Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Föstudaginn 08. desember 1995, kl. 18:06:06 (1785)

1995-12-08 18:06:06# 120. lþ. 58.4 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur


[18:06]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir hennar ræðu. Mig langaði til að gera örlitla athugasemd varðandi ekkjulífeyrinn. Mín reynsla sem ég lýsti í ræðu minni er sú að ekkjur eiga síður rétt á atvinnuleysisbótum. Það kom fram hjá mér og þess vegna þurfa þær að eiga þarna aðstoð í samtryggingunni sem er almannatryggingarnar. Og ég lýsti því einnig að þannig mun verða þegar fram í sækir að ekki verður þörf fyrir þennan bótaflokk, enda eru það aðeins 5 millj. sem menn ætla að spara á ekkjunum. Það er verið að vísa þessum konum á félagsmálastofnun. En ég er sammála hæstv. ráðherra í því að það á ekki að vera kynjamunur varðandi bætur almannatrygginga. Breytingar hafa orðið í samfélaginu en enn eru til konur sem missa mennina sína og ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum og þurfa aðstoð.

Mig langar til að vekja athygli á því sem kom fram í ræðu hæstv. ráðherra, að það eru áhöld um hvort lagastoð sé fyrir þeirri mismiklu gjaldtöku sem á sér stað varðandi ferliverkin, ekki aðeins á læknastofum heldur einnig á sjúkrahúsum. Ég tel fulla ástæðu til að málið verði skoðað rækilega.