Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Föstudaginn 08. desember 1995, kl. 17:37:48 (1776)

1995-12-08 17:37:48# 120. lþ. 58.4 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur


[17:37]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað stórfurðulegt að hlusta á ræðu hæstv. fjmrh. þar sem hann talar sig upp í mikinn hita yfir því óskaplega ábyrgðarleysi að reka ríkissjóð með halla, safna skuldum sem börnin okkar eigi að borga. En þar talar sá maður sem sennilega ber meiri pólitíska ábyrgð á núverandi skuldum ríkissjóðs en nokkur annar núlifandi Íslendingar. Hann hefur verið einna lengst fjmrh. allra núlifandi manna og er skuldakóngur því aldrei hefur ríkissjóður safnað meiri skuldum á einu kjörtímabili en einmitt hinu síðasta. Það eru á milli 35 og 40 milljarðar kr. sem þá féllu til í formi halla á ríkissjóði á þeim eina tíma.

Óheppinn er hæstv. fjmrh. þegar hann nefnir búvörusamninga í sambandi við þessi útgjöld því enginn einn gjörningur hefur sparað ríkissjóði meiri peninga en einmitt búvörusamningurinn frá 1991. Það er óumdeilt að hann sparaði ríkissjóði á seinni hluta síðasta kjörtímabils þegar hann var að fullu kominn til framkvæmda á milli 3 og 4 milljarða kr. á ársgrundvelli.