Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Fimmtudaginn 07. desember 1995, kl. 17:52:04 (1717)

1995-12-07 17:52:04# 120. lþ. 57.4 fundur 221. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (yfirstjórn, rýmingarsvæði, ofanflóðasjóður o.fl.) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur


[17:52]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Varðandi snjóflóðavarnir sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson minntist á í Ólafsvík vil ég aðeins segja frá því að þar voru settar upp snjóflóðavarnir um 1986. Annars vegar var sett á brúnir fjallsins fyrir ofan heilsugæslustöðina spjöld sem áttu að beina snjónum af brúninni og hins vegar voru sett net í hlíðina til þess að halda snjóþunganum. Spjöldin sem voru höfð uppi á brún virkuðu ekki að mati manna og fuku reyndar í burtu og var talið af kunnáttumönnum að þau gögnuðu lítið í sambandi við að bægja snjónum í einhverjar aðrar áttir. Menn ákváðu því að láta netin sem voru í hlíðinni duga. Ég held að það hafi verið góð ráðstöfun og það má kannski segja að netin mættu verið fleiri. Að því leyti til var sú snjóflóðavörn skynsamleg og mætti kannski huga að henni á fleiri stöðum.

Varðandi þátt sveitarstjórna er ég alveg sammála hv. þm. í því að það er betra að þetta sé í höndum Veðurstofunnar, eins og ég sagði reyndar áðan. Það er oft mjög persónulegt og erfitt viðfangs að vera að slást við fólk um það að fara úr húsum sínum sem hefur af einhverjum ástæðum talið sig þurfa að vera þar eða hefur þá trú að þar muni aldrei neitt geta gerst. Þetta eru mjög erfið mál og viðkvæm. Að þessu leyti held ég því að það hafi verið skynsamleg ráðstöfun að fara með þetta til Veðurstofunnar. Þótt hún hljóti í öllum tilfellum að þurfa að hafa mjög náið samráð við heimamenn í öllu sínu mati, þá er endanleg ákvörðun þeirra. Og það er betra að það sé úr fjarlægð.

Varðandi rannsóknir í þessu efni er mjög nauðsynlegt finna upp snjóflóðavarnir svo ekki þurfi að rjúfa byggð eða færa fólk af heilu svæðunum í burtu og skilja þorpin eftir í sárum sem seint munu gróa. En að sjálfsögðu er líf fólks númer eitt og þannig þurfa þessi mál að vera unnin.