Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Föstudaginn 08. desember 1995, kl. 16:09:17 (1758)

1995-12-08 16:09:17# 120. lþ. 58.4 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur


[16:09]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Oft hef ég blygðast mín sem stjórnarliði vegna vinnubragðanna í desember yfir því hvernig tillögur í fjárlagagerðinni koma seint og illa fram, yfir því að bandormur kemur eins og gusa einhvern tíma í desember og þingmönnum er ætlað að setjast yfir þessi mál með miklum hraða. En aldrei hefur mér fundist jafnmikið virðingarleysi felast í framlagningu bandormsins svokallaða og núna, virðingarleysi við þingmennina sem eiga að vinna með hann og taka efnislega á því sem þarna er lagt fram, virðingarleysi gagnvart þingnefndunum sem koma margar að þessu máli þó að honum sé vísað til efh.- og viðskn. og blygðunarkennd yfir þeirri flausturslegu yfirferð sem er væntanlega fram undan miðað við þessi vinnubrögð.

Áðan var nefnt varðandi einstöku mál hvort ekki væri hægt að finna 40 millj. og taka af öðrum kostnaðarliðum, hvort ekki mætti einhvers staðar finna fjárveitingar. Mig langar að nefna hvað mér finnst vera gallinn á ríkisfjármálunum og meðferð þeirra, þessu dreifða valdi, skiptingu ríkisfjármálanna á milli ráðuneyta sem eru bundin í tölur sem einhvern tíma voru og eru hækkaðar eða lækkaðar innan ramma sem gefinn er og er svo teygður og togaður eftir pólitískum átökum í þingsal hverju sinni. Þetta er einmitt það sem er svo ólíkt því sem er í sveitarstjórnunum þar sem menn geta komið sér saman um að draga úr eða frysta ástand í einhverjum málaflokki og veita öðrum málaflokki fullkominn forgang vegna áherslu á það sem þeir vilja efla. En við ríkisstjórnarborðið gefur enginn eftir gagnvart öðrum. Allir skulu halda í sitt eins og unnt er og hvergi gefa boltann yfir til annars. Þess vegna er alveg ljóst að það mun hvergi geta gerst annars staðar en í þingsal að við finnum saman 40 millj. til að bæta úr svo vondu máli eins og hér hefur verið rætt.

Ég vil líka geta þess að þessi bandormur er stórpólitískur. Auðvitað er hann alltaf pólitískur en að þessu sinni er hann stórpólitískur. Það er í fyrsta lagi vegna niðurskurðarins sem hér er verið að staðfesta og sem staðfestir mjög harkalegar gerðir gagnvart þeim sem minnst hafa í okkar þjóðfélagi. Í öllum tilfellum er niðurskurðarhnífnum beitt gagnvart þeim sem minnst hafa og þeim sem jafnvel ekkert eiga. Í öðru lagi er hann stórpólitískur vegna þess að grundvallarbreytingar á lögum sem voru ræddar á sínum tíma sem frv. í þingsal sem fjallað var um í nefndum og afgreiddar úr nefnd, væntanlega öfluga yfirferð, og lögfestar á Alþingi, slíkum lögum og sterkum ákvæðum þeirra er nú kippt úr sambandi í einni vendingu. Með einu pennastriki eru ákvæði sett út úr lögunum sem voru á sínum tíma hugsuð sem grunnurinn að framgangi þeirra mála sem viðkomandi lög fjalla um. Ég veit að á liðnum árum höfum við öll staðið að því að samþykkja svokölluð ,,þrátt-fyrir``-ákvæði aftur og aftur og við réttlætt þau með því að það séu erfiðar tímar, það sé samdráttur í þjóðfélaginu og þess vegna verði að draga úr þeim ákvæðum sem lögfest eru. En hér er 33 lögum breytt með einu plaggi og ,,þrátt-fyrir``-ákvæðunum svokölluðu kippt úr sambandi. Í öllum þeim lögum sem hér er breytt hvað ,,þrátt-fyrir``-ákvæðin varðar, öllum lögunum sem hafa lögfestan tekjustofn, er því ákvæði hent út.

