Húsnæðisstofnun ríkisins

Fimmtudaginn 07. desember 1995, kl. 14:56:54 (1685)

1995-12-07 14:56:54# 120. lþ. 57.3 fundur 215. mál: #A húsnæðisstofnun ríkisins# (lánstími húsbréfa o.fl.) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur


[14:56]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem hér hafa orðið, ekki vegna þess að ég sé sammála öllu því sem hér hefur verið sagt. Ég er sammála sumu af því en umræðurnar gefa mér tækifæri til þess að fara nánar yfir málið.

Ég gat þess ekki í upphafi að þetta er ekki eina frv. sem ég ætla að flytja um húsnæðismál í veru minni í félmrn. Þetta er einungis hluti af því sem ég hef áhuga á að gera og ég vildi reyna að hraða því og koma þessum þætti frá. Ég tel alls ekki að hér eigi að láta staðar numið. Þetta er gott svo langt sem það nær en það er ekki endanleg lausn á vandanum.

Eins og komið fram gengum við framsóknarmenn til síðustu kosninga undir kjörorðinu Fólk í fyrirrúmi og ég tel að ég starfi enn eftir því kjörorði. Ég er ekkert banginn að rifja upp hvað við sögðum um húsnæðismál. Ég er með þá útgáfu sem samþykkt var á flokksþingi framsóknarmanna í upphafi kosningabaráttunnar. Ég tel mig bundinn af því plaggi og eftir því plaggi mun ég vinna. (SJS: Hvaða útgáfa er það, hæstv. ráðherra?) Það er lengri útgáfan. Húsnæðismál, með leyfi forseta:

,,Það er þjóðhagslega hagkvæmt að sem flestir geti eignast þak yfir höfuðið og eftirsóknarvert út frá hagsmunum einstaklinga og fjölskyldna vegna þess öryggis sem það veitir. Við eðlilegar aðstæður treystir eigið húsnæði fjárhagslegt sjálfstæði manna og eykur ábyrgðartilfinningu gagnvart verðmætum. Einstaklingarnir þurfa þó alltaf að eiga raunhæft val á milli búsetumöguleika, svo sem félagslegrar eignaríbúða, leiguíbúða og Búseta-formsins. Framsóknarmenn leggja áherslu á eftirfarandi í húsnæðismálum:

Að almenna húsnæðislánakerfið verði flutt frá Húsnæðisstofnun yfir í bankakerfið.

Að greitt verði fyrir frjálsum samningum bankastofnana og lífeyrissjóða með fjármögnun sérstakra lánaflokka vegna húsnæðislána til allt að 40 ára.

Að áhersla verði lögð á ríkari ábyrgð hönnuða, byggingarnefnda, byggingarfulltrúa, efnissala og byggingaverktaka gagnvart kaupendum íbúða. M.a. verði byggingarverktökum, sem byggja íbúðarhúsnæði til sölu á almennum markaði, gert skylt að setja tryggingu fyrir umsömdum frágangi íbúða að verklokum.

Að kannað verði hvort ekki sé skynsamlegt að einstaklingur geti keypt sér tryggingu hjá vátryggingarfélagi fyrir greiðslufalli vegna veikinda og slysa.

Með lagabreytingum á ýmsum sviðum, vaxtahækkunum og ýmsum öðrum opinberum aðgerðum á undanförnum árum hefur svo verið vegið að félagslega eignaríbúðakerfinu að það á orðið erfitt með að þjóna þeim sem helst þarf á því að halda. Til að treysta stöðu félagslega eignaríbúðakerfisins og til að það geti sinnt hlutverki sínu leggja framsóknarmenn áherslu á eftirfarandi:

Að fyrningarprósentan verði lækkuð úr 1,5% í 1% til að flýta fyrir eiginfjármyndun.

[15:00]

Að vaxtaprósentan verði sveigjanleg, þ.e. að samsvarandi ákvæði gildi um lækkun vaxta og nú gilda um hækkun vaxta, verði breyting á tekjum íbúa.

Að vaxtaprósentan verði háð eignarformi. Það skipti ekki máli hvort íbúð er keypt eða leigð í félagslega húsnæðislánakerfinu. Lánskjörin verði óháð eignarformi en ráðist fyrst og fremst að ráðstöfunartekjum fólks.

Að veittar verði auknar heimildir til undanþágu frá tekjumörkum ef um er að ræða slæma fjárhagsstöðu. Samsvarandi undanþága þarf að vera á eignarmörkum ef tekjur eru mjög lágar.

