Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Föstudaginn 08. desember 1995, kl. 13:49:02 (1743)

1995-12-08 13:49:02# 120. lþ. 58.4 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur


[13:49]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Áður en ég fór að skoða frv. sem hér liggur fyrir og er til umræðu, átti ég sannast að segja ekki von á miklum tíðindum í því. Ég hafði grun um að ríkisstjórnin mundi falla frá þeim áformum að leggja á innritunargjöld á sjúkrahúsum og mér sýndist, ef frá eru taldar þær aðgerðir sem snúa að öryrkjum og gamla fólkinu, að kannski yrði ekki mjög margt í þessu frv. sem til tíðinda teldist. En annað er nú heldur betur komið í ljós. Hér eru boðuð mikil tíðindi.

Í fyrsta lagi á sér stað ákveðin stefnubreyting sem felst í því að nú á að afnema fjölda laga þar sem kveðið er á um markaða tekjustofna til ýmissa málaflokka eins og t.d. til Listskreytingasjóðs ríkisins, til Kvikmyndasjóðs og fleiri mála sem ég mun koma að síðar. Í staðinn verði kveðið á um fasta fjárhæð til þessara málefna í fjárlagafrv. hvers árs. Í þessu felst mikil stefnubreyting. Það er nefnilega svo að á undanförnum árum hafa verið samþykkt ótal lög á hinu háa Alþingi þar sem verið er að reyna með einum og öðrum hætti að tryggja fjármagn til ákveðinna málefna. Með þeirri breytingu sem hér er verið að leggja til gerist það að menn verða að leita sérstaklega í fjárlagafrv. eftir þessum atriðum og sjá hvernig þeim reiðir af á ári hverju og þar með verður það baráttumál á hverju einasta ári að reyna að sjá þessum málefnum farborða. Að vísu hafa fjárframlög á undanförnum árum verið stórlega skert til þeirra mála sem hér er kveðið á um. En það felst í þessu ákveðin stefnubreyting.

Í öðru lagi er hér að finna þau tíðindi sem boðuð voru í fjárlagafrv. þess efnis að afnema það sem hæstv. ríkisstjórn kallar sjálfvirkar hækkanir, þ.e. þær hækkanir á bótum sem öryrkjar og aldraðir hafa fengið í kjölfar kjarasamninga. Þær munu ekki koma til þeirra með sama hætti og áður og gott ef þær koma nokkuð. Þá tel ég það meðal allra stærstu tíðinda þessa frv. framlag hæstv. dómsmrh. þar sem kveðið er á um stórfelldar lækkanir á greiðslum til þolenda afbrota. Þær eru stórlækkaðar fyrir utan það að gildistöku er frestað. Ég á bara ekki orð yfir þessari tillögu. Mér finnst þetta nöturleg tillaga eftir þá baráttu sem átt hefur sér stað og þá samstöðu sem náðist um þetta mál. Að hæstv. dómsmrh. skuli leyfa sér að leggja þetta fram með þessum hætti er svo hrikalegt að það ná engin orð yfir það. Ég ætla reyndar, hæstv. forseti, að koma inn á það hér á eftir.

Þá verður líka að telja til tíðinda að hér eru skerðingar á ýmsum framlögum auk þess sem ný gjöld eins og t.d. veiðieftirlitsgjald til krókaleyfishafa er tekið upp. Einnig verður að telja það líka til tíðinda að fallið var frá innritunargjöldum á sjúkrahúsum sem ég fagna vissulega.

Við höfum á undanförnum árum komist þannig að orði um þessi frumvörp sem kallast ráðstafanir í ríkisfjármálum að þar sé á ferðinni hið versta lagasukk. Hér er verið að blanda saman og hræra saman alls óskyldum málum. Í þessu frv. er m.a. að finna nokkrar lagagreinar sem koma ráðstöfunum í ríkisfjármálum ekki nokkurn skapaðan hlut við, heldur er tækifærið notað til að gera einhverjar breytingar eins og t.d. hvað varðar heilsugæslustöðvar. Þær koma ráðstöfunum í ríkisfjármálum ekki nokkurn skapaðan hlut við og ég tek undir og ítreka þá gagnrýni sem hér hefur komið fram um það að sú aðferð sem hér er viðhöfð með því að taka hvorki meira né minna en 33 lög, sulla þeim saman í ein lög, nær auðvitað ekki nokkurri átt og er Alþingi til skammar. Ég get ekki annað sagt, hæstv. forseti.

