Skýrsla um útbreiðslu fíkniefna og þróun ofbeldis

Föstudaginn 08. desember 1995, kl. 10:35:39 (1721)

1995-12-08 10:35:39# 120. lþ. 58.91 fundur 130#B skýrsla um útbreiðslu fíkniefna og þróun ofbeldis# (aths. um störf þingsins), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur


[10:35]

Svanfríður Jónasdóttir:

Forseti. Eftir að þing kom saman í haust var það samkomulag þingmanna að biðja um skýrslu um útbreiðslu fíkniefna og þróun ofbeldis. Sú ákvörðun byggði á áhyggjum þingmanna á því ástandi sem verið hefur að skapast, einkum og sér í lagi vegna aukinnar notkunar fíkniefna og afleiðinga þess. Beiðni um skýrslu þessa efnis var samþykkt með 42 samhljóða atkvæðum athugasemdalaust hér á Alþingi um miðjan október og var beint til forsrh. þar sem efni skýrslubeiðninnar var viðamikið og snerti fleiri en eitt ráðuneyti eða stofnun.

Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir vakti athygli þingsins á samþykkt Sambands sveitarfélaga um vaxandi vanda vegna aukinnar fíkniefnanotkunar en lét þess þá getið að þingið ætti í vændum skýrslu sem við mundum taka til umræðu þegar bærist og á sameiginlegum fundi formanna þingflokka og forsætisnefndar sl. þriðjudag vakti hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir athygli manna á nauðsyn þess að taka vaxandi vanda vegna fíkniefna til umfjöllunar hér á hv. Alþingi. Þá var enn minnst á væntanlega skýrslu.

Skýrslubeiðendur könnuðu því hvað liði gerð skýrslunnar og komust að því að það var alls ekki verið að vinna hana. Í ljós hefur komið að forsrh. virðist hafa vísað beiðni þingsins frá sér með bréfi sem hann sendir fljótt eftir að hún berst honum, þ.e. strax upp úr miðjum október. En forseti þingsins virðist ekki gera meira með það bréf en svo að þinginu er aldrei gerð grein fyrir stöðu málsins og menn látnir standa í þeirri meiningu að verið væri að vinna skýrsluna, enda það ekki verið leiðrétt þegar tilefni hafa gefist til eins og ég hef rakið.

Nú hef ég, eins og við öll, heyrt orð forseta um umhyggju hans fyrir virðingu og stöðu Alþingis. Eitt af því er staða þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Er eðlilegt að forsrh. ákveði það einn og sjálfur hvernig með skuli fara og láti ekki einu sinni á það reyna hvort þær stofnanir og ráðuneyti sem hefðu fengið málið til umfjöllunar gætu sinnt því innan tilsetts tíma.

Forseti. Mér er sagt af mér þingreyndara fólki að þetta sé fáheyrt ef ekki einsdæmi og þá ekki síður að forseti Alþingis láti það síðan yfir þingið ganga án þess að aðhafast. Eða hvað hyggst hann gera til að rétta hlut Alþingis?