Að Byggingarsjóði verkamanna verði heimilað við sérstakar aðstæður að lána til viðhalds og endurbóta utan húss.

Að ábyrgðar- og valdsvið húsnæðisnefnda sveitarfélaga verði aukið.

Að tryggt verði aukið framboð leiguhúsnæðis, t.d. með aðstoð við samtök námsmanna og fatlaða við byggingu þess.

Að Húsnæðisstofnun í samvinnu við Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins leiti leiða til að lækka kostnað við íbúðabyggingar.``

Svona hljóðar þetta, herra forseti, og hef ég lokið við að lesa það sem framsóknarmenn ályktuðu um húsnæðismál á flokksþingi sínu og gengu til kosninga undir. (SJS: Hvað með endurreisn heimilanna?) Það er önnur grein og að því kem ég síðar. Síðan var mynduð ríkisstjórn og settur saman stuttorður en gagnorður kafli í samstarfsyfirlýsingu um húsnæðismál og ég vil leyfa mér að lesa hann líka, herra forseti:

,,Að lánstími húsnæðislána frá Húsnæðisstofnun verði breytilegur þannig að í stað 25 ára eins og nú er verði hann á bilinu 15--40 ár. Sérstök áhersla verður lögð á að hjálpa ungu fólki til að eignast sína fyrstu íbúð. Þeim sem greiða af eldri fasteignaveðbréfum Húsnæðisstofnunar verði gefinn kostur á lengingu lána. Stuðla verður að því að einstaklingar sem eiga í alvarlegum greiðsluerfiðleikum hafi möguleika á því að ná tökum á fjármálum sínum. Stefnt verður að því að flytja almenna húsnæðislánakerfið frá Húsnæðisstofnun yfir í bankakerfið.``

Við lofuðum aldrei, herra forseti, að leysa allan vanda manna strax, en við erum að vinna að því með markvissum hætti í félmrn. að ná utan um skuldavandann. Í þessu frv. er tekið á hluta vandans en veigamiklum hluta af starfinu er ekki lokið.

Fyrsta skrefið sem tekið var var að hækka lánshlutfall til kaupenda fyrstu íbúðar úr 65% í 70%. Þetta hefur verið mjög mikið notað og drjúgur hluti þeirra sem hafa tekið ný lán hjá Húsnæðisstofnun hefur farið þessa leið. Það hefur líka haft það í för með sér að ásókn í félagslega kerfið hefur minnkað merkjanlega. Þetta frv. er, getum við sagt, annað skrefið. Það lengir lán, gefur kost á lengingu lána og sveigjanleika í húsbréfunum og frestun greiðslna. Það voru athugaðar ýmsar útfærslur á því hvernig mætti koma lengingu áður tekinna húsbréfa skást við. Niðurstaðan varð sú að þetta væri þægilegasta aðferðin til að gefa mönnum lengri tíma til þess að komast yfir sínar húsnæðisskuldir, enda tel ég að það sé ofætlun að ætla venjulegu láglaunafólki að borga meginfjárfestingu sína í lífinu, sem í flestum tilfellum er íbúð eða eigin húsnæði, á 25 árum að fullu. Það er sem sagt farin sú leið að fresta greiðslum og koma þeim á nýtt húsbréf.

Varðandi ágæta athugasemd frá hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur um misræmi í greinargerð með frv. þá verð ég að viðurkenna að ég prófarkalas ekki þessa greinargerð. Þarna hefur slæðst inn setning á síðu 5 sem ekki á nokkurn rétt á sér. Það er ekki óeðlilegt að hv. þm. geri sér mat úr svona skyssum. (SJS: Á ekki frekar að taka út þessa á bls. 3?) Nei, það vil ég ekki gera. Ég hef í höndum gögn sem sýna fram á það og athuganir viðkomandi nefndar hafa ótvírætt leitt í ljós að þetta eru staðeyndir. Það er að segja um þetta frv. að það er annað skrefið.

Þriðja skrefið er að taka fyrir félagslega íbúðakerfið. Ég bíð eftir niðurstöðum nefndar sem er að vinna að tillögugerð þar um í félagi við Samband ísl. sveitarfélaga. Félagslega íbúðakerfið er í ógöngum og það verður að vinda bráðan bug að því að laga það. Ég vona að nefndin sé komin á lokastig og ég geti fljótlega lagt fram frv. um endurbætur á félagslega íbúðakerfinu.

