Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Föstudaginn 08. desember 1995, kl. 17:31:54 (1771)

1995-12-08 17:31:54# 120. lþ. 58.4 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur


[17:31]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Síðasta ræða hæstv. fjmrh. kallar að sjálfsögðu á mjög rækilegar umræður almennt um stöðu ríkissjóðs sem er ekki nokkur leið í andsvarstíma. En það má benda á að hæstv. núv. fjmrh. hefur verið lengur fjmrh. en aðrir menn og hefur því haft lengri tíma en flestir til að gera allt það góða fyrir almenning í landinu sem hann var að rekja núna áðan. Hann er því auðvitað að flytja stórfelldan áfellisdóm yfir sjálfum sér fyrst og fremst.

Það er enginn ágreiningur um að það þurfi að taka niður hallann á ríkissjóði og hefur ekki verið, ekki nokkur. Ágreiningurinn snýst um það hvernig á að gera það. Hverjir eiga að bera byrðarnar? Hverjir eiga að bíða? Um það snýst hinn pólitíski ágreiningur. Þetta er með öðrum orðum ekki tæknilegt vandamál eins og hæstv. fjmrh. telur það vera og þessir samstarfsflokkar hans, núverandi og fyrrverandi. Hér er um að ræða pólitískt grundvallaratriði og það þurfa menn að horfast í augu við.

Í framhaldi af þessu, hæstv. forseti, vil ég svo spyrja aðeins um eitt atriði því ég ætla að ræða þetta nánar á eftir. Í ræðu sinni sagði hæstv. ráðherra að breytingarnar á atvinnuleysisbótum um 3% til eða frá, miðuðust við breytingar á þjóðhagslegum aðstæðum eins og hann orðaði það. Hverjar eru þær þjóðhagslegu aðstæður? Er hann að tala um verðbólgu eða er hann að tala um aðrar aðstæður sem gætu orðið þess valdandi að þessi vikmörk færu að taka gildi á annan hvorn veginn?