Mér sýnist að það séu um 10 lög þar sem kveðið er á um lögbundinn tekjustofn sem er nú sett út eins og hendi sé veifað til allrar framtíðar. Ég get alveg tekið undir að það sé mikilvægt að skoða sjálfvirkni ríkisútgjalda, að það sé erfitt að vera með þá miklu sjálfvirkni sem er komin í ríkisútgjöldin. En það er allt annað að ætla þingmönnum vinnubrögð af þessu tagi, að fá ekki að skoða, fjalla nægilega um og af myndugleik hvað er rétt að gera í hverju einstöku tilfelli. Alþingi fannst á sínum tíma réttmætt að tekjustofnar væru tryggðir í þessum tilfellum og því ætti Alþingi að skoða hvert tilfelli nú þegar tekjustofnum er varanlega hent út úr lögunum. Og það er ekki hægt að skoða þetta á neinn viðunandi hátt vegna þess hraða sem þessi bandormur á að hafa í gegnum þingið.

[16:15]

Ég sé það, virðulegi forseti, að svokallað ,,þrátt-fyrir``-ákvæði er látið halda sér t.d. varðandi erfðafjársjóðinn og Framkvæmdasjóð fatlaðra sem nú er verið að skerða mjög. Í fyrsta sinn er gripið til þess ráðs að skattur erfðafjársjóðs er ekki lagður óskertur inn í framkvæmdasjóðinn. En skrefið hefur verið stigið. Í þetta sinn er framkvæmdasjóðurinn skertur, erfðafjársjóður skilar sér ekki inn í hann og það segir okkur að miðað við þau 10 lög sem nú er tekið á með varanlegum hætti hljótum við að gera ráð fyrir því að þetta sé fyrra skrefið af tveimur og seinna skrefið verði að afnema erfðafjársjóð sem tekjustofn Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Og þar sem ég stend í þessum ræðustól Alþingis finn ég á mér að það er það sem koma skal í næstu fjárlögum, næsta ríkisfjármálabandormi, að Framkvæmdasjóður fatlaðra skuli þar eftir verða fjármagnaður með framlagi á fjárlögum. Ég tel að það sé mjög brýnt að þingmenn búi sig undir að þetta sé fyrra skrefið af tveimur í sömu átt.

Ég tek undir þá gagnrýni sem hér hefur komið fram. Það er óhugnanlegt hversu víða í fjárlögunum og bandorminum er höggvið í sama knérunn, eða þá sem minnst hafa. Virðulegi forseti, má vera að það sé misskilningur hjá mér en ég hef á tilfinningunni að það sé mjög mikil óróleiki í þingsal. Það er fremur óþægilegt að svo margir fundir séu í gangi í einu.

(Forseti (GÁ): Forseti tekur orð hv. þm. til greina og biður þingmenn um að veita ræðumanni hljóð.)

Þeir geta farið í hliðarherbergi ef þeir vilja ræða eitthvað annað. Það sem ég var að leggja áherslu á, virðulegi forseti, er að það er óhugnanlegt hversu víða í fjárlögunum og bandorminum er höggvið í sama knérunn og hagur þeirra sem lítið hafa skertur. Það er búið að flytja mjög langar ræður um þau mál hér þannig að ég ætla að stytta mál mitt hvað það varðar, en þó vil ég endilega árétta það sem mér liggur helst á hjarta. Bætur almannatrygginga og Atvinnuleysistryggingasjóðs eru algerlega aftengdar launaviðmiðun. Ég ætla að nefna það hér að það var mat ASÍ og BSRB að þetta þýddi um 600--700 millj. kr. sparnað ríkisins. Það er ekki bara verið að sporna við útgjöldum. Það er hreinlega verið að spara á því sem fólk sem ekkert hefur fær í bætur.

Við höfum gagnrýnt það harðlega í flokki mínum að fjármagnstekjuskattur sé tekinn upp gagnvart öldruðum án þess að nokkur ákvörðun liggi fyrir um það hvort eða hvenær væntanlegur fjármagnstekjuskattur verði lagður á aðra þegna. Ég get alveg tekið undir þá gagnrýni og hef gert það í umræðu um fjárlög að það sé óviðunandi að fólk með fjármagnstekjur fái viðbótarbætur frá Tryggingastofnun. En við verðum líka að vera sjálfum okkur samkvæm og á meðan við höfum ekki lagt fjármagnstekjuskatt á aðra þegna er óviðfelldið að leggja þennan skatt á aldraða.

Það er fremur lítið fjallað um aukna gjaldtöku sem hefur verið boðuð og er óljóst hvar hún kemur niður og hvernig verður farið með hana eftir að innritunargjöldin hafa verið felld út. Ég fagna því alveg sérstaklega að Framsfl. hefur haft döngun í sér til að fella út innritunargjöld á sjúkrahús, sem búið var að samþykkja.

