Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Föstudaginn 08. desember 1995, kl. 16:02:47 (1754)

1995-12-08 16:02:47# 120. lþ. 58.4 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur


[16:02]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Ræða hv. 15. þm. Reykv. kom mér ekki á óvart. En ég minnist þess þó að þegar við fjölluðum um þetta mál í síðustu ríkisstjórn voru auðvitað uppi efasemdir, ekki um efni frv. heldur um þann kostnað sem leiddi af því og ég man að flokkur hv. þm. hafði slíkar efasemdir í frammi. Svo kemur hv. þm. hér og nú eins og peningar skipti engu máli þegar réttarbætur af þessu tagi eru til umfjöllunar. Ég er alveg sammála hv. þm. um gildi þeirra réttarbóta sem hér er fjallað um. Við erum að stíga skref í þá veru að ríkið ábyrgist að hluta til bótagreiðslur til tjónþola sem þeir eiga rétt á úr höndum annarra. Eins og lögin voru samþykkt fólu þau í sér ákveðnar takmarkanir á bótagreiðslum ríkissjóðs. Vegna fjárhagsaðstæðna setjum við heldur meiri takmarkanir en við ætluðum í upphafi og ég man ekki betur en flokkur hv. þm. hafi bent á þær staðreyndir þegar við fjölluðum um þetta. Ég er ekki að gera lítið úr málflutningi hans hér en bendi bara á að öll verk af þessu tagi lúta þessum takmörkunum sem við stöndum frammi fyrir.