Húsnæðisstofnun ríkisins

Fimmtudaginn 07. desember 1995, kl. 15:23:51 (1690)

1995-12-07 15:23:51# 120. lþ. 57.3 fundur 215. mál: #A húsnæðisstofnun ríkisins# (lánstími húsbréfa o.fl.) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur


[15:23]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Málsvörnin er nú erfið hjá hæstv. félmrh. Svarræða hans gekk ekki út á það að reyna að halda því fram að í frumvarpinu fælust neinar efndir á kosningaloforðum Framsóknar. Nei, það viðurkenndi hæstv. ráðherra í ræðu sinni. Nú er vörnin sú að það sé meira væntanlegt. Að þetta sé ekki allt sem hæstv. ráðherra langi til að gera. Að þetta sé gott svo langt sem það nái en síðan sé meira góðgæti í vændum. Þetta er nú hógvær málsvörn og ber vott um erfiða stöðu hæstv. ráðherra. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að lengja aðeins þessi orðaskipti hér á eftir og sérstaklega hef ég áhuga á því að fara aðeins betur yfir aðferðafræði Framsfl. Það kemur í ljós að einmitt Framsfl. á margt skylt með vafasamari hluta lögfræðingastéttarinnar sem er þekktur fyrir að hafa alls konar neðanmálsgreinar í samningum sem mönnum yfirsést gjarnan og þeir lesa ekki nógu vel. Þeir setja stafina sína undir og svo kemur það upp úr dúrnum að þetta og hitt er nú svona og hinsegin. Smáa letrið segir eitthvað allt annað en aðalmálið í samningnum. Það er nákvæmlega þetta sem hæstv. ráðherra er að segja okkur, að það sé svona alls konar smátt letur í kosningaloforðum Framsóknar sem mönnum hafi yfirsést að lesa. Það eigi alls ekki að standa við þetta allt strax. Þannig var það til að mynda líka með 12.000 störfin að það er víst misskilningur að þeim hafi verið lofað. Þetta hafi bara verið þannig að það þurfi 12.000 störf.

Varðandi stöðumælasektir vil ég segja það við hæstv. ráðherra að það þýðir ekkert fyrir hann að vera í fýlu við Akureyringa þó hæstv. ráðherra hafi gleymt að borga þar í stöðumæli og síðan trassað að greiða sektina þangað til að hún var komin í 40 þús. kr. Þetta segir auðvitað bara meira um óráðsíu hæstv. ráðherrans í persónulegum fjármálum eða vinar hans sem hann hefur þá söguna frá, heldur en um Akureyringa. Ég vil láta það koma fram úr því að vegið er að stöðumælamálum á Akureyri að þar er þó enn hægt að borga í stöðumæli með tíu króna peningum. Slíkt er ekki í boði hér syðra. Að þessu leyti er þó sanngjarnari gjaldtaka norðan heiða en annars staðar.