Ég nefndi Framkvæmdasjóð fatlaðra áðan og ég ætla að nefna það varðandi hann að það hefur verið full sátt um ýmislegt sem hefur snúið að þessum sjóði. Hann var við stofnsetningu ákveðinn til þess að standa undir byggingarframkvæmdum, ekki rekstri. Hins vegar hefur það gerst í áföngum að ákveðinn hluti Framkvæmdasjóðs fatlaðra hefur verið tekinn til að standa undir rekstri og það hefur verið réttlætt með ýmsu. Fyrst varðandi viðhald, seinna varðandi viðhald og aðgengimál fatlaðra sem brýnt var að taka á og enn síðar var það aukið að rekstur mætti nema um það bil 40% af því fjármagni sem var í sjóðnum, svo fremi að greiðslurnar sem inntar væru af hendi væru til að létta á stofnanaþjónustu og þar með létta á stofnanaþörf. Það er mjög mikilvægt þegar við förum út í að taka fjármagn úr Framkvæmdasjóði fatlaðra í rekstur að það séu þá greiðslur sem létta á stofnanaþjónustu, að það séu nýjar leiðir sem farið er til að afstýra því að það þurfi að reisa fleiri byggingar þar sem starfsemi fyrir fatlaða fer fram. Þannig hafa t.d. aukin liðveisla við fatlaða sem gerir þeim kleift að búa í eigin íbúð, liðveisla til að vera úti í atvinnulífinu í stað þess að byggja verndaða vinnustaði og auknar greiðslur til stuðnings fjölskyldum sem taka fötluð börn að sér yfir helgar, hlúa að þeim og létta á erfiðleikum heimila þar sem fötluð börn búa og ýmsir aðrir slíkir liðir verið greiddir úr Framkvæmdasjóði fatlaðra vegna þess að þeir þýða kerfisbreytingu og létta á stofnanauppbyggingu. Þeir létta á seinni tíma rekstri. Það er rétt leið að fara og góð stefna. Þess vegna hefur verið leitað eftir því hverju sinni að samtök fatlaðra væru með í þessari stefnumörkun. Þau hafa fallist á að veita fjármagn úr þessum sjóði til reksturs og hafa viðurkennt þörf þessara þátta.

Nú er engin sátt. Nú berst inn á borð okkar þingmanna erindi frá hverjum samtökunum á fætur öðrum, öllum samtökum öyrkja og Samtökum aldraðra. Allir bera ugg í brjósti. Allir óttast hvert er stefnt vegna þess að öll sátt hefur verið lögð fyrir róða. Menn kæra sig ekki lengur um að leitað sé eftir því að stíga saman þau skref sem stigin eru inn í nýja framtíð með breyttum áherslum. Það er bara gert si svona, af því að ríkisstjórnin ætlar að hafa það svona. Og það er miklu stærra mál að hverfa frá sátt og samvinnu, t.d. um sjóð sem þennan, en það sem nemur fjárhæðinni sem verið er að rýra hann með. Því nú er vantrú og tortryggni ráðandi í röðum þeirra sem eiga að hafa samvinnu við ríkisvaldið í þessum mikilvægu málum.

