Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Föstudaginn 08. desember 1995, kl. 15:57:06 (1750)

1995-12-08 15:57:06# 120. lþ. 58.4 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur


[15:57]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er vissulega auðvelt að benda á ýmsa aðra kostnaðarliði í fjárlögum þegar rætt er um mál af þessi tagi enda mjög algengt í umræðum eins og þessum. Við verðum hins vegar að gera okkur grein fyrir því ef við ætlum okkur að ná þeim markmiðum sem við höfum sett okkur í ríkisfjármálum að það þarf að vinna skipulega að því. Ég held að engin önnur leið geti tryggt að við náum þeim markmiðum nema með rammafjárlagagerð eins og þeirri sem þessi ríkisstjórn hefur unnið eftir og sú ríkisstjórn sem sat hér á síðasta kjörtímabili. Það er engin von til þess nema með skipulögðum vinnubrögðum af því tagi. Þá verður hvert ráðuneyti fyrir sig að axla þá ábyrgð að gera sparnaðartillögur innan þeirra marka sem því eru sett. Ef hv. þm. er jafnmikið á móti framlögum til landbúnaðarmála og hér kom fram á hann að beita öllu afli sínu á því sviði og í umræðum um þau en það getur ekki verið ákvörðunaratriði þegar dómsmrn. leggur fram tillögur til þess að halda útgjöldum sínum innan þess fjárlagaramma sem því er sett og það hefur samþykkt að vinna eftir.