Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Föstudaginn 08. desember 1995, kl. 14:22:52 (1744)

1995-12-08 14:22:52# 120. lþ. 58.4 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur


[14:22]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Satt að segja er þetta langstærsta mál þingsins til þessa sem hér er. Þetta er ekkert venjulegt fylgifrumvarp með ráðstöfunum ríkisstjórnar í efnahagsmálum. Við sem höfum setið hér um nokkurt skeið vitum að frumvörp um ráðstafanir í ríkisfjármálum hafa verið hefðbundin mjög lengi og hluti af þessum texta hér er úr gömlu lánsfjárlagafrumvörpunum, þ.e. skerðingarkaflinn var yfirleitt í lánsfjárlagafrumvörpunum þannig að ég geri ráð fyrir því að frumvörp af þessu tagi hafi alltaf verið flutt með fjárlagafrumvörpum síðustu áratugi. Ég kann satt að segja ekki að tímasetja það nákvæmlega.

Hins vegar er þetta frumvarp allt öðruvísi en öll hin og það eru dálítið alvarleg tíðindi ef okkur tekst ekki að ná rækilegri umfjöllun um það en horfur eru á að verði til jóla að óbreyttu. Þess vegna vil ég byrja á því að segja við hæstv. fjmrh. sem er auðvitað aðalábyrgðamaður þessa máls þó að hæstv. forsrh. hafi talað fyrir því eins og venja er til: Það eru þó nokkrar greinar í þessu frumvarpi, sennilega um helmingur þess eða meira sem er óþarfi að afgreiða fyrir jól. Það er algerlega út í loftið að vera að pína þingið til að afgreiða hluti af þessu tagi á handahlaupum síðustu dagana fyrir jól þegar engar efnislegar eða tæknilegar ástæður eru fyrir því.

Það er eins og kunnugt er, herra forseti, margra áratuga reynsla fyrir því að þegar fjárlög eru afgreidd er aðalatriðið að vilji ríkisstjórnarinnar og stefna í skattamálum og ríkisfjármálum liggi fyrir í þingskjölum en ekki endilega í staðföstum lagapappírum. Ég er með nokkur dæmi um einstakar hugmyndir um breytingar á lögum, grundvallarbreytingar á lögum sem engin rök eru fyrir að taka í gegnum þingið á næstu dögum. Það er fullkomin móðgun við Alþingi að ætlast til að það afgreiði málið, þannig að ég vil fara fram á það við hæstv. ríkisstjórn að hún kanni hvort það er ekki örugglega þannig, ég hygg að svo sé og veit það reyndar, að það sé algerlega ,,skaðlaust`` frá sjónarmiðum ríkisstjórnarinnar að verulegur hluti af þessu frumvarpi liggi því að það er engin þörf á að afgreiða það fyrir jól.

Í öðru lagi almennt um málið vil ég segja: Þetta er miklu viðameira frumvarp um ráðstafanir í ríkisfjármálum en nokkru sinni áður hefur verið flutt. Í fyrra var verið að breyta 24 lagabálkum með frumvarpinu um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Hér er verið að breyta 33 lagabálkum, þ.e. fleiri en nokkru sinni fyrr, miklu fleiri en áður og það segir þó ekki alla söguna því að í flestum tilvikum er um að ræða grundvallarbreytingu, ekki aðeins að þrátt fyrir ákvæði laga númer þetta og þetta skuli framlagið 1996 vera þetta, heldur er verið að rífa út úr lagabálkunum grundvallaratriði sem þau byggjast á, þ.e. peningana. Það sem skiptir máli er ekki hinn góði vilji sem einlægt stendur í þessum lögum heldur peningarnir sem eru í þeim.

Í þriðja lagi verð ég að segja þetta almennt um málið, hæstv. forseti. Ég tek undir það með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að málið er ekki nægilega skýrt fram lagt. Hvað er þetta? Hvernig rímar þetta mál við stöðuna í ríkisfjármálum að öðru leyti? Hvað er búið að afgreiða í fjárln.? Hvenær verður 2. umr. fjárlaga? Hvað er með niðurskurðinn eða sparnaðinn eða tekjuöflunina á móti þeim 1.000 millj. sem gert var ráð fyrir í yfirlýsingunni til aðila vinnumarkaðarins? Og ég vil fara fram á það við hæstv. fjmrh. að hann geri nákvæmlega grein fyrir því hvernig þessir hlutir ganga upp.

