Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Föstudaginn 08. desember 1995, kl. 15:24:58 (1746)

1995-12-08 15:24:58# 120. lþ. 58.4 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., KH
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur


[15:24]

Kristín Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vildi hafa hér nokkur orð um þetta frv. sem auðvitað mætti segja margt um og reyndar hefur það verið gert. Ég býst við að hæstv. ráðherrar hafi nú áttað sig á hvaða liðir það eru sem fyrst og fremst mæta andstöðu hér í þinginu. Það eru auðvitað þau ákvæði sem þrengja hag þeirra sem síst mega við því. Gegn þessum ákvæðum mun stjórnarandstaðan, allir sem einn, leggjast. Við verðum að vona að stjórnarliðar sjái að sér. Það gengur ekki að ráðast að fólki sem síst allra getur varið sig.

Það væri líka ástæða til að fara orðum um afnám lögbindingar tekna til ýmissa verkefna þar sem miðað er við ákveðna tekjustofna og sums staðar tekjustofna sem hreinlega voru búnir til í því skyni. Hér er í rauninni um að ræða þann bandorm sem eitt sinn fylgdi alltaf frv. til lánsfjárlaga og var kallaður þráttfyrirkaflinn og hefur verið mörgum þyrnir í augum, m.a. þeirri sem hér stendur, og raunar fyrir neðan virðingu Alþingis að mínum dómi. En ég ætla ekki að fjalla frekar um það núna. Ég vil hins vegar taka undir hvert orð sem hér hefur fallið um það ráðslag að leggja til þessar lagabreytingar með þeim hætti sem hér er gert. Það ætti auðvitað að bera þær fram í mörgum frv., aðgreindum eftir málaflokkum. En ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta almennt né um einstök atriði nema um eitt þeirra því þar get ég ekki orða bundist.

Herra forseti. 10. mars sl. staðfesti forseti Íslands lög um greiðslur ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota. Nú spyr ég hæstv. forseta hvort hæstv. dómsmrh. sé ekki í húsinu.

(Forseti (GÁ): Hæstv. dómsmrh. er í húsinu. Forseti mun gera ráðstafanir til að hann komi hér.)

Ég ætlaði, hæstv. forseti, aðeins að tala um þetta eina atriði í þessu frv. þannig að ég vildi gjarnan fá að bíða eftir hæstv. ráðherra.

(Forseti (GÁ): Hæstv. dómsmrh. gengur í salinn.)

Herra forseti. 10. mars sl. staðfesti forseti Íslands lög um greiðslur ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota. Þar með var náð afar mikilvægum áfanga í baráttu fyrir bættri meðferð brotaþola og fyrir breyttum viðhorfum í þessum efnum. Það er alkunna að mjög mörgum og ef ekki flestum tjónþolum hefur reynst mjög erfitt að sækja bætur í greipar þeirra sem tjóninu valda. Oft er vafalaust um að ræða tekju- og eignalausa ólánsmenn og þá hefur það í raun verið frá upphafi ljóst að þeir væru ekki borgunarmenn fyrir tjóninu, hvað sem öllum dómum líður. Í öðrum tilvikum hafa brotamenn komið sér undan greiðslum með ýmsu móti hreinlega vegna þess að þeir hafa ekki viljað inna þær af hendi. Í öllum tilvikum hafa tjónþolar verið í afar erfiðri og veikri stöðu. T.d. hefur staða tjónþola vegna ofbeldisbrota verið sérstakt áhyggjuefni kvennabaráttuhópa. Staða brotaþola vegna nauðgunar eða annars kynferðislegs ofbeldis er hér sérstaklega veik. Það er þeim mikil raun til viðbótar ægilegri reynslu af brotinu sjálfu og eftirköstum þess að reyna að sækja bætur í greipar afbrotamannsins og þeim klafa átti að létta af þeim með þessum lögum sem taka áttu gildi 1. janúar nk. Það var um flest og raunar allt gott að segja um þau lög sem þarna áttu að taka gildi og þær upphæðir sem þar voru lagðar til grundvallar.

[15:30]

Þessi lög urðu mörgum fagnaðarefni. Ýmsir sem að lagasetningunni stóðu voru hreyknir af og töldu sér til tekna alveg með réttu, t.d. í kosningabaráttunni, að hafa staðið að þessum lögum. Þá töluðu stjórnarliðar um mikla réttarbót og þökkuðu sér verkið. Og þeir fengu þakkir. Það var almenn ánægja með þessa lagasetningu sem svo sannarlega virtist í höfn eftir mikla baráttu og mikið starf. Það var ekki síst fagnaðarefni að eftir vandaða undirbúningsvinnu náðist um þetta alger samstaða. Mikilvægasta niðurstaðan var að með þessu voru brotaþolum send þau skilaboð að samfélaginu væri ekki sama um örlög þeirra. Samfélagið vildi tryggja rétt þeirra og létta af þeim þeirri raun að þurfa að innheimta miskabætur frá afbrotamönnunum, oftast með litlum árangri. Það olli því miklu uppnámi þegar fréttir bárust á haustdögum af áformum ríkisstjórnarinnar um að fresta gildistöku laganna, svo sem ljóst varð þegar fjárlagafrv. birtist, þar sem ekki var gert ráð fyrir neinum framlögum í þessu skyni. Það var sýnilegt í lista yfir áformaðar lagabreytingar að þessu átti að fresta, ekki aðeins gildistökunni heldur einnig afturvirkni og um leið að svipta þá voninni sem þegar höfðu fengið dæmdar miskabætur allt aftur til ársbyrjunar 1993. Margir urðu til að bregðast mjög hart við þessum áformum og mótmæla með ýmsu móti. Sú sem hér stendur ræddi þetta strax í umræðu um stefnuræðu forsrh. í fyrstu viku október og aftur tveimur dögum seinna í 1. umr. um fjárlagafrv. Þingkonur úr öllum þingflokkum mættu til fundar sem konur frá Stígamótum, Kvennaathvarfi, Kvenna- og karlakeðjunni og fleiri aðilum boðuðu til og lýstu þar allar yfir vilja sínum til að vinna gegn þessum áformum. Sömu aðilar, þ.e. frá Stígamótum, Kvennaathvarfi, Kvenna- og karlakeðjunni, mættu á fund fjárln. Margt fleira hefur verið reynt til að fá ríkisstjórnina ofan af þessari ætlan sinni. Hvarvetna í samfélaginu er mikill stuðningur við þetta mál, þ.e. að lögin öðlist gildi 1. janúar nk. og í þeirri mynd sem þau voru samþykkt á Alþingi í mars sl.

