Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Fimmtudaginn 07. desember 1995, kl. 16:41:55 (1706)

1995-12-07 16:41:55# 120. lþ. 57.4 fundur 221. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (yfirstjórn, rýmingarsvæði, ofanflóðasjóður o.fl.) frv., MS
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur


[16:41]

Magnús Stefánsson:

Virðulegur forseti. Hér er á ferðinni mjög mikilvægt mál og ég vil taka undir með hæstv. forsrh. að það er nauðsynlegt að það fái skjóta afgreiðslu á hv. Alþingi. Ég vil lýsa því yfir að ég er sammála þeim breytingum sem hér eru á ferðinni, þ.e. að Veðurstofa Íslands taki yfir þennan málaflokk og mér sýnist að þær breytingar sem koma fram í frv. muni verða til bóta.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að ræða frv. efnislega að öðru leyti en því að það er eitt atriði sem ég mælist til að hv. allshn. taki sérstaklega til skoðunar. Það er ákvæði í 5. gr. frv. þar sem um er að ræða nýbyggingar á áður óbyggðum hættusvæðum eða þéttingu byggðar á hættusvæðum. Þar er tekið fram að heimilt sé að byggja á hættusvæðum að því tilskildu að viðunandi varnarvirkjum hafi verið komið upp. Ég tel að þetta sé atriði sem skoða þurfi mjög vandlega. Það fylgir því auðvitað mjög mikil ábyrgð að heimila byggingar á svæðum sem hafa verið skilgreind sem hættusvæði. Ég vil beina þeim tilmælum til hv. allshn. að hún fari mjög vandlega yfir þetta mál.

Aðrar athugasemdir hef ég ekki við þetta frv. að gera. En eins og ég sagði áðan vil ég taka undir það með hæstv. forsrh. að nauðsynlegt er að hraða þessu máli.