Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Föstudaginn 08. desember 1995, kl. 18:12:20 (1789)

1995-12-08 18:12:20# 120. lþ. 58.4 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur


[18:12]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi þetta síðastnefnda sem hv. þm. spurði um, lífeyrissjóðsgreiðslurnar, þá vil ég segja það að við erum að tala um atvinnurekendur sem ekki hafa hirt um að greiða í lífeyrissjóði en fá samt fullar bætur. Þeir eru æðimargir. Við erum að tala um jafnræði milli þeirra sem hafa greitt í lífeyrissjóði samkvæmt lögum og reglum. Við erum ekki að tala um einhverja öryrkja eða húsmæður sem ekki hefur verið gert að borga í lífeyrissjóði. Við erum að tala um þá sem hafa farið fram hjá kerfinu og í leiðinni lagt sína fjármuni í eitthvað allt annað og eiga eignir, en fá fullar lífeyrisbætur. Um þetta fólk erum við nákvæmlega að tala, hv. þm. Þá hristir hann höfuðið, heyri ég.

Hv. þm. hefur eftir mér að ég hafi fullyrt að reglugerð um ferliverk eigi sér ekki lagastoð. Það er ekki rétt. Það sagði ég ekki en það mátti skilja af máli mínu að eitthvað þarna kynni að vera á gráu svæði og það værum við að rannsaka. Þetta er því hreinn útúrsnúningur. En það hefur komið í ljós svo að ég endurtaki það, að það er ýmislegt í almannatryggingalöggjöfinni sem á sér ekki lagastoð og hv. þm. hefur sjálfur gert athugasemdir við.

Ég held að ég hafi þá svarað þeim fyrirspurnum sem hann lagði fyrir mig.