Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Fimmtudaginn 07. desember 1995, kl. 16:58:21 (1710)

1995-12-07 16:58:21# 120. lþ. 57.4 fundur 221. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (yfirstjórn, rýmingarsvæði, ofanflóðasjóður o.fl.) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur


[16:58]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var aðeins út af fyrirspurn hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur sem hún beindi til mín um það hvernig ég teldi að Veðurstofa Íslands væri undirbúin til að taka við því viðamikla verkefni sem henni er fengið og vissulega er rétt að hér er verið að leggja á hana viðbótarskyldur. Hún hefur að vísu haft veigamiklu hlutverki að gegna í sambandi við málaflokkinn, þessi viðkvæmu og erfiðu mál eins og allir vita. En það kom fram í framsöguræðu hæstv. forsrh. með frv. að ríkisstjórnin hefur samþykkt að beina því til hv. fjárln. og þar með Alþingis að veita Veðurstofunni auknar fjárveitingar í framhaldi af þeim skyldum sem lagðar eru á hana samkvæmt frv. Það mun og hafa komið fram hjá hæstv. forsrh. að áætlað er að útgjöld Veðurstofunnar muni aukast um 12--13 millj. á næsta ári vegna þessa máls sérstaklega og farið verður fram á það við Alþingi að auka fjárveitingar til stofnunarinnar í samræmi við það.

Auk þess má benda á umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. sem er fskj. nr. 2 með frv. og þar segir m.a. í 1. tölul., með leyfi forseta:

,,Nú er hins vegar gert ráð fyrir að leggja ofanflóðanefnd niður og má ætla að útgjöld umhvrn. vegna umsýslu með ofanflóðasjóði og fleiru sem tengist þessum málaflokki geti samsvarað kostnaði við um hálft stöðugildi eða um 1 millj. kr á ári.``

Í öðru lagi er talað um kostnað sem gæti orðið til vegna ofanflóðanefndar sem nemur 400--500 þús. kr. á ári. Í þriðja lagi er í 3. tölul. fjallað sérstaklega um það sem ég var að gera grein fyrir og kom fram í máli hæstv. forsrh., að auðvitað hefur nú þegar verið ákveðið að leggja til Veðurstofunnar fjárveitingu í fjáraukalögum upp á 9 millj. kr. sem er samkvæmt samþykkt sem ríkisstjórnin gerði fyrr á þessu ári. Síðan er í fjárlagafrv. gert ráð fyrir í framhaldi af því að útgjöld til stofnunarinnar verði aukin um 15 millj. og nú um 12--13 millj. í viðbót. Það er því umtalsvert fé sem fer til Veðurstofunnar tengt þessu máli öllu saman á fjárlögum næsta árs.