Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Föstudaginn 08. desember 1995, kl. 18:09:42 (1788)

1995-12-08 18:09:42# 120. lþ. 58.4 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur


[18:09]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hér eru þingmenn að reyna að greiða fyrir afgreiðslu frv. sem er mjög seint fram komið af hálfu ríkisstjórnarinnar, en svörin sem hæstv. heilbrrh. veitir eru varla boðleg þingheimi. Hæstv. ráðherra er spurður út í það hvernig hún ætli að spara 200 millj. kr. hjá sjúkrastofnunum í Reykjavík og svarið er svona: Með því að sameina þjónustuþætti og einingar, en það er hvorki sagt hvaða þjónustuþætti né hvaða einingar.

Spurt er hvernig eigi að spara 330 millj. í lyfjamálum og svarið er: Með viðmiðunarverðskrá sem þegar er í gangi, með strangara eftirliti og ýmislegt annað er líka í gangi. Það er ekki sagt hvað það er.

Herra forseti. Síðan kemur að þeim þætti í ræðu hæstv. ráðherra sem fjallar um ferliverk. Hæstv. ráðherra nánast fullyrðir að reglugerð um ferliverk eigi sér ekki lagastoð. Hún segir að vísu: Ýmislegt bendir til þess en ég er ekki löglærð manneskja. Herra forseti. Hér er einn af handhöfum framkvæmdarvaldsins að lýsa því yfir að hún telji að tilteknar aðgerðir sem verið er að framkvæma í hennar umboði styðjist ekki við lög en hún er ekki að gera nokkurn skapaðan hlut í því. Hún hefur ekki látið kanna hvort hér er um lögbrot að ræða. Ég hef satt að segja aldrei heyrt nokkurn einasta ráðherra leyfa sér að segja þetta við þingið.

Að lokum ein spurning líka, herra forseti. Hæstv. ráðherra var spurður sérstaklega eftir því hvernig hún hygðist framfylgja 31. gr. frv. sem hér liggur fyrir og fjallar um það að ef maður sinnir ekki þeirri skyldu að greiða iðgjöld til lífeyrissjóða samkvæmt lögum nr. 55/1980, þá sé heimilt að ætla viðkomandi tekjur sem koma síðan til frádráttar þegar tekjutrygging er greidd. Spurt var: Hvernig hyggst hæstv. ráðherrann framfylgja þessu? Ástæðan fyrir því að menn inna eftir þessu er nákvæmlega þessi: Öryrkjar og þeir sem vinna á vernduðum vinnustöðum hafa t.d. ekki leyfi til þess að greiða í lífeyrissjóði. Öryrkjar sem sökum örorku sinnar ná því ekki langtímum saman að starfa úti á vinnumarkaðnum geta þar af leiðandi ekki greitt í lífeyrissjóði. Það er algerlega nauðsynlegt að það komi fram með hvaða hætti ráðherrann ætlar að framfylgja þessu.