Ég hef áhuga á því að lækka þröskuldinn fyrir endurbótalán. Það get ég gert með reglugerð og vonast eftir því að það komi í gagnið á næsta ári, þ.e. nú geta menn fengið lán til endurbóta ef endurbæturnar kosta meira en 1 millj. 80 þús. Þetta er allt of hátt. Það er allt of mikill biti fyrir venjulegan láglaunamann að þurfa að fjármagna slíkt, fyrir hann væri æskilegt að lækka þetta mark.

Ég hef líka áhuga á að það verði farið að lána til íbúða nr. 2 eða 3, þ.e. ég tel að eitt af því sem vantar á íslenskan húsnæðismarkað sé meira af ódýru leiguhúsnæði. Þótt að hart sé að viðurkenna það, þá er nokkuð til í því sem hv. síðasti ræðumaður sagði. Eignaríbúðaformið, þegar laun hafa verið lág í mörg ár, er ekki fullnægjandi eitt og sér. Ég vil ekki hverfa frá því sem markmiði. En það verður að vera svigrúm fyrir fólk að búa í viðráðanlegu leiguhúsnæði fyrir viðráðanlegt gjald og við sæmilegt öryggi. Þess vegna þurfum við að fjölga leiguíbúðum í landinu. Og hluti af lausninni í félagslega kerfinu getur verið einmitt sá að gera félagslegar íbúðir sem reknar hafa verið af sveitarfélögum með kaupskyldu að leiguíbúðum. Það getur verið hluti af lausn vandans. Ég á eftir, herra forseti, að flytja fleiri frumvörp um Húsnæðisstofnun.

Þá vil ég aðeins víkja að öðrum skuldum. Nú eru ekki allar skuldir til orðnar út af húsnæðiskaupum. Sumar eru satt að segja orðnar til fyrir ráðleysi og fyrir óhöpp o.s.frv., eða þá trassaskap. En þær eru jafnþungar fyrir það og markmiðið er ekki að keyra fólk í gjaldþrot. Við eigum að hjálpa fólki að komast hjá gjaldþroti og að því vil ég vinna.

Það er verið að setja á stofn leiðbeiningarstöð um tilraunaverkefni, leiðbeiningarstöð um fjármál heimilanna. Það hefur gengið allt of seint. Ég skal viðurkenna það. Þessi leiðbeiningarstöð held ég geti verið mjög mikilvæg til þess að hjálpa fólki til þess að ná utan um fjármál sín, ekki til þess að gefa því peninga heldur beinlínis að hjálpa því að fá yfirsýn yfir fjármál sín og aðstoð við að semja, skuldbreyta og ná tökum á fjármálum sínum. Þessi leiðbeiningarstöð er í burðarliðnum. Þetta er samstarfsverkefni félmrn. og 14 annarra aðila í þjóðfélaginu, banka, sparisjóða, lífeyrissjóða, ASÍ, BSRB, Reykjavíkurborgar, Þjóðkirkjunnar, Bændasamtakanna, Neytendasamtakanna og fleiri. Þetta er mjög mikilvægt verkefni og þar verður ráðgjöf.

Hv. 5. þm. Reykn. spurði eftir ráðgjafarhlutverki Húsnæðisstofnunar. Því verður haldið áfram með sama hætti og verið hefur. Það er ekki ætlunin að draga úr þeirri ráðgjöf sem bankarnir veita, heldur ætla þessir aðilar, Húsnæðisstofnun, bankar og aðrir sem ég taldi upp áðan, að hjálpast að við það að bæta við ráðgjöfina. Síðan er verið að vinna að frumvarpssmíð um skuldaaðlögun eða það sem gæti tekið við hjá þeim sem ekki fá fullnægjandi úrlausn í leiðbeiningarstöðinni. Þar á að opna leið til samninga um skuldir, nokkurs konar nauðasamninga einstaklinga. Síðan þarf að liðka gjaldþrotalögin þannig að þau henti betur til nauðasamninga en þau gera núna. Þau veita fyrirtækjum svigrúm til nauðasamninga, en miklu síður einstaklingum.

