Skýrsla um útbreiðslu fíkniefna og þróun ofbeldis

Föstudaginn 08. desember 1995, kl. 10:55:42 (1733)

1995-12-08 10:55:42# 120. lþ. 58.91 fundur 130#B skýrsla um útbreiðslu fíkniefna og þróun ofbeldis# (aths. um störf þingsins), SvanJ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur


[10:55]

Svanfríður Jónasdóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vildi fá orðið aftur til þess að ræða stjórn fundarins. Mér er ljóst að sú umgjörð, sem okkur er sköpuð með lögum þar að lútandi varðandi það hversu mikið og hversu lengi við megum tala, er nokkuð knöpp, en eigi að síður tel ég og vil halda því hér fram að mér beri ekki minni réttur til þess að fjalla um málið en forseta af forsetastóli, það mál sem hér var til umræðu áður. Mér er það ljóst að sú skýrsla, sem beðið var um, var viðamikil, en það mál átti þá að ræða á sínum tíma. Mér er heldur ekki kunnugt og það kom ekki fram hvort það var í raun og veru athugað hversu langan tíma eða hversu mikla peninga það kostaði að draga saman þær upplýsingar sem þarna átti að draga saman. Sumar þeirra liggja reyndar fyrir nú þegar.

Ég vil, herra forseti, að það komi fram hérna, og undirstrika það sem þegar hefur komið fram, að mikill áhugi er á því að fá upplýsingar um þessi mál til að þingheimur geti rætt þau, eins og forseti var að nefna sjálfur, á grundvelli þeirra staðreynda sem fyrir liggja í málinu.