Húsnæðisstofnun ríkisins

Fimmtudaginn 07. desember 1995, kl. 15:28:31 (1692)

1995-12-07 15:28:31# 120. lþ. 57.3 fundur 215. mál: #A húsnæðisstofnun ríkisins# (lánstími húsbréfa o.fl.) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur


[15:28]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það koma enn gullkorn um þessa stórkostlegu ,,Höllustaðahagfræði``. Nú er það nýjast að það nægi að framsóknarmenn tali um þörfina á störfum, þá taki þeim að fjölga. Hæstv. ráðherra tímasetur jafnvel fjölgun starfa í landinu við það að framsóknarmenn héldu flokksþing í fyrrahaust og hófu þar upp raust sína um 12.000 störf. Það var eins og við manninn mælt að þá tóku að bætast við ný störf. Mikill kyngikraftur fylgir nú orðum framsóknarmanna. Ég endurtek það að mér finnst málsvörn hæstv. ráðherra harla óburðug. Ég minni til að mynda á að ekki í einu einasta atriði er verið að létta af eða taka til baka þær íþyngjandi aðgerðir sem fyrri ríkisstjórn greip til gagnvart húsbyggjendum og framsóknarmenn töluðu einmitt mikið um og að hluta til ályktuðu um fyrir kosningar. Það er ekki verið að lækka vextina. Það er ekki verið að afnema skerðingu vaxtabóta eða neitt af því tagi. Þannig að auðvitað er það alveg út í hafsauga að hér sé á ferðinni svo mikið sem mælanleg viðleitni af hálfu Framsfl. til að standa við stóru kosningaloforðin.

Varðandi það að ég taki stórt upp í mig og sé vanur stórum yfirlýsingum úr mínum flokki, þá vísa ég til þess sem hæstv. ráðherra sagði sjálfur, að ég ber ekki ábyrgð á öllu sem menn segja í mínum flokki frekar en hæstv. ráðherra.