Í fyrsta lagi er það þannig að samkvæmt þessu frumvarpi sýnist mér og hefur komið fram áður, reyndar einnig í framsöguræðu hæstv. forsrh. hygg ég, að menn eru að taka niður ríkisútgjöld frá því sem ella væri á árinu 1996 um 920 millj. Ég sé ekki betur en það sé talan hér og hef reyndar heyrt hana nefnda.

Hitt liggur líka fyrir að í lok síðasta mánaðar gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu um kjaramál þar sem gert er ráð fyrir því að útgjaldaauki ríkissjóðs af eftirfarandi þremur ástæðum; atvinnuleysisbótum, almannatryggingum og vegna skattameðferðar lífeyrisiðgjalda, yrði í kringum 1.000 millj. kr. Ég hafði satt að segja gert ráð fyrir því að í þessu frumvarpi um ráðstafanir í ríkisfjármálum kæmi það fram eða í yfirlýsingu sem fylgdi því, hvernig ríkisstjórnin ætlaði að mæta þessu. En ég get ekki lesið málið öðruvísi núna á þessu stigi en að það sé ákvörðun hjá ríkisstjórninni að þessi milljarður bætist við áður áætlaðan halla á ríkissjóði á árinu 1996. Það hefur ekkert annað komið fram. Og ég spyr hæstv. fjmrh. hvernig hann setur þessar tölur upp þannig að við getum áttað okkur á því í hvaða samhengi þær eru.

Loks vil ég segja það, hæstv. forseti, í svona almennum inngangi um málið af minni hálfu og endurtaka það sem ég nefndi áðan: Þetta er bylting. Hér er verið að gjörbreyta velferðarkerfinu. Það er búið að segja þetta nokkuð oft úr þessum ræðustóli, bæði í dag og áður. Þetta var oft sagt á síðasta kjörtímabili líka. Þetta hefur iðulega verið sagt hérna. En hérna eru tekin, hæstv. forseti, öll lög sem mynda hjartað í velferðarlöggjöfinni á Íslandi og þeim er breytt í grundvallaratriðum að því leytinu til að engar fjárhagslegar tryggingar eru í þeim lengur fyrir einn eða neinn. Þetta eru lögin um almannatryggingar. Þetta eru lögin um heilbrigðisþjónustu. Þetta eru lögin um málefni fatlaðra. Þetta eru lögin um málefni aldraðra. Það er ekki of sterkt til orða tekið, herra forseti, að það er gengið um þessa lagabálka á skítugum skónum. Það er augljóst mál að hér er með öðrum orðum á ferðinni grundvallarbreyting, bylting að því er þessa hluti varðar.

[14:30]

Á síðasta kjörtímabili áttum við margar orðasennur við ráðherra Alþfl. um þessi mál sem þá stóðu í þessum skítverkum, liggur mér við að segja. Við vöruðum m.a. við því að ef þetta yrði gert þá, þýddi það fordæmi fyrir næstu stjórn. Það yrði auðveldara fyrir næstu íhaldsstjórn að ganga enn þá lengra. Það má segja að Alþfl. rétti litla fingurinn eða höndina, lúkuna, þar sem Framsfl. lætur eftir handlegginn. Og það verður ekki séð að hann æmti eða skræmti. Það verður ekki séð að þrátt fyrir hinar háværu yfirlýsingar Framsfl. allt síðasta kjörtímabil, þrátt fyrir ítarlegar umræður á Alþingi þar sem var verið að verja velferðarkerfið, þrátt fyrir ræður hæstv. núv. ráðherra, Finns Ingólfssonar, Ingibjargar Pálmadóttur og Páls Péturssonar til að verja velferðarkerfið er þetta ekki betra, þetta er verra. Hér er verið að taka tryggingarprinsippin fyrir alþýðu manna út úr öllum þessum lögum sem mynda hjarta velferðarlöggjafarinnar á Íslandi. Og eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon minnti á í morgun eru núna átök sums staðar í Vestur-Evrópu einmitt um mál af þessu tagi. Suður í Frakklandi eru menn nú að takast á um nákvæmlega sömu málin. Og ætlum við í þessari stofnun að vera þær lurfur að við látum bjóða okkur af hæstv. ríkisstjórn að hún knýi þetta mál í gegn á þeim örfáu dögum sem eftir lifa til jóla án þess að málið fái a.m.k. rækilega umræðu og meðferð í þessari stofnun? Auðvitað getur það ekki komið til greina.