Virðulegi forseti. Áður en ég tók hér til máls var verið að ræða hvernig dómsmrh. hefur farið með bótagreiðslur vegna kynferðislegs ofbeldis. Þetta er nákvæmlega sama niðurstaðan og ég hef gert að umtalsefni, það er vegið að þeim sem bágir eru. Nú á að lækka bótagreiðslur til þeirra sem eru í sárum og hafa lítið haft fram til þessa. Þeir hafa litið til þess að lögin kæmu til framkvæmda og hagur þeirra yrði bættur. Það er óviðurkvæmilegt hvert ráðherrar beina niðurskurðarhnífnum og það er ekki hægt að réttlæta það. Það er e.t.v. að bera í bakkafullan lækinn að ræða frekar það sem snýr að þessum bótagreiðslum. Ég get þó ekki stillt mig um að nefna hvernig á að skerða bæturnar. Það er ekkert smáræði, það eru ekki einhver 10%, það eru ekki einhver 25%. Nei, það er verið að lækka bætur vegna tjóns á munum úr 500 þús. í 250 þús., hámarksbætur vegna líkamstjóns úr 5 millj. í 2,5, hámarksbætur vegna miska úr 1 millj. í 400 þús. og hámarksbætur vegna missis framfæranda úr 3 millj. í 750 þús. Hvernig í ósköpunum er hægt að setjast niður með pennann og ákveða að bætur vegna missis framfæranda séu nú nægilegar 750 þús. ef niðurstaðan í vor var sú að þær ættu að vera 3 millj.? Það er auðvitað fullkomlega afstætt að vera að tala um bætur yfirleitt eða bætur fyrir missi framfæranda. En að fara úr 3 millj. í 750 þús. er svo dæmalaust að mig undrar ekki að dómsmrh. hefur verið fremur rjóður á vangann þegar hann svarar viðbrögðunum við þessu ákvæði. Ég tek undir þær áskoranir sem hér hafa komið fram. Það er verst að ráðherrar sitja ekki hér, sérstaklega fjmrh. sem ætti að heyra áskoranir okkar þingmanna. Ég tek undir áskoranir til annarra ráðherra að hjálpa dómsmrh. með rammann sinn ef hann á ekkert innan hans svo hægt sé að finna þessar 40 millj.

Virðulegi forseti. Ég hef fyrst og fremst beint sjónum mínum að útgjaldaþáttum í velferðarþjónustunni og ég hef gert það viljandi vegna þess að formaður Alþfl., Jón Baldvin Hannibalsson, gerði þessum bandormi mjög vel skil í ræðu sinni og fór yfir önnur efnisatriði þar sem sjónarmið okkar alþýðuflokksmanna koma fram. En mig langar að koma með nokkrar fyrirspurnir sem ég held að ekki hafi verið komið inn á í þessari umræðu og óska eftir því að fá upplýsingar um hvað felist í ákvæðum bandormsins. Eins og komið hefur fram, þá er hann afar fátæklegur. Hann er afar fátækur af upplýsingum um hvað í raun felst í þeim lögum sem verið er að breyta. Fyrsta dæmið sem ég vil nefna er 17. gr. Í athugasemd um hana segir:

,,Framlag ríkissjóðs til kirkjubyggingasjóðs hefur verið skert eða fellt niður með sérstöku tímabundnu ákvæði nokkur undanfarin ár. Framlagið á að nema 600 þús. kr. á ári, miðað við byggingarvísitölu 1. júlí 1981. Það mundi núna nema 8,1 millj. kr. Hér er lagt til að framlag til sjóðsins fari að ákvörðun Alþingis hverju sinni, en í fjárlagafrv. er ekki gert ráð fyrir framlagi til þessa málefnis.``

Bandormurinn birtist ekki fyrr en í gær og það er útilokað fyrir okkur þingmenn að fletta upp 33 lögum til að sjá nákvæmlega hvernig fjallað var um þessa þætti í þeim, hvað þá heldur að við getum flett því upp og skoðað hvernig hefur farið með þennan lið á liðnum árum. Það ætti að sjálfsögðu að standa hér hvernig framlagi hefur verið háttað á liðnum árum svo auðveldara væri fyrir þingmenn að athuga hvað verið er að gera og í hverju það er frábrugðið því sem áður hefur verið.

Ég hef nefnt Framkvæmdasjóð fatlaðra sem fjallað er um í 22. og 23. gr. og kallað eftir því varðandi hann hvort nánari skilgreining hafi fengist á því til hvers konar reksturs skerðing hans á að fara. Á hún að ganga inn í málaflokkinn eins og hver önnur fjárhæð fjárlaga eða er hún ætluð í eitthvað sérstakt? Er búið að fara yfir það í Framkvæmdasjóði fatlaðra hvert hlutfall framlaga til þeirra þátta sem ég nefndi hér áðan, viðhald, liðveisla, stuðningsfjölskyldur o.s.frv., verður af því sem eftir er í sjóðnum? Miðað við fyrri reynslu má gera ráð fyrir að til þessa fari um 100 millj. Þá værum við jafnvel komin upp fyrir það sem eftir stendur í sjóðnum, miðað við það sem þegar er bundið.

[16:30]

Ég gagnrýni harðlega að hér skuli vera teknar geðþóttaákvarðanir um þróun bóta almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga en það er það sem koma skal að ríkisstjórn mun ákveða hverju sinni hvort yfirleitt á að hækka bæturnar eða ekki. Ég geri mér fulla grein fyrir því að 3% svigrúm er inni í ákvæðinu fyrir næsta ár. En það er í þessu eins og öðru að skrefið hefur verið stigið. Hér eftir er það ákvörðun ríkisstjórnarinnar hvað er greitt og að hve miklu leyti hlutfalli er haldið.