Í frv. felst það að með þessum lagabreytingum á að ná 922 millj. kr. sparnaði. Sá sparnaður felst í því að það er klipið af hér og þar í stað þess að fara út í raunverulega uppstokkun í ríkisfjármálum, spyrja sig grundvallarspurningar: Er hugsanlegt að leggja niður ríkisstofnanir? Er hugsanlegt að breyta þeim þannig að verulegur sparnaður geti átt sér stað? Er hugsanlegt að taka upp nýjar áherslur í ríkisfjármálum, t.d. í heilbrigðiskerfinu, þannig að varanlegur sparnaður náist í stað þess að vera með þennan flata niðurskurð og vera stöðugt að pína og þrengja ólarnar hjá öllum okkar ágætu ríkisstofnunum?

Hæstv. forsrh. minntist á kjaramál í framsöguræðu sinni og vissulega koma þau hér nokkuð við sögu. Sem betur fer er enn tími til stefnu til að vekja athygli fólks á því hvað hér er verið að gera. Mér segir svo hugur að enn séu ekki öll kurl komin til grafar og verkalýðshreyfingin eigi ekki eftir að láta enn betur frá sér heyra þegar hún sér hvað hér er á ferð. Svo sem kunnugt er hafa verkalýðshreyfingin og samtök launafólks staðið vörð um málefni öryrkja og aldraðra og ég vona svo sannarlega að þungi þeirrar baráttu eigi eftir að aukast. Ég vil líka vekja athygli á því að í húsinu er fatlað fólk sem er hingað komið til þess að vekja athygli á þeim hrikalegu skerðingum sem það fólk verður fyrir.

Ég ætla að víkja hér að einstökum málum, hæstv. forseti, og þá kem ég auðvitað fyrst að þeim lagabreytingum sem ég tel að feli í sér stefnubreytingu, þ.e. að framlög sem áður voru markaðir tekjustofnar verða nú ákveðin á fjárlögum og þar verða fyrst fyrir Listskreytingasjóður ríkisins og Kvikmyndasjóður. Ég verð að segja, hæstv. forseti, að ég hef verulegar áhyggjur af því hvað þetta muni þýða. Framlög til þessara mála hafa verið skert undanfarin ár og ég óttast mjög að svo verði áfram og það sé hreint ekki ætlun þessarar ríkisstjórnar að gera þar á bragarbót. Á hverju ári að undanförnu hefur átt sér stað mikil barátta fyrir því að fá aukin framlög til kvikmyndagerðar og ég held að það hljóti öllum að vera ljóst að á undanförnum árum hafa orðið mikil tíðindi í íslenskri kvikmyndagerð. Hér hafa komið fram leikstjórar sem vakið hafa verulega athygli erlendis og hér er t.d. núna verið að sýna nýjar íslenskar kvikmyndir sem eflaust eiga eftir að vekja enn meiri athygli erlendis. Ég nefni þar t.d. Tár úr steini og Benjamín dúfu sem eiga vonandi eftir að komast á erlendan markað. Við skulum heldur ekki gleyma því að kvikmyndagerð er atvinnuskapandi. Hún ber hróður Íslands til annarra landa og hefur áhrif á ferðaþjónustu hér á landi þótt það kunni að skila sér seinna. Ég vara því stórlega við því að menn séu að leika sér með þessi mál og menn séu að skerða framlög til kvikmynda. Ég vona að Alþingi standi vörð um þann málaflokk.