Ég vil þess vegna segja það almennt að hér er um að ræða gríðarlega mikla breytingu sem nauðsynlegt er að fara rækilega yfir og verður það sjálfsagt gert núna við 1., 2. og 3. umr. málsins eftir því sem tilefni gefast til.

Hæstv. forseti. Í lok síðasta mánaðar gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu um kjaramál gagnvart Alþýðusambandinu og BSRB. Það var út af fyrir sig mikill árangur að ná þeirri yfirlýsingu, það er ekki nokkur leið að neita því. Það segir, með leyfi forseta:

,,Til að tryggja frið á vinnumarkaði og skapa traustari skilyrði fyrir sátt í þjóðfélaginu um kjaramál hefur ríkisstjórnin ákveðið eftirfarandi aðgerðir:

1. Atvinnuleysisbætur hækki 1. janúar 1996 (150 millj. kr.)

2. Bætur almannatrygginga hækki 1. janúar 1996 (450 millj. kr.)

3. Viðbótarfrádráttur lífeyrisiðgjalds launþega frá tekjuskatti frá og með 1. júlí 1996 komi til framkvæmda 1. janúar 1996 og viðbótarfrádráttur 1. júli 1997 komi til framkvæmda 1. júlí 1996 (400 millj. kr.).``

Hér er um að ræða einn milljarð. Hvað taldi verkalýðshreyfingin sig vera að vinna með þessu? Hún taldi sig vera að vinna það að tilraun ríkisstjórnarinnar til þess að afnema sjálfvirkar verðtengingar á þessum bótum almannatrygginga væri hrundið. Það stendur að vísu ekki fullum fetum í þessum pappír, en að henni væri hrundið. En hvað gerist svo? Örfáum dögum eftir að frá þessu er gengið í viðræðunum við Alþýðusambandið og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja er upphæðunum að vísu skilað, að því er ég best fæ séð. En þau grundvallaratriði sem menn voru að takast á um eru brotin. Þau grundvallartriði að verðtryggingin á þessum þáttum er tekin út og megingrein almannatryggingalagana og mikilvægasta er afnumin. Ég tel að með þessu móti sé í raun og veru verið að fara býsna alvarlega aftan að þeirri sátt sem menn töldu sig vera að gera og ég tel það gagnrýnivert. Ég tel að ríkisstjórnin hefði átt að falla algerlega frá hugmyndum sínum um að afnema verðtengingarþátt almannatryggingabóta. Hún átti ekki aðeins að setja peningana inn, heldur átti hún fyrst og fremst að falla frá því að verðtengingin yrði afnumin. Ef hún vill svo halda sig við að afnema verðtenginguna átti hún að fara í viðræður við verkalýðssamtökin um þau mál, en ekki gera þetta einhliða eins og hér er verið að gera.

Ég vík þessu næst, hæstv. forseti, að fáeinum einstökum atriðum í þessu frv. Mörgum hafa áður verið gerð skil en ýmis eru eftir. Ég ætla fyrst að segja það að hér er m.a. verið að gera grundvallarbreytingar á tvennum lögum sem eiga alls ekki að vera hér inni að mínu mati, sem hrópa algerlega í himininn að skuli vera sett inní lög um ráðstafanir í ríkisfjármálum, en ekki inn í lög um grundvallarbreytingar á viðkomandi lögum beint. Og ég spyr: Hvers slags vesöld er það á viðkomandi fagráðherrum að flytja ekki málið sjálfir þar sem hér er um að ræða breytingu á mikilvægum lagabálkum sem þeir eru með? Ég nefni í fyrsta lagi breytinguna á þjóðminjalögum. Það er alveg ótrúlegt að setja þessa breytingu inn í lögin um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Þetta er grundvallarbreyting á sjálfum þjóðminjalögunum sem hæstv. menntmrh. hefði auðvitað átt að flytja. Það sama er að segja um breytingar á lögum nr. 69/1995, um greiðslur ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota. Auðvitað hefði átt að flytja þetta sem sjálfstætt mál á vegum hæstv. dómsmrh. þannig að þingmönnum hefði gefist kostur á því að ræða þetta mál með eðlilegum hætti en ekki í einhverjum andarteppustíl sem hluta af umræðum um ráðstöfun í ríkisfjármálum. Með því að flytja málin svona inn, þessi 33 lög hér, er auðvitað verið að skerða stórkostlega tjáningarfrelsi alþingismanna. Þeir hafa ekki aðstöðu til þess að fara í þessi lög eins og þyrfti að gera af því að þau eru partur af einu og sama frv. sem sætir sömu meðferð og önnur frumvörp í þessari stofnun. Þess vegna eru þessi vinnubrögð líka atlaga að eðlilegri þingræðislegri umræðu á Alþingi.