Síðan þarf að breyta innheimtuháttum ríkisins. Það er mjög óskynsamlegt hjá gjaldheimtu og tollstjóra að reka einstaklinga í gjaldþrot fyrir tiltölulega litlar upphæðir. Þar þarf að vera sveigjanleiki þannig að hægt sé að semja um skuldir. Þetta er mál sem er á borði fjmrh. og gjaldþrotalög að sjálfsögðu á verkefnasviði dómsmrh. Það þarf líka að setja þak á innheimtukostnað lögmanna og ég hef skrifað dómsmrh. bréf þar sem ég hef vakið athygli hans á því að ég telji mjög nauðsynlegt að setja þak á innheimtukostnað lögmanna. Og ég gæti sagt margar ræningjasögur af því hvernig lögmenn, hafa hagað sér í innheimtu. Ég hef frétt af bílastæðasekt upp á 800 kr. norður á Akureyri sem endaði með því að verða 40 þús. þegar hún var búin að fara í gegnum klærnar á ræningjunum. Önnur saga um bílastæðasekt, líka frá Akureyri. Ég skil ekki að nokkur maður þori að koma til Akureyrar á bíl. Hún varð að 36 þús. Þetta er fín landkynning. En það eru ræningjar víðar en á Akureyri. Þeir eru líka hérna í borginni.

Ég vil bæta því við að nefnd undir forustu Ólafs Arnar Haraldssonar alþm. með þátttöku Sambands ísl. sveitarfélaga hefur tekið á vanda Innheimtustofnunar sveitarfélaga og komið með lausnir á vanda meðlagsgreiðenda sem var að vissu leyti sjálfskaparvíti á sínum tíma þegar meðlögin voru hækkuð úr hófi þannig að menn gáfust upp á að borga þau og þetta úrræði er hluti af lausn vandans. En þegar þetta er allt saman komið í gang tel ég að við höfum skapað aðstæður til þess að geta efnt þau loforð sem framsóknarmenn settu fram fyrir kosningar. Að vísu ber ég ekki ábyrgð á því hvað hver einasti frambjóðandi Framsfl. kann að hafa sagt og það ætla ég að vona að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon virði mér til vorkunnar. Ég veit að hann kemur ekki til með að taka á sig allt sem alþýðubandalagsmenn sögðu í síðustu kosningabaráttu. En ég tel mig bundinn af því að vinna eftir því sem sagt var í samþykkt flokksþings framsóknarmanna haustið 1994 og því sem skilgreint er í stjórnarsáttmálanum.

Herra forseti. Ég held að ég þurfi ekki að vera niðurlútur vegna Framsfl. eða því hvernig unnið er að skuldamálum og húsnæðismálum í félmrn.

[15:15]

Hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir bar saman úrræði frumvarpsins og það ástand sem ríkt hefur til þessa. Mér heyrðist á hv. þm. að henni fyndist ástandið hafa verið harla gott og það væri eiginlega engin bót að þessu frumvarpi Ég er ekki sammála hv. þm. Ég tel að ástandið sé mjög slæmt. Ég tel að með frumvarpinu sé stigið stórt skref til lausnar vandanum. Það er ekki lítilfjörleg skóbót eins og hér hefur verið sagt heldur marktækt, markvisst skref til þess að færa þetta til betri vegar. En ég vil undirstrika að það þarf að færa margt, margt fleira heldur en stendur í þessu frumvarpi, til betri vegar í húsnæðismálum eftir sjö ára stjórn hv. 13. þm. Reykv., Jóhönnu Sigurðardóttur.

Hv. 4. þm. Norðurl. e., Steingrímur J. Sigfússon, láði mér það að vera lappa upp á húsbréfakerfið. Ég er nú ekki höfundur húsbréfakerfisins vel að merkja og ég var ekki sérstakur aðdáandi þess. Satt að segja þegar það mál var til meðferðar á Alþingi á sínum tíma, gerði ég mér að minnsta kosti ekki grein fyrir öllum göllum þess. Þá opnaði enginn augu mín fyrir þeim göllum á húsbréfakerfinu sem hafa reynst erfiðastir. Þ.e. hinum geigvænlegu afföllum sem fylgt hafa húsbréfakerfinu stundum og ég minni á greiðsluerfiðleikalánin. Hv. 13. þm. Reykv., þáv. félmrh. Jóhanna Sigurðardóttir beitti sér á sínum tíma fyrir greiðsluerfiðleikalánum í húsbréfaformi sem urðu með 25% afföllum. 4 milljarðar voru lánaðir. Fólkið var skuldsett fyrir 4 milljarða en fékk ekki nema 3 í vasann.

Herra forseti. Ég treysti mér ekki til að leggja niður húsbréfakerfið. Það er komið á. Við verðum að búa við það. Við verðum að reyna að laga það og að því vil ég vinna. En að lokum, herra forseti, það stendur til að endurskoða starfsemi Húsnæðisstofnunar. Ég hef beðið Ríkisendurskoðun um að gera stjórnsýsluúttekt á stofnuninni. Að henni lokinni verða næstu skref ákveðin og það er verið að skipa nefnd í félmrn. til að skoða framtíð Húsnæðisstofnunar.