Um 40. gr. segir svo: ,,Þar sem fyrirhugað er að fella niður bótaflokkana ekkju- og ekklabætur og ekkjulífeyri en rýmka heimild til greiðslu dánarbóta í staðinn, er nauðsynlegt að breyta samhliða upptalningu 1. mgr. 1. gr. laga um félagslega aðstoð. Þá er tekið inn ákvæði um endurgreiðslu umtalsverðs kostnaðar við læknishjálp og lyf.`` Þessar fjórar línur eru það sem sagt er um 40. gr. um ekkju- og ekklabætur og um endurgreiðslu vegna læknishjálpar og lyfja. Hvað þýðir þetta ákvæði í raun? Hvaða fjárhæðir er verið að setja af? Hvaða fjárhæðir er verið að taka inn í endurgreiðslur vegna kostnaðar og hvernig á að fara með það? Hvaða reglur eru þarna boðaðar? Ég ber þá spurningu fram til ráðherra.

Í 41. gr. eru mæðra- og feðralaunin skert. Hvað er sagt í ríkisfjármálabandorminum þegar ríkisstjórnin ákveður að skerða mæðra- og feðralaun? Sagt er: ,,Þessi breyting felst í því að mæðra- og feðralaun með einu barni falla niður. Þau nema nú 1.048 kr. á mánuði og lækka bætur um sömu fjárhæð á hvert barn með tveimur og þremur börnum.`` Vegna þess að bandormurinn kom fram í gær og menn hafa verið að hlaupa yfir þessi ákvæði þá hafa sumir gripið þetta þannig að verið sé að skerða mæðra- og feðralaunin með einu barni. En það er verið að gera meira. Ákveðið er að bætur með tveimur og þremur börnum skerðast nú um 1.048 kr. á hvert barn. Það á að fella bætur niður með fyrsta barni og skerða bætur með öðru og þriðja barni um 1.048 kr. á mánuði. Þetta er stórt mál á sama tíma og boðað er að skoða jaðarskattana, skoða hversu langt er gengið í tekjutengingu bóta, boðað að taka á barnabótaaukanum þannig að svolitlu sé létt af þeim bratta sem við köllum jaðarskatta. Á sama tíma er laumað inn litlu ákvæði um að fella niður mæðra- og feðralaun með einu barni og lækka um 1.048 kr. á hvert barn með tveimur og þremur börnum. Þarna er sem sagt skert fram að fjórða barni. Það er allt í sama stílnum hjá þessari ríkisstjórn. Mér er óskiljanlegt að flokkur sem hefur viljað teljast til fjölskylduflokks skuli hafa þessa stefnu í ríkisfjármálum. Það er höggvið alls staðar í sama knérunn. Hvernig kemur þetta inn í fjölskyldumálin og hvernig kemur þetta inn í stöðu þeirra einstaklinga sem fá mæðra- eða feðralaun með börnum sínum?

Athyglisvert er að þegar vitnað er í jafnréttissjónarmið í þessu plaggi þá er vitnað í að eitthvað sé ekki lengur í takt við jafnréttissjónarmið. Þá er það af því að það er hjá öðru kyninu en ekki hinu. Um 43. gr. segir: ,,Ekkjulífeyrir er bótaflokkur sem ekki er lengur í takt við jafnréttissjónarmið. Því þykir rétt að fella hann niður.`` Samræmingin er alltaf niður á við. Ekki er verið að skoða hvort ekkjur og ekklar þurfi einhvern stuðning. Nei, af því að þetta er ekkjulífeyrir og brýtur í bága við jafnréttið á að þurrka hann út. Þeir sem hafa notið lífeyrisins munu þó halda áfram að fá hann en sá sem er að verða 67 ára og hefur búist við því að þarna kæmi einhver hungurlús fær hana ekki.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fjalla um fleiri af þessum útgjaldaþáttum. Ég veit að það er umhugsunarefni að við komum hvert af öðru og tölum um sömu þættina. Margar greinarnar eru með þeim hætti að það er mjög mikilvægt að ræða um þær aftur og aftur og skrifa um þær og þannig að allir geri sér grein fyrir því hvað hér er á ferð og hvað ríkisstjórnin er að gera.