Ég vil líka segja það alveg eins og er, hæstv. forseti, að þessi meðferð á lögunum um greiðslur ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota er til svo mikillar skammar fyrir þessa stofnun, ekki síst með hliðsjón af því að lögin voru sett rétt fyrir síðustu kosningar. Ég man ekki betur en einn og einn þingmaður og frambjóðandi Sjálfstfl. hafi talið sér þessa lagasetningu til tekna í kosningabaráttunni. Ég vona að engum þeirra hafi dottið það í hug að þetta voru kosningalög fyrir Sjálfstfl. en þannig koma þau út gagnvart þeim sem síst skyldi í þessu máli. Þessi aðför er því ódrengileg í hæsta máta. Og mér finnst furðulegt að við umræðu um þessi mál skuli hv. þm. Sólveig Pétursdóttir, formaður allshn. á síðasta kjörtímabili ekki vera í salnum. Hún hélt a.m.k. ræðubút um það hvað hún væri góður þingmaður að hafa tryggt þessum lögum framgang fyrir síðustu alþingiskosningar. Hvað eiga svona fíflalæti að þýða, með leyfi forseta? Þetta er auðvitað ekki hægt. Það er ekki hægt að bjóða þjóðinni upp á framkomu af þessu tagi. Þetta er lítilmannleg framkoma við þá sem síst skyldi og síst hafa burði til að bera hönd fyrir höfuð sér í samfélaginu.

Verið getur að það séu einhverjar ástæður til þess að endurskoða þessi lög og fara yfir þau, jafnvel þótt þau séu ný. Ég skal ekkert um það segja. En það á að gera það þannig að Alþingi geti talað um það í eðlilegu samhengi. Þá á þetta að vera allsherjarnefndarmál sem fær hér umræðu eins og önnur mál í þessari stofnun en ekki hluti af ráðstöfunum í ríkisfjármálum þar sem fjmrh. situr aðallega fyrir svörum.

Ég vil síðan, hæstv. forseti, víkja að því sem hér er fjallað um í sambandi við lögin um atvinnuleysistryggingar og beina orðum mínum til hæstv. fjmrh. vegna þess að mér fannst koma fram misskilningur varðandi það mál í ræðum nokkurra stjórnarandstæðinga fyrr í dag. Ég ætla að fara yfir það og vil að það mál sé skýrt. Það eru sem sagt 25.--29. gr. Þar er gert ráð fyrir því að fella niður þá grein atvinnuleysistryggingalaganna sem kveður á um skyldur ríkissjóðs til þess að leggja fram árlega upphæð eftir tilteknum aðferðum. En það er ekki gert ráð fyrir því að fella niður skyldur ríkissjóðs til að bera ábyrgð á skuldbindingum Atvinnuleysistryggingasjóðs. Ríkissjóður ber áfram ábyrgð á skuldbindingum hans. Er ekki á hreinu að það er ekki verið að fella niður ábyrgð ríkissjóðs á skuldbindingum Atvinnuleysistryggingasjóðs? Ég sé ekki að það sé verið að fella það niður og ég tel mjög mikilvægt að það sé skýrt.

Ég vil í þessu sambandi spyrja hæstv. félmrh.: Hefur hann rætt þetta mál við aðila vinnumarkaðarins? Hefur hann rætt þetta við Alþýðusambandið og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja? Er hann ekki með í vinnu nefnd sem er að endurskoða lögin um atvinnuleysistryggingar? Hefur hann lagt þetta fyrir hana? Mér þykir satt að segja nauðsynlegt að spyrja þessara spurningar vegna þess að Atvinnuleysistryggingasjóður er hluti af kjarasamningum sem upphaflega voru gerðir 1955 og hafa síðan verið endurnýjaðir aftur og aftur með margvíslegum breytingum á lögum um atvinnuleysistryggingar. Þess vegna vil ég fá þetta á hreint varðandi málið.

