Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Fimmtudaginn 07. desember 1995, kl. 17:23:52 (1713)

1995-12-07 17:23:52# 120. lþ. 57.4 fundur 221. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (yfirstjórn, rýmingarsvæði, ofanflóðasjóður o.fl.) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur


[17:23]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Lögð er áhersla á það að vinnu við þetta frv. verði flýtt og við munum sameinast um að tryggja lagasetningu fyrir jólafrí. Ég læt þess getið að við höfum rætt það í þingflokki Alþfl. sérstaklega og erum staðráðin í því að veita þessu frv. þann stuðning og tryggja framgang þess svo sem unnt er. Hins vegar vil ég, virðulegi forseti, af því tilefni nefna það sérstaklega hve slæmt það er að mjög mörg stór og mikilvæg mál koma fram núna þessa dagana og öllum er þeim ætlað að fá góða umfjöllun og hraða meðferð í þinginu og öllum er þeim ætlað að vera afgreidd fyrir jól. Við erum því óvanalega seint á ferð með mörg stór mál og ekki síst ríkisfjármálin sem var verið að dreifa hér.

Ég tel að við getum fallist á meginatriði þessa frv. sem hér er rætt. Ég legg þó áherslu á það sem hæstv. forsrh. nefndi í framsögu sinni að vald og ábyrgð fari saman. Þetta tek ég undir. Það er óviðunandi þegar forræði máls eða málaflokks er óljóst og það er ekki laust við að þannig hafi það verið í því sem snýr að ofanflóðamálum. Það fundum við vel sem vorum í forsvari fyrir félags- og umhverfismál á sl. vetri þegar hörmungar dundu yfir. Samkvæmt gildandi lögum er talsvert mikil skörun í þeim málum sem snúa að umhverfis- og félagsmálum en í þessum efnum á ekki að leika neinn vafi á því hver á að taka á málum, hver á að halda utan um hina ýmsu þætti sem upp koma. Þess vegna er mjög mikilvægt að ráðherra hafi fullt og óskorað umboð varðandi þau atriði sem að honum snúa. Auðvitað munu ráðherrar fleiri ráðuneyta en umhvrn. koma að málum vegna ofanflóða, sérstaklega á hættustund. Þá kemur m.a. til hlutverk lögreglustjóra og Almannavarna og þar með talið dómsmrh. Að þessu frv. samþykktu sýnist mér að félmrh. verði fyrst og fremst með þætti sveitarstjórnar á hendi en umhvrh. að mestu með forræði annarra þeirra mála sem snúa að ofanflóðum og ofanflóðavörnum. Veðurstofan verði með rannsóknir, forvarnir og hættumat og þar er auðvitað lykilatriði að gott samráð verði milli Veðurstofu og almannavarna heima í héraði og það verði fullkomlega hnökralaust.

Margar góðar ábendingar hafa komið fram í umræðunni í dag og það er mikilvægt að nefnd skoði það og fari rækilega yfir því að það er mjög mikilvægt að vel takist til með þessa lagasetningu nú.

Virðulegi forseti. Ég ætla einungis að benda á eitt atriði til viðbótar því sem hér hefur verið sagt. Það er breyting á 11. gr. laganna. Eins og segir í greinargerð á bls. 4: ,,Gert er ráð fyrir að ofanflóðasjóður verði áfram í vörslu Viðlagatryggingar Íslands, en umhvrh. ákveði fjárveitingar úr sjóðnum að fengnum tillögum Veðurstofunnar að því er varðar 1.--3. tölul. 11. gr. laganna en sérstakrar nefndar sem skipuð er fulltrúum umhvrh., félmrh. og Sambands ísl. sveitarfélaga að því er varðar 4.--5. tölul.`` Þarna finnst mér að einmitt sé verið að gera það sem ekki má gera, þ.e. búa til skörun á milli ólíkra aðila um ákvörðun. Þetta þýðir að Veðurstofan gerir tillögu um greiðslur úr ofanflóðasjóði varðandi kostnað vegna athugana, varðandi kostnað vegna gerð hættumats, kostnað við kaup á uppsetningu á tækjum og búnaði vegna rannsókna og eftirlits. Hins vegar þegar kemur að því að greiða má kostnað við undirbúning og framkvæmdir við varnarvirki og flutning vegna varna og viðhald varnarvirkja á allt annar aðili að gera tilögur, sérstök nefnd sem skipuð er fulltrúum þriggja ráðuneyta. Ég hef á tilfinningunni að þarna gæti einmitt orðið óljóst forræði og ábyrgðarlaus aðili sem halda á utan um fjármál ofanflóðasjóðs.

Virðulegi forseti. Ég tel mjög mikilvægt að einhver einn aðili sjái um fjármál ofanflóðasjóðsins. Þegar litið er til þess að umhvrh. á að sjá um ákveðnar greiðslur og ýmist að taka ákvarðanir einn og sjálfur eða fá tillögur frá Veðurstofu eða fá tillögur frá sérstakri nefnd geti þarna orðið það flot sem á einmitt ekki að vera í svo mikilvægu máli. Þetta mundi ég leggja til að yrði skoðað alveg sérstaklega.