Hæstv. dómsmrh. hefur vissulega sýnt áhuga á þessum málum og vilja til að tryggja brotaþolum sómasamlega meðferð. Hann hefur unnið að umbótum á löggjöfinni og að meðferð slíkra mála. Ég nefni sérstaklega neyðarmóttökuna á Borgarspítalanum sem hefur reynst afar mikilvægur liður í bættri meðferð nauðgunarmála og annarra ofbeldismála af líku tagi. Það er svo sannarlega þakkarvert og virðingarvert.

Hv. þm. Sólveig Pétursdóttir sýndi einnig vilja til að taka á málinu og tryggja að ekki þyrfti að koma til frestunar. Mér var kunnugt um að málið fór strax í athugun og ég batt vonir við að það mundi skila góðum árangri. Ég hafði satt að segja verulega góðar vonir um það þótt einhverjar breytingar yrðu hugsanlega á framkvæmd laganna, t.d. með því að greiðslum vegna brota sem orðið höfðu á næstu þrem árum fyrir gildistöku laganna yrði dreift með einhverjum hætti, en mig grunaði ekki að lendingin yrði sú sem hér blasir við. Ég á satt að segja bágt með að lýsa tilfinningum mínum í þessu efni. En mér fannst ég hreinlega verða fyrir ofbeldi. Hvað má þá segja um þá sem lögin varða. Það tók mig í rauninni talsverðan tíma að trúa mínum eigin augum og átta mig á afleiðingum þessa.

Hæstv. forseti, hæstv. ráðherrar. Þessi niðurstaða er algjörlega óviðunandi og óþolandi. Hún er skelfileg og í raun og veru verri, jafnvel verri en frestunin sem áformuð var. Við verðum að taka einhvern veginn á þessu sameiginlega og tryggja framgang laganna eins og þau voru ákveðin.

Ég get hugsað mér ýmislegt annað sem bærilegra væri að skera niður og við eigum að fara í það sameiginlega. Ég trúi ekki öðru en að hæstv. dómsmrh. yrði aðstoð Alþingis feginn ef hv. efh.- og viðskn. felldi þennan lið bandormsins út. Og ég hygg að hann tæki því fagnandi ef fjárln. sameinaðist um að finna niðurskurð á einhverjum liðum til að mæta þeim útgjöldum sem þetta hefur í för með sér. Ég vona að hv. fjárln. geti sameinast um leiðir í því efni. Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir nefndi liði eins og ráðstöfunarfé ráðherra sem er reyndar 78 millj. samtals. Ég get tekið undir það. En sitthvað fleira mætti nefna, t.d. það að klípa einfaldlega af aðalskrifstofum ráðherranna eða ráðuneytanna sem þeir yrðu þá að mæta með fækkun utanlandsferða og samdrætti í veisluhöldum. Ég gæti alveg hugsað mér að Alþingi skilaði einhverju til baka af sínum hækkunum vegna aukins starfskostnaðar. Jafnvel mætti taka ögn meira af vegafé þó það sé ekki gott út af fyrir sig og sennilega næðist ekki samstaða um það. En að mínum dómi væri það nú bærilegra heldur en að ganga fram með þessum hætti. Ég gæti líka alveg hugsað mér að minna á að hæstv. Alþingi er með fjáraukalögum þessa dagana að samþykkja nær 70 millj. kr. aukafjárveitingu til sendiráðanna. Þar er nú skilningurinn fyrir hendi.

Ég vil einnig minna hv. þm. á að þessi lög eru um ábyrgð ríkissjóðs á þessum bótum. Hann tekur að sér að greiða brotaþolum, tjónþolum, bætur og um leið öðlast ríkið rétt til endurkröfu á hendur afbrotamönnum. Þess sér ekki stað að menn geri ráð fyrir því að ná neinu inn í ríkissjóð á móti. Þarna verði með öðrum orðum um hrein útgjöld að ræða. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að innheimtuaðgerðir ríkissjóðs munu sjálfsagt aldrei skila aftur ígildi þessara bótagreiðslna. En þær hljóta nú að skila einhverju. Og hvers vegna er ekki gert ráð fyrir því hér? Ég sé þess ekki stað að svo sé.

Herra forseti. Ég sagði það í upphafi að ég ætlaði ekki að fjalla um önnur atriði frv. Það hefur verið gert ágætlega fyrr í umræðunni, m.a. af hv. þingkonu Kristínu Ástgeirsdóttur. En ég gat ekki orða bundist varðandi þennan lið. Ég heiti á hv. þm. í öllum flokkum að leggjast á eitt og afstýra þessu hneyksli sem ég tel þessa afgreiðslu vera.