Mætti ég aðeins bæta við annarri spurningu, hæstv. ráðherra, varðandi 28. gr.? Þar er gert ráð fyrir að hámarksbætur atvinnleysistrygginga verði 2.433 kr. á dag. Það er í raun og veru bara frysting frá því sem er í dag. Síðan kemur þarna inn í setning sem er þessi: ,,Þó er félagsmálaráðherra heimilt, að fengnu samþykki ríkisstjórnar, að breyta bótafjárhæð um allt að 3% frá forsendum fjárlaga ef verulegar breytingar verða á þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga.`` Er þetta þak sem þarna er verið að tala um? Gæti félmrh. með öðrum orðum breytt bótafjárhæðum atvinnuleysisbóta um allt að 3% með reglugerð á fjárlagaárinu? (Fjmrh.: Upp og niður.) Og gæti væntanlega lækkað þær líka eins og það er orðað hérna. Já, þetta er heimild bæði til að hækka og lækka, það er athyglisvert. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir frammíkallið. Það er óvenjulegt að það geri gagn. En það er með öðrum orðum heimild fyrir ríkisstjórnina líka að lækka atvinnuleysibætur. Það er kannski meiningin. Ég vil spyrja að því.

Í þriðja lagi: Gert var ráð fyrir í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að taka 150 millj. inn á bætur almannatrygginga. Eru þær innan þessara 3% eða miðast 3% við bæturnar í dag plús 150 millj. kr.? Eru þetta 3% af x + 150 millj. kr.? (Fjmrh.: Já.) Fjmrh. segir já eða hristi höfuðið reyndar og ég skildi það svo að niðurstaðan væri já. En mér þætti vænt um ef hæstv. félmrh. vildi vera svo vinsamlegur að svara fyrir málaflokk sem ég treysti honum afar vel til að gera algerlega án hjálpar frænda síns, fjmrh.

[14:45]

Þá vil ég næst víkja orðum mínum að hæstv. heilbrrh. Það varðar lögin um bætur almannatrygginga, en þeim er verið að breyta ansi mikið. Í fjárlagafrumvarpinu er verið að gera mjög miklar breytingar á almannatryggingalögunum og greiðslum til heilbrigðismála. Þar er t.d. verið að breyta lífeyristryggingum þannig ef ég las greinargerð þessa fjárlagafrv. rétt, að þær hefðu að óbreyttu hækkað um 1,4 milljarða, en samkvæmt ráðstöfunum sem boðaðar eru í fjárlagafrumvarpinu eru greiðslurnar lækkaðar um 1.115 millj. kr. þannig að breytingin felur í sér 2,5 milljarða frá því sem hefði verið að óbreyttu. Ég vil spyrja hæstv. heilbrrh. að því hvort þetta er ekki rétt skilið hjá mér. Það sem átti að gerast þarna var að afnám verðtenginga átti að gefa 450 millj. Nú er búið að skila því til baka. Síðan eiga fjármagnstekjur að skerða ellilífeyri. Það eru 285 millj. Heimildabætur átti að skerða um 250 millj., lækkun mæðra- og feðralauna áttu að vera upp á 125 millj. og síðan átti að fella niður ekkjulífeyri upp á 5 millj. kr. Mér sýndist sem sagt að með þessu móti væru menn að tala þarna um að lækka um 1.100 millj. kr.

Hér er verið að skila aftur af þessum áformum sennilega um 600 millj. kr. samtals, eða hvað? Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um hve miklu er verið að skila aftur af þessum áformum. Og ég vil spyrja hæstv. heilbrrh. hvort það eru 600 eða 700 millj. Mér sýnist að það séu væntanlega a.m.k. 600 millj. vegna þess að það er bæði sjálfvirka verðtengingin og innritunargjaldið. Þetta sýnist mér að hljóti að vera samtals í kringum 600 millj. og er það e.t.v. eitthvað fleira.

Fyrir utan þetta, hæstv. forseti, ætlaði hæstv. heilbrrh. að spara á sjúkratryggingum 880 millj. kr. Þannig háttar til að sjúkratryggingarnar hefðu að óbreyttu hækkað um hálfan milljarð en með ráðstöfunum sem kynntar eru í greinargerð fjárlagafrumvarpsins áttu þær að lækka um 880 millj., þ.e. það er niðurskurður frá því sem ella hefði verið um 1.350 millj. kr. Þetta átti að fást með því að skerðing á Framkvæmdasjóði aldraðra átti að skila 330 millj., lyfjaútgjöld áttu að skila 330 millj. Og hvar er það mál á vegi statt? Hvernig á það að gerast? Ég spyr að því. Það átti að herða eftirlit, 100 millj., síðan átti að hætta endurgreiðslum til atvinnurekenda upp á 50 millj. Svo átti að breyta reglum um afslátt við 70 ára aldur, 40 millj. kr. Síðan átti að taka inn aukatekjur af ferliverkum upp á 20 millj. og ég ætla að spyrja um ferliverkin. Hvar er lagaheimildin fyrir ferliverkaskattinum? Hvar er hún? Hvaða lagaheimild var sett undir það? Og hvað er mikið tekið inn alls í þessum ferliverkaskatti sem var fundin upp í síðustu ríkisstjórn? Hvað er mikið tekið inn af þessum alveg sérstaka ferliverkaskatti sem var lagður á af síðustu ríkisstjórn og þótti alveg óskaplega merkileg uppfinning af þeim, en það er sennilega orðin gríðarlega há upphæð sem þar er um að ræða og ég spyr: Hvar er lagaheimildin og hvað er þetta mikil upphæð?

