með möguleika á lengri lánstíma, í 40 ára lán, sem er sami lánstími og var í Byggingarsjóði ríkisins. Er þá ekki verið að segja að húsbréfakerfið hafi að þessu leyti verið mistök, a.m.k. hvað það varðar að lánstíminn var of stuttur?

Ég sagði það oft á undanförnum árum og spurði hæstv. fyrrv. félmrh., Jóhönnu Sigurðardóttur, oft að því hvernig það ætti að ganga upp að það sé til hagsbóta fyrir fólk í sambandi við fjármögnun húsnæðislána að stytta lánstímann og hækka vextina. Trekk í trekk stóð hæstv. fyrrv. ráðherra í ræðustól og reyndi að sanna fyrir okkur að húsbréfakerfið væri betra en lánafyrirgreiðslnan úr Byggingarsjóði ríkisins hafði verið og var þó lánstíminn styttri og vextirnir hærri. Þetta gat ég aldrei skilið og ég held að reynslan hafi sannað að hæstv. fyrrv. félmrh. hafði rangt fyrir sér og breytingin sem hér er lögð til vísar auðvitað í þá átt.

Herra forseti. Að lokum er athyglisvert að koma að umsögn fjárlagaskrifstofunnar um þetta mál. Ég vek athygli manna á orðalaginu neðst á bls. 10. Það er satt best að segja nokkuð sérkennilegt, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Orðanotkun hjá hinni virðulegu stofnun bendir til þess að hún hafi verið eitthvað með böggum hildar yfir þessum pappírum sem hún fékk neðan úr félmrn. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Húsbréfadeild Húsnæðisstofnunar ríkisins fjármagnar sig sjálf án ríkisframlags.``Betur að satt væri. Ég veit ekki betur en Húsnæðisstofnun hafi að mestu leyti verið fjármögnuð í gegnum ríkissjóð á síðasta ári af því að það seldust ekki pappírarnir frá Húsnæðisstofnun og a.m.k. frá byggingarsjóðunum. Síðan kemur þetta: ,,Þannig er ráð fyrir því gert að þau gjöld, sem húsbréfadeildinni er heimilt að áskilja sér samkvæmt lögum``, --- og nú hefur verið tekinn upp sá siður að leggja ofan á lántökukostnað og ýmis gjöld, þar á meðal í afskriftasjóð,--- ,,nægi til að standa undir rekstrarkostnaði og áætluðum útlánatöpum.`` Svo kemur eftirfarandi: ,,Með þetta í huga má gera ráð fyrir að frv. þetta hafi ekki kostnað í för með sér fyrir ríkisstjórn.`` Þetta er afar sérkennilega orðað. Með þetta í huga má gera ráð fyrir því að frv. þetta hafi ekki kostnaðarauka í för með sér. Eitthvað er þetta samt óljóst hjá þeim uppi í fjárlagaskrifstofu. Hvað skyldi það vera sem þeir eru að vandræðast með? Svo kemur í næstu setningu: ,,Gert er ráð fyrir``, --- þetta er allt í þessum formúlum, gert er ráð fyrir og má gera ráð fyrir og má reikna með, hafa í huga o.s.frv. ,,Gert er ráð fyrir að sá aukni sveigjanleiki í húsbréfakerfinu sem frv. kveður á um verði ekki til þess að heildarútgáfa húsbréfa aukist umfram 13,5 milljarða kr. sem gert er ráð fyrir í frv. til fjárlaga og frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1996. Verði raunin önnur þarf að draga úr eftirspurninni með sérstökum aðgerðum.``

Voðalega hefur þetta vafist fyrir þeim í fjárlagaskrifstofunni. Þeir eiga greinilega í miklum erfiðleikum með að meta hvaða áhrif það hafi á fjármagnsmarkaðinn, hvort það verði meira útstreymi á húsbréfum eða minna og hvaða áhrif það þá hafi. Þeir hafa þetta þess vegna allt á munkalatínu sem er auðvitað illskiljanleg ef ekki algerlega óskiljanleg öllum venjulegum mönnum.

Kannski hefur þeim hjá fjárlagaskrifstofunni gengið illa að skilja þá Höllustaðahagfræði sem hv. síðasti ræðumaður, Svanfríður Jónasdóttir, fjallaði áðan um þar sem sitt á hvorri blaðsíðunni er gert ráð fyrir því að afföll aukist eða minnki við það að lán séu lengd. Það er von að mönnum gangi illa að skilja ,,Höllustaða-economics``, bæði í fjárlagaskrifstofunni og víðar. Satt best að segja er grunnurinn undir þessari frumvarpsgerð ákaflega sérkennilegur svo ekki sé meira sagt. Það leiðir að sömu grundvallarspurningu og áður: Er þetta brúklegt kerfi sem stofnfjármögnun í húsnæðislánakerfi fyrir almenning í landinu? Gengur upp að byggja á svona pappírum, markaðsbréfum sem geta tekið á sig gífurleg afföll við tilteknar aðstæður, eru með breytilegum vöxtum o.s.frv.? Svar mitt er nei. Það gengur ekki upp vegna þess að það leiðir með reglubundnu millibili til hörmunga fyrir viðskiptavinina eða þolendurna. Ég er alveg sannfærður um að svo lengi sem við tökum ekki upp á lánaflokk á nýjan leik úr Byggingarsjóði ríkisins, löng lán með föstum og lágum vöxtum, verðum við með þetta í höndunum með reglubundnu millibili og allt í uppnámi. Markaðsverðbréfakerfi, hvort sem það er í sérstakri deild í Húsbréfastofnun eða úti í bankakerfinu, getur að mörgu leyti þjónað prýðilega gagnvart viðskiptum með notað húsnæði á fasteignamarkaði ef stofnfjármögnun á því húsnæði er almennt fyrir hendi í formi fastra lána frá opinberum byggingarsjóði með föstum vöxtum. Það er auðvitað allt annað mál að í viðskiptum milli einstaklinga með húsnæði sem að einhverju leyti er með slíka grunnfjármögnun sé markaðslánakerfið fyrir hendi. Þannig er það hjá mörgum öðrum þjóðum. Það er engin von til þess að mínu mati að skikkur komist á þessi mál fyrr en menn viðurkenna þessar staðreyndir. Útkoman er líka sú að sjálfseignarstefna á íbúðarhúsnæði á Íslandi er dauð. Það hefur mönnum tekist að afreka hér, sérstaklega Sjálfstfl. sem hefur setið um árabil í ríkisstjórn, hún er dauð í praxís. Venjulegt fólk ræður ekki við að koma sér upp þaki yfir höfuðið án utanaðkomandi hjálpar. Dæmið gengur ekki upp. Venjulegt ungt fólk, kannski með innan við 200 þús. kr. heildartekjur, sem á ekki umtalsverðar eignir til að ganga upp í fyrstu íbúðarkaupin, kemst ekki inn í tveggja herbergja íbúð, hvað þá meira miðað við greiðslubyrðina eins og hún er í þessu kerfi. Það er öll snilldin. (Forseti hringir.) Svo eru afrek framsóknarmanna að leggja það eitt til eftir öll stóru loforðin að lappa lítillega upp á þetta. Það eru nú meiri ósköpin, herra forseti. Það er von að forseti sé brúnaþungur og lemji í bjölluna.