Ég vil víkja alveg sérstaklega að þjóðminjalögum, þ.e. húsafriðunarsjóði, og tek undir það sem fram kom í morgun í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Þessi aðferð sem hér er tekin upp er auðvitað fáheyrð, algerlega fáheyrð. Sveitarfélögunum er gert að greiða sinn hluta, 150 kr. á hvern íbúa í sveitarfélagi. Samkvæmt gildandi lögum á ríkið að leggja fram fé til mótvægis, sömu upphæð á móti sveitarfélögunum, en nú ætlar ríkið bara að ákveða sinn hlut eftir því sem því þóknast. Þetta finnst mér afar slæmt vegna þess að þörfin fyrir fjárframlög úr húsafriðunarsjóði er gríðarleg og miklu meiri en sjóðurinn getur annað. Ég vil vekja sérstaka athygli á því að þarna eru á ferð verkefni sem skapa mikla vinnu. Þess vegna er þessum peningum afar vel varið bæði til þeirra sem fá vinnu við viðgerðir og endurbyggingar jafnframt því að fegra bæi og að varðveita menningarverðmæti. Ég vara því sérstaklega við því að ríkið fari þessa leið. Það hefur reyndar á undanförnum árum skert framlög til húsafriðunar en nú er lögunum breytt eins og hér segir, með leyfi forseta: ,,framlag ríkissjóðs eftir því sem ákveðið er í fjárlögum``. Þetta kallar á ákveðna hættu.

[14:00]

Eins og ég hef vikið að er verið að breyta 33 lögum hérna þannig að ég verð að hlaupa yfir þetta og reyna að taka á þeim málum sem mér finnst vera mikilvægust. Þá kem ég næst að því sem ég gat um í inngangi máls míns, þ.e. þeirri tillögu sem kemur frá hæstv. dómsmrh. um breytingu á lögunum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota. Eins og ég sagði áðan finnast mér þetta nöturlegar tillögur. Þær eru hreint og klárt nöturlegar. Lögin voru samþykkt á þessu ári. Þegar við fjárlög ársins 1996 kom fram tillaga um að fresta þessum greiðslum alfarið og síðan með þessum hætti, sem er auðvitað varanleg breyting. Hér er ekki bara verið að taka afstöðu til einhverra mánaða. Þetta felur í sér varanlega lagabreytingu nema það takist að knýja í gegn síðar meir breytingu á því. Það er verið að skerða bæturnar frá því sem ákveðið hafði verið fyrr á þessu ári. Maður hlýtur að leita eftir röksemdum. Það kemur fram hér í grg. fjmrn. að með þessu á að spara 40 millj. Ef einhvers staðar er verið að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur, þá er það í þessu. Þetta er svo ömurlegt að manni fallast hendur frammi fyrir þessu. T.d. tillagan hér í 18. gr., lið D, um það að lækka bætur fyrir missi framfæranda úr 3 millj. í 750 þús. kr. Það felst í þessum lögum að ríkið er að gangast í ábyrgð. Það er að reyna að tryggja það að þeir sem eru þolendur afbrota fái sínar bætur. En það er eins og menn reikni ekki með því að ríkið nái einhverju inn á móti. Auðvitað er það þannig í mörgum tilfellum að brotamenn eru ekki færir um að greiða nokkurn skapaðan hlut. En oft og tíðum er um mjög alvarleg brot að ræða og þá minni ég ekki síst á nauðganir og kynferðislega misnotkun. Eins og komið hefur fram í umræðum um þau mál er þeim líkt við snjóflóð eða áföll sem fólk verður fyrir vegna náttúruhamfara. Þetta er mjög sambærilegt áfall sem fólk verður fyrir og mér finnst þessi útfærsla ríkisstjórnarinnar á þessu máli hreint út sagt alveg hrikaleg og við hljótum að beita okkur gegn þessu af mikilli hörku. Ég bið meiri hlutann hér á Alþingi að skoða þetta mál alveg sérstaklega. Gætum við nú ekki reynt að ná þessum 40 millj. inn t.d. með því að spara ferðalög, dagpeninga og risnu ríkisins? Gætum við nú ekki lagt eitthvað á okkur (Gripið fram í.) Eða tekið á ýmsum safnliðum eins og hv. þm. Margrét Frímannsdóttir leggur til. Það er af ýmsu að taka og ég trúi ekki öðru en að við getum fundið þessar 40 millj., hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. Þetta er svo ömurlegt eins og ég segi, það ná ekki nokkur orð yfir þetta.