Í sjöunda og síðasta lagi ætlaði svo ríkisstjórnin að taka inn 10 millj. kr. af fólki sem færi í sjónpróf og þeim sem færu í endurtengingar, 10 millj. á einu bretti, sérstaklega ef menn færu nú í hvort tveggja í einu. 10 millj. kr. Síðan átti í viðbót við þetta að hækka sértekjur á sjúkrahúsunum um 200 millj. kr. Það er viðbót við þetta. Það átti að spara á sjúkrahúsunum í Reykjavík og Reykjanesi 200 millj. kr. og síðan átti að knýja fram annan sparnað á sjúkrahúsunum upp á 50 millj. kr. Ég vil með öðrum orðum fá að frétta af því hvernig þetta frumvarp stendur með hliðsjón af þeim áformum sem kynnt voru í fjárlagafrumvarpinu, því mér sýnist að þarna hafi ýmsu verið breytt frá því sem þar var gert ráð fyrir og það væri gott að fá um það upplýsingar frá hæstv. ráðherrum.

Í þessum kafla um breytingu á lögum um almannatryggingar er komið mjög víða við satt að segja. Hafa einhverjir skoðað nýlega lögin um almannatryggingar og rifjað það upp að þau voru sett fyrir 1970. Ætli þau hafi ekki verið sett ... (Gripið fram í: 1971.) Já, en þau voru afgreidd á Alþingi 1970 og staðfest 1971 af félmrh. viðreisnarstjórnarinnar ef ég man rétt eða heilbrrh. Síðan er búið að gera á þeim óteljandi breytingar svo ekki sé meira sagt þannig að þau eru orðin ... (ÁRJ: Yfir 100 breytingar.) Yfir 100 breytingar, segir hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir sem þekkir þetta betur en allir aðrir menn í salnum. Það er búið að gera yfir 100 breytingar á þeim og aldrei hefur liðið svo þing að ekki hafi verið gerðar margar breytingar á lögunum um almannatryggingar. Við höfum gert margar tilraunir til að breyta þessum lögum. Við höfum skipað alls konar nefndir til að fara í það mál en þær hafa yfirleitt skilað litlu, það verður að segja það, þær hafa skilað litlu. Og það er eins og gengur þegar menn reyna að ná utan um löggjöf af þessu tagi, að það reynist vera erfitt af því að menn taka kannski allt of stórt fang og ráða ekki við það. Nú er verið að gera enn einar breytingar á lögunum um almannatryggingar og það eru einhverjar viðamestu breytingarnar sem hafa verið gerðar. Og þær eru mjög vondar breytingarnar sem núna er verið að gera og ég ætla aðeins að víkja að þeim örstutt.

Í fyrsta lagi er verið að gera þá breytingu á 10. gr. laganna um almannatryggingar að þar er verið að bæta inn ákvæði sem tekur fjármagnstekjur ellilífeyrisþega inn í tekjuskilgreiningarhugtak almannatrygginganna. Og hver er skatturinn, hæstv. ráðherra, á fjármagnstekjur ellilífeyrisþega? Er hann 10% flatur eins og menn eru að tala um einhvers staðar? Er það kannski eitthvað annað? Hvað ætla menn að skattleggja mikið fjármagnstekjur ellilífeyrisþega, þessar 14 kr. sem menn eru alltaf að fá á sparisjóðsbókunum sínum um hver áramót? Hvað á að taka af þeim? Er það kannski bara 35% skattur eða er það kannski 40% skattur eins og á öðrum tekjum? Hvað á að taka af þessu fólki? Getur það verið að það eigi að taka 35% skatt af þessu fólki? Ég spyr af því tilefni að það er gert ráð fyrir því að taka 70% af upphæðinni. Síðan er hún væntanlega skattlögð eins og aðrar tekjur eða hvað? Hvað á að taka af þessum aurum ellilífeyrisþega? Ég held að það sé æskilegt að fá um það upplýsingar hvernig þetta á að gerast. Og til hverra nær þetta? Nær þetta til allra þeirra sem njóta bóta almannatrygginga? Er svarið já eða nei? Ég spyr og hæstv. ráðherrar þegja aldrei þessu vant, skammast sín kannski agnarlítið, getur verið, virðulegi forseti.