Að lokum ætla ég að nefna þætti sem snúa ekki beint að útgjöldunum en snúa að heilbrrh. Í 47. og 48. gr. er ákvæði um heilsugæslustöðvar. Þar er lagt til að formaður stjórnar heilsugæslustöðva verði skipaður af þeim ráðherra sem hann á að vera trúnaðarmaður fyrir og að kjörtímabil hans sé hið sama og ráðherrans. Ég er alveg sammála því og ég held að það sé frekar gott mál. Það hefur verið tekið upp í mörgum öðrum tilfellum. Síðan segir að ekki sé nauðsynlegt að viðkomandi formaður hafi búsetu á viðkomandi svæði. Í 48. gr. er lagt til að skipunartími fulltrúa ráðherra skuli vera takmarkaður við embættistíma og að búsetuskilyrði sé fellt brott. Ég spyr hvers vegna? Er ekki mikilvægt að sá fulltrúi sem á að sjá um þessi mál heima búi á svæðinu og þekki til mála sem neytandi og hafi góð tengsl við nánasta umhverfi sitt? Hvaða spor er verið að stíga og til hvers með því að ákveða að viðkomandi þurfi ekki að hafa búsetu á viðkomandi svæði? Erum við að sjá það fyrir að það verði jafnvel einhver sendur inn á svæðin til að sjá um þessa þætti?

Ég ætla líka að bera fram spurningu varðandi forvarnasjóðinn sem getið er um í 51. gr. Hvar er þeim sjóði skipaður sess? Hverjir eiga að veita úr honum? Hafa verið settar reglur um hverjir eiga kost á að fá úthlutað úr honum? Við skoðuðum þetta í félmn. fyrir skömmu. Þarna eru samræmd framlög til varna og ég held að það sé gott mál en ég gat ekki fundið í þeim gögnum sem ég var með í fjárlögunum hvernig ætti að skipa þessum málum. Ég spyr því fjmrh. hvað hefur verið ákveðið varðandi þennan sjóð.

Í 56.--60. gr. er fjallað um greiðslur ríkissjóðs bæði um skipulagskostnað og varanlega breytingu á lögum um verndun, friðun og veiðar á viltum fuglum og skerðingu á framlögum. Þarna eins og annars staðar í bandorminum hliðra menn sér hjá því að geta þess hvernig þessum málum hafi verið skipað, hvað sé verið að skerða, úr hverju og í hvað. Það er því full ástæða til að koma örlítið inn á það. Ég er verulega tortryggin þegar ég les 61. gr. Þar segir:

,,Gerð er tillaga um að ráðuneytum verði heimilt að færa verkefni milli stofnana`` --- ég bið þingmenn að taka eftir þessari setningu --- ,,eða fela sveitarfélögum og einkaaðilum að veita lögbundna þjónustu fyrir hönd ríkissjóðs, enda sé það talið hagkvæmt. Við það er miðað að mögulegt sé að breyta þjónustusvæðum og að um tímabundna samninga um þjónustuviðskipti verði að ræða.``

Ég geri mér fulla grein fyrir því að 61. gr. fer ekki inn í þennan bandorm svona af því bara. Þessi 61. gr. er grundvöllur fyrir einhverju sem koma skal og ég er tortryggin og lái mér hver sem vill. Hvað þýðir þessi grein og hvað boðar hún?

Virðulegi forseti. Þó það sé ekki bundið þessum bandormi beint spyr ég heilbrrh. til fróðleiks: Hvað er að frétta af bílalánum Tryggingastofnunar ríkisins? Ég spyr fjmrh. að gefnu tilefni. Ef ég man rétt er í fjárlögunum getið um lækkað framlag til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Í bandorminum er ekkert sem segir beinlínis hvernig á að mæta því lækkaða framlagi vegna þess að ekki er að sjá að skerðing á bótum miðað við að þær eiga að halda sér eins og þær eru lækki þörf sjóðsins. Ég verð að segja, hæstv. fjmrh.: Öðruvísi mér áður brá ef hér má standa lækkun í fjárlagafrv. án þess að ákvæði þar um komi inn í bandorminn. Minnist ég margra erfiðra stunda frá sl. desember þegar og ég segi þetta. Þess vegna spyr ég: Hvað kemur til að ekki skuli tilgreint hvað lækkar þessa fjárhæð í Atvinnuleysistryggingasjóði?