Hins vegar vil ég taka undir síðari tillögu hæstv. dómsmrh. sem hér er að finna og verð þar að hryggja minn ágæta vin, hv. þm. Einar K. Guðfinnsson. Ef menn eru að reyna að leita leiða til sparnaðar, hljóta menn að horfa á stjórnkerfið og þar eru sýslumenn ekki heilagri en aðrir. Ég get tekið undir það að sýslumannsembætti séu lögð niður á Ólafsfirði og í Bolungarvík og hefði gjarnan tekið undir það að lengra hefði verið gengið í þeim efnum eins og dómsmrh. gerði tilraun til fyrir nokkrum árum. En það var auðvitað kveðið niður af landsbyggðarþingmönnum. Við hljótum að leita leiða í stjórnkerfinu til þess að einfalda það þegar við erum að reyna að spara.

Enn verða fyrir mér stórmálin. Næst er það Framkvæmdasjóður fatlaðra. Þegar við í félmn. fórum yfir okkar hluta fjárlaganna staldraði minni hlutinn alveg sérstaklega við þá meðferð sem Framkvæmdasjóður fatlaðra sætir í frv. til fjárlaga og þessu frv. hér. Hér er verið að leita heimilda til þess að taka hluta af fé sjóðsins til tiltekinna rekstrarverkefna samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra, eins og segir í frv., með leyfi forseta. Í áliti okkar til fjárln. bentum við alveg sérstaklega á það að hér væri verið að fara út á mjög varasama braut. Hingað til hefur það fé sem komið hefur úr erfðafjársjóði runnið óskert í Framkvæmdasjóð fatlaðra þótt reyndar hafi hluti af því fé verið tekið til reksturs, m.a. til aðstoðar við fatlaða með ýmsum hætti. En hér er beinlínis verið að taka fé úr sjóðnum inn í ríkissjóð þótt reyndar komi fram að það eigi að fara í ýmsan annan rekstur. Til reksturs stofnana fatlaðra. En við vörum sérstaklega við því að það sé farið inn á þessa braut því við vitum það og reynslan hefur kennt okkur að það er erfitt að snúa til baka.

Þá koma hér næst fyrstu atriði þessa frv. sem snúa að því að taka vísitölu úr sambandi eða hinar sjálfvirku hækkanir, eins og ríkisstjórnin kallar það. Það snýr að atvinnuleysisbótum. Hér gerist það að þær eru ákvarðaðar sem ákveðin upphæð. Í því felst að vísu nokkur hækkun, þær hækka um 5,4% 1. janúar. Væntanlega er það nú í samræmi við þau loforð sem ríkisstjórnin gaf aðilum vinnumarkaðarins nú fyrir skömmu. Reyndar kemur hér líka fram að félmrh. er heimilt að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar að breyta bótafjárhæð um allt að 3% frá forsendum fjárlaga ef verulegar breytingar verða á þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga. Kannski reikna menn með því að þessi heimild rúmi þær kjarabreytingar sem hugsanlega kunna að verða á næsta ári. Ég reikna með að það sé hugsunin í þessu. Samt sem áður er þarna verið að festa ákveðna upphæð í lögunum.

Hæstv. fjmrh. Ég er að tala hér um atvinnuleysistryggingar. (Gripið fram í.) Það kemur hér fram, hæstv. fjmrh., að félmrh. verði heimilt að breyta bótafjárhæð um allt að 3% frá forsendu fjárlaga. Og ég velti því fyrir mér hvað þetta þýðir fyrir atvinnulaust fólk ef það verða meiri breytingar á launamarkaði en nemur 3% á næsta ári.