Mér sýnist að hér sé verið að skattleggja fjármagnstekjur örorkulífeyrisþega, að það sé ekki bara verið að skattleggja fjármagnstekjur aldraðra, þessar 14 kr. sem gamalt fólk er að fá tilkynningar um á sparisjóðsbókum sínum, eftir áramót frá bönkunum, heldur eigi hér að taka ákveðinn hóp í þjóðfélaginu út úr til að fara inn í fjármagnstekjuskattskerfið núna, þ.e. öryrkjana, ekki okkur hin. Mér sýnist að það eigi að taka öryrkjana þarna inn vegna þess að þarna séu allir þeir sem þurfa að leita til almannatrygginganna með framfærslueyri. Það er mikil reisn yfir þessu, það verð ég að segja, hæstv. forseti. Og ég vil spyrja: Er þetta rétt skilið eða er þetta kannski misskilningur? Eða af hverju er ,,ráðherrasettið`` svona þegjandalegt á bekknum aldrei þessu vant, niðurlútt?

Í annan stað, hæstv. forseti, er verið að setja inn ákvæði um sérstaka skattameðferð þeirra sem ekki hafa borgað í lífeyrissjóði. Það er mjög athyglisverð grein sem ég má til með að lesa upphátt því að hún er svo ótrúleg, með leyfi forseta:

,,Nú sinnir maður ekki lagaskyldu um greiðslu iðgjalda til lífeyrissjóðs samkvæmt lögum nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, með síðari breytingum. Er þá heimilt að áætla honum tekjur sem koma til frádráttar greiðslu tekjutryggingar. Setja skal reglugerð með nánari ákvæðum um framkvæmd þessa frádráttar.``

Bíddu nú við, eins og maðurinn sagði. Hvað er hér á ferðinni? Hér er það þannig ef ég skil þetta rétt að það á að lækka tekjutryggingu á þeim sem ekki hafa borgað í lífeyrissjóð. Og hvað á að lækka hana mikið? Það stendur ekki hér. Um hvað á að lækka tekjutrygginguna hjá þessu fólki? Það stendur ekki hér. Og hver á að finna þetta fólk? Verður gerð út einhver sérstök lífeyrislögga á vegum Tryggingastofnunar ríkisins til að finna þetta fólk? Hvaða fólk ætli þetta sé helst sem hér er um að ræða? Hvaða fólk er það sem á að siga lífeyrislögreglu Tryggingastofnunarinnar á? Og svo segi ég það líka, virðulegi forseti: Þetta er ekki framkvæmanlegt ákvæði og það stenst ekki stjórnarskrá af því að með því á að afhenda ráðherranum skattlagningarvaldið. Það er hann sem ræður því hvað tekjutryggingin er skert mikið hjá fólki sem hefur ekki borgað í lífeyrissjóði. Þetta er eins og ef dómsmrh. færi með sektarvaldið sjálfur. Þessi grein stenst því ekki það ákvæði stjórnarskrárinnar að það er bannað að framlengja skattlagningarvaldið út úr þessari stofnun og ég er alveg sannfærður um það að hæstv. heilbrrh. metur það svo þegar málið fær hér meðferð. Það er ekki nýtt að það komi hér tillögur.

Hæstv. fjmrh. var lengi kennari í Hlíðaskóla og hann heldur alltaf að hann sé í þessari rullu af og til og er svona sjálfboðaliði á ráðherrabekkjunum að skýra út tölur stundum og er nokkuð sérkennilegt. En það er athyglisvert ef það hefur tekist hjá honum að plata hæstv. heilbrrh. til að láta skattleggja fjármagnstekjur örorkulífeyrisþega og ganga þannig frá málinu að heilbrrh. fari með skattlagningarvald gagnvart þeim sem ekki hafa borgað í lífeyrissjóði eins og fram kemur í 31. gr. Auðvitað er þetta frumvarp meira og minna allt saman skrifað í fjmrh. Ætli maður þekki það ekki. Þess vegna þurfti heilbrrh. að vera á vakt, hæstv. ráðherra. Það er málið. Til þess þurfa fagráðherrar að vera á vakt. (Gripið fram í: Og verja sinn málaflokk.) Og verja sinn málaflokk, nákvæmlega. (Gripið fram í.) Eitthvað er nú liðið að lifna þarna aðeins, hæstv. forseti. Það færist yfir þá taugaveiklunarhláturinn. Alltaf þegar líður á málflutning færist yfir þá taugaveiklunarflissið, liðið þarna á ráðherrabekkjunum.

