Húsnæðisstofnun ríkisins

Fimmtudaginn 07. desember 1995, kl. 15:30:38 (1694)

1995-12-07 15:30:38# 120. lþ. 57.3 fundur 215. mál: #A húsnæðisstofnun ríkisins# (lánstími húsbréfa o.fl.) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur


[15:30]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. félmrh. sagði áðan að af mínu máli hefði mátt ráða ég mér þætti ástandið harla gott. Það getur vel verið að hæstv. ráðherranum hafi fundist eðlilegt að lesa það út. Hins vegar kom það ekki fram en það kom þó greinilega fram að mér þótti ástandið heldur verra en honum, a.m.k. miðað við þau úrræði sem hann býður upp á. Í máli hans kom fram að hann hefði ekki lesið grg. og þá spyr maður: Las hann þá örugglega frv. því hann segir að það sé gott svo langt sem það nær? Ég hélt að hér hefði verið farið vandlega yfir það að það getur ekki verið gott svo langt sem það nær ef menn eru að miða við þau markmið sem sett voru upp. Þá hefur einhvers staðar eitthvað skolast illilega til vegna þess að hefðu þau skilyrði, sem eiga að taka gildi samkvæmt frv., gilt frá 1993 hefði einungis lítill hluti þeirra, sem hafa þó fengið greiðslustöðvun og skuldbreytingu, fengið þá meðferð. Þrengingarnar í því frv. sem við höfum hér til meðferðar eru það miklar frá því ástandi sem nú er.

Virðulegi forseti. Ég lagði ekki mat á það. Það gerði hins vegar hæstv. félmrh. og það gerði flokkur hans rækilega í kosningabaráttunni. Það er auðvitað það viðmið sem menn setja upp þegar verið er að fjalla um þessi mál. Ég get hins vegar sagt hæstv. félmrh. frá því hvað ég er sérstaklega óánægð með í því kerfi sem nú er. Ég er t.d. óánægð með að vaxtabætur skuli ekki mæta þörfum venjulegs fólks með þeim hætti sem þyrfti að vera. Ég er líka óánægð með að ódýrt leiguhúsnæði skuli ekki vera í meira mæli á markaði en raun ber vitni. Af því hæstv. ráðherrann nefndi það hér áðan sem hluta af lausn á vanda vil ég taka undir það og mun ekki liggja á liði mínu að styðja ráðherrann í þeirri viðleitni hans þegar það frv. birtist vonandi sem fyrst.