Þá kemur röðin að gamla fólkinu og öryrkjum. Hér er sama sagan. Það er verið að ákveða fastar upphæðir og jafnframt er hér kveðið á um að fjármagnstekjur verði til að skerða bætur almannatrygginga. Með þeim ákvæðum sem felast í 30.--34. gr. er ætlað að spara hvorki meira né minna en 90 millj. kr. Nú eru þess dæmi að gamalt fólk hefur verulegar fjármagnstekjur. Ég veit að hjá tryggingunum hefur verið tekið tillit til þess þegar t.d. er verið að sækja um sérstakar bætur, t.d. heimilisuppbót. Ég minnist þess, ég held það hafi verið í kosningabaráttunni 1991, að þá var okkur sagt dæmi af því á vinnustaðafundi í Tryggingastofnun að þar hefði verið sótt um sérstaka heimilisuppbót fyrir konu sem hafði 6 millj. kr. í fjármagnstekjur. Menn sáu auðvitað að þetta náði ekki nokkurri einustu átt. En hér er um það að ræða að fjármagnstekjur eiga að skerða bætur og hér er sem sagt verið að taka inn áhrif af fjármagnstekjum meðan ekki er búið að koma á fjármagnstekjuskatti. Bótaþegar eiga einir að verða fyrir því að þeirra fjármagnstekjur fari að hafa áhrif á kjör þeirra. Ég get fullkomlega sætt mig við það að slíkt gerist um leið og fjármagnstekjuskattur verður tekinn upp. En mér finnst þetta ekki réttlætanlegt gagnvart bótaþegum. En þetta skilar þó þessum 90 millj. kr. Þessu hafa aldraðir mótmælt og telja sig rangindum beitta með því að þeir einir þjóðfélagsþegna eigi nú að fara að gjalda þess að hafa fjármagnstekjur. Þetta er ekki réttlátt. Við erum að vísu að tala um almannafé úr tryggingunum. Við erum að leita leiða til þess að spara, bæði í heilbrigðis- og tryggingakerfinu. En það er ekki réttlætanlegt að byrja á gamla fólkinu með þessum hætti. Og þá má minnast þess að fyrir utan að festa í fjárlögum þá bótaupphæð sem aldraðir og öryrkjar fá er jafnframt í því skattafrv. sem er til meðferðar í efh.- og viðskn. gert ráð fyrir því að sá skattafsláttur sem gamla fólkið fékk vegna lífeyrisgreiðslna lækki. Í raun og veru er því verið að ráðast hér að gamla fólkinu með þrennum hætti. Það er sem sagt verið að festa bæturnar í krónutölu, það er verið að lækka skattafsláttinn vegna lífeyrisgreiðslna og í þriðja lagi er það fjármagnstekjuskattur á gamla fólkið. Þetta lýsir stefnu þessarar ríkisstjórnar og lýsir stefnu þessa frv. að það eru aldraðir, öryrkjar og einstæðir foreldrar sem verið er að spara á. Það er hópurinn sem á að borga brúsann.

Næst ætla ég að víkja að lögunum um félagslega aðstoð, sem er enn ein hörmungin hérna í þessu frv. Hér er verið að fella niður mæðra- og feðralaun með einu barni og með þessu á að spara hvorki meira né minna en 125 millj. Og hverjir eru það nú sem fá þessar bætur? Það eru einstæðir foreldrar. Það eru hreinlega felldar niður bætur með einu barni og síðan eru lækkaðar bætur með tveimur börnum og einnig með þremur börnum eða fleiri. Ég fékk hér áðan útprentun úr gildandi lögum og sem sýnir svart á hvítu að hér er verið að lækka bæturnar. Eins og ég segi, þetta er hópurinn sem á að spara á, einstæðir foreldrar.

Ég er ekki jafnósátt við þá breytingu sem felst í 42. gr., eða að fella niður ekkjulífeyri. Með því á að að spara 5 millj. kr. Það verður ekki felldur niður lífeyrir hjá þeim ekkjum sem hafa bætur og ég tek undir það með hæstv. heilbrrh. að líklega er þetta gamall arfur frá þeim tíma þegar konur voru ekki útivinnandi og höfðu ekki aðrar tekjur. Ég vil því ekki gagnrýna þetta sérstaklega.