Ég ætla næst að víkja að 34. gr. frumvarpsins. En það er kannski rétt að ég fari aðeins yfir 31. gr. sem mér finnst nokkuð athyglisverð og þá breytingu sem verið er að gera á henni. Ég er ekki viss um að þetta hafi verið nokkurn tíma almennilega prófarkalesið. Menn eru að tala um að breyta málsgreinum sem ekki eru til í lögunum sjálfum. Það er nýlunda og nokkuð sniðugt kannski að breyta bara málsgreinum hér og þar í þjóðfélaginu. En algengara er að miða við ákveðnar málsgreinar í Lagasafninu, miklu algengara. Hitt er brautryðjendastarf að miða við málsgreinar einhvers staðar úti í þjóðfélaginu. En ég sé á tveimur stöðum eða svo, að þar hefur einhverjum fatast í prófarkalestrinum. Ég mun rétta ráðherra þessa texta á eftir til fróðleiks af því að ég tók að mér að renna í prófarkalestur áðan og samanburð á þessum lögum.

[15:00]

Ég vil þessu næst, eins og ég sagði áðan, víkja aðeins að 38. gr. laganna um almannatryggingar, hæstv. heilbrrh. Í frv. stendur:

,,10. mgr. 38. gr. laganna fellur brott.``

Hvaða grein er það? Hún er svona, með leyfi forseta:

,,Nú greiðir vinnuveitandi laun í veikindaforföllum og renna þá dagpeningagreiðslur til hans þann tíma, að undanskilinni barnaviðbót sem fellur niður, þó aldrei hærri greiðsla en nemur 3/4 hlutum launanna.``

Er þetta sú breyting á endurgreiðslum atvinnurekenda sem ég var að vitna til áðan og er upp á 50 millj. kr.? Og ég vil þá spyrja hæstv. ráðherra: Hefur þetta verið 50 millj.? Styðst þessi áætlun við rauntölur eða hvað er hér á ferðinni? Ég átta mig ekki alveg á því, hæstv. forseti.

Síðan vildi ég víkja næst að 35. gr. Hún er aðalgrein þessa frv. Hún er í raun og veru langalvarlegasta grein þessa frv. Það er greinin sem gerir ráð fyrir því að fella niður sjálfvirkar hækkanir á bótum almannatrygginga. Þetta er gömul grein og hefur verið í almannatryggingalögum alveg frá upphafi, var í lögunum um alþýðutryggingar sem alþýðuflokksmenn eru stundum að hrósa sér af að hafa sett fyrir stríð og byrjar svona: ,,Nú verður breyting á vikukaupi í almennri verkamannavinnu og skal ráðherra þá innan sex mánaða breyta upphæðum bóta samkvæmt lögum þessum og greiðslum skv. 59. gr. í samræmi við það.`` Áður stóð í þessari lagagrein: ,,Nú verður breyting á 8. taxta Dagsbrúnar``. Og upphaflega stóð í lögunum um alþýðutryggingar: ,,Nú verður breyting á almennum launum í hafnarvinnu``. Nú á að fella þetta út. Þetta er langsamlega afdrifaríkasta breytingin sem verið er að gera á almannatryggingalögunum og ég heiti á hv. formann heilbr.- og trn. að fara rækilega yfir þessi mál í sinni ágætu nefnd. Ég veit að ég þarf ekki að hvetja hann til þess vegna þess að hér er verið að gera tillögur um mun meiri breytingar á almannatryggingalögunum og annarri velferðarlöggöf á Íslandi en nokkurn tíma hefur áður verið gerð í frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Þess vegna er ljóst, hæstv. forseti, að umræðan um þessi mál í þessari stofnun hlýtur að taka einhvern tíma og ég skora á hæstv. ríkisstjórn að taka út úr frv. öll þau ákvæði, og þau eru mörg, sem ekki ,,þarf`` einu sinni að hennar mati að afgreiða fyrir áramót.