Húsnæðisstofnun ríkisins

Fimmtudaginn 07. desember 1995, kl. 15:22:47 (1689)

1995-12-07 15:22:47# 120. lþ. 57.3 fundur 215. mál: #A húsnæðisstofnun ríkisins# (lánstími húsbréfa o.fl.) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur


[15:22]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Því miður hef ég ekki tiltæk gögn um hvað nákvæmlega margar íbúðir standa nú auðar. En þegar slysið varð á Flateyri lét ég kanna hvað væri til af auðum íbúðum í félagslega kerfinu. Þær voru þá 102 og það hefur eitthvað bæst við síðan. Þær eru ekki bara á tveimur stöðum á landinu. Þær eru á mjög mörgum stöðum. Þær eru í flestum byggðarlögum á Vestfjörðum, mörgum byggðarlögum á Austfjörðum og á Norðurlandi nokkrum. Það er að vísu rétt að félagslegar íbúðir standa ekki auðar í Reykjavík í stórum stíl. Félagslega kerfið hér hefur lánast best en er þó engan veginn gallalaust. Í Reykjavík standa að vísu margar íbúðir auðar þó það sé ekki í félagslega kerfinu.