Hæstv. forseti. Það er hér fleira sem snertir málefni aldraðra eins og t.d. það að festa gjaldið í Framkvæmdasjóð aldraðra við ákveðna krónutölu og þessi upphæð, eins og aðrar sem hér er kveðið á um, verða endurskoðaðar árlega við afgreiðslu fjárlaga. Ég leitaði upplýsinga bæði í skýringum með greininni og í umsögn fjmrn. og þar eru engar heimildir að finna. Á skýringunni við 45. gr. er ekkert að græða, þar kemur ekki fram hvort þetta er hækkun eða lækkun eða hvað þetta er. Fjármálaskrifstofan sleppir athugasemd við þessa grein. Og því er auðvitað sjálfsagt að spyrja hæstv. heilbrrh.: Er hér um hækkun á gjaldinu að ræða eða er þetta lækkun? (Fjmrh.: Í hvaða grein?) Þetta er í 45. gr. þessa frv. þar sem kveðið er á um gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra og hér er krónutalan 3.985 á hvern gjaldanda. (Fjmrh.: Frysting.) Þetta er frysting, þ.e. sama gjald og innheimt var á þessu ári. Þá hefur það verið skýrt. En það kemur ekki fram, hvorki í athugasemd með greininni né í umsögn fjárlagaskrifstofunnar þannig að það hefur greinilega verið ansi mikil hraðferð á frv. í gegnum kerfið.

[14:15]

Hæstv. forseti. Ég held að ég hafi vikið að flestum atriðum sem ég vil gera sérstakar athugasemdir við. Það er mjög margt í þessu frv. og það mun að sjálfsögðu taka nokkurn tíma fyrir nefndir þingsins að fara í gegnum öll þessi 33 mál sem hér eru lögð fyrir á einu bretti. Sum hver fela í sér verulegar breytingar eins og ég hef rakið og mér segir svo hugur um að þegar fregnir af frv. fara að berast fyrir alvöru út í samfélagið, fari ýmsir að átta sig á því að hér eru váleg tíðindi á ferð sem þarf að bregðast við.

Það er eflaust margt sem ég hef ekki komið inn á eins og t.d. skatturinn á smábátana sem ég þarf einfaldlega að kynna mér betur áður en ég tek afstöðu til hans. En við fyrstu sýn virðist ekki óeðilegt að þeir greiði þetta gjald eins og aðrir, en það kunna að vera ýmis sjónarmið hvað það varðar.

Að lokum, hæstv. forseti, vil ég í ítreka þá skoðun mína að lagasetning af þessu tagi sé ekki bjóðandi Alþingi og við hljótum að stefna að því að hætta þessu þannig að málin verði lögð fyrir sérhverja nefnd þingsins eins og lög gera ráð fyrir og ekki sé verið að grauta svona saman alls óskyldum málum. Mér finnst að það þurfi að skoða mjög rækilega hvort það eigi að hætta því almennt við lagasetningu að marka ákveðnum málum ákveðna tekjustofna. Það er stefna sem hefur verið ríkjandi um árabil að ákveða hvernig hinir ýmsu málaflokkar skulu fjármagnaðir, t.d. það að söluskattur eða virðisaukaskattur af kvikmyndasýningum renni til Kvikmyndasjóðs og ýmis gjöld sem hér er kveðið á um.

Ég einmitt minntist þess að hafa séð í frv. að það stæði ,,... áætluðum söluskatti ...``. Það stendur í athugasemd við 2. gr. ,,Í núgildandi lögum á það að nema áætluðum söluskatti af kvikmyndasýningum í landinu, ....`` (Gripið fram í.) Já, einmitt hæstv. fjmrh. Ég veit ekki annað en hér hafi verið tekinn upp virðisaukaskattur og þar af leiðandi þyrfti að breyta þessu í núgildandi lögum til að það sé eitthvert samræmi þarna á milli.

Hæstv. forseti. Hér eru atriði sem þarfnast verulegrar skoðunar og ég lýsi fullkominni andstöðu við þær tillögur sem snerta greiðslur á bótum til þolenda afbrota. Ég mótmæli harðlega þeirri aðför sem hér er gerð að öryrkjum og öldruðum og einstæðum foreldrum og lýsi áhyggjum mínum yfir því að sú stefna er tekin upp að fresta ákveðnar fjárhæðir í sessi, bæði hvað varðar bætur og framlög til ákveðinna málaflokka. Ég óttast mjög að þetta þýði áframhaldandi skerðingu til þessara málefna og nefni þar sérstaklega kvikmyndamál og húsafriðun sem eru hvort tveggja atvinnuskapandi greinar og mikilvægar frá menningarlegu sjónarmiði. Þetta verðum við að stöðva á hinu háa Alþingi.