Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Föstudaginn 08. desember 1995, kl. 18:29:47 (1800)

1995-12-08 18:29:47# 120. lþ. 58.4 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur


[18:29]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að flytja langa eða ítarlega ræðu. Ég ætla ekki að endurtaka margt af því sem sagt hefur verið úr þessum ræðustóli í dag, en mig langar til að byrja á því að hrósa hæstv. ríkisstjórn og lýsa ánægju minni yfir þeirri ákvörðun sem hún tók í gær að falla frá því að setja innritunargjöld á sjúkrahús.

Ég vil einnig segja að mér finnst það ánægjuefni að ríkisstjórnin skuli hafa fallið frá því að skerða kjör aldraðra, öryrkja og atvinnulausra á næsta fjárlagaári eins og til stóð að gera.

[18:30]

Ég segi þetta af heilum hug. Mér finnst þessar ákvarðanir skipta mjög miklu máli. Hins vegar kann einhver að segja og hugsa og hefur nokkuð til síns máls að þetta er að sjálfsögðu hrikalegur vitnisburður um eina ríkisstjórn að hér skuli standa þingmenn og fagna því og lýsa sérstakri ánægju með að ríkisstjórnin ætli ekki að ráðast á atvinnulaust fólk, öryrkja eða lífeyrisþega, að þingmenn skuli sjá ástæðu til þess að stíga í pontu til að þakka fyrir að sjúklingar sem eru lagðir inn á sjúkrahús, verði ekki krafðir um innritunargjöld. Þetta er að sjálfsögðu umhugsunarefni. En hins vegar endurtek ég að mér finnst þessi ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá því í gær skipta mjög miklu máli.

Mig langar til að beina þeirri spurningu til hæstv. forseta hvort fjmrh. hæstv. sé í húsinu vegna þess að hann beindi nokkrum spurningum til mín hér úr ræðustól varðandi fjármagnstekjuskatt. Auk þess sem hann hélt hér mikla ræðu.

(Forseti (GÁ): Forseti getur upplýst að hæstv. fjmrh. er í húsinu og er búinn að gera ráðstafanir til þess að hann komi hér í sal.)

Þakka fyrir það. Vegna þess að hæstv. fjmrh. hélt hér mikla ræðu um hin viðkvæmu mál þegar niðurskurðarhnífnum væri beitt. Hann sagði: Við viljum ekki skila komandi kynslóðum miklum skuldum. Við ættum af ábyrgð að takast á við fjárlagavandann og fjárlagahallann. Hann gerði fjármagnstekjuskatt sérstaklega að umræðuefni og beindi þeirri spurningu til mín m.a. hvort ég vildi ekki láta reikna öllu fólki, líka gömlu fólki, arð af fjármagni til tekna. Ég skal svara þessu. Ég vil láta gera það. En ég vil að allir þjóðfélagsþegnar sitji þá við sama borð. Mér finnst það lýsa ótrúlegum vesaldómi að menn skuli enn eina ferðina heykjast á því að setja hér á fjármagnstekjuskatt. Þeir eru byrjaðir að lýsa því yfir, hæstv. ráðherrar, að það standi til. Við höfum heyrt það oft áður. Við höfum lesið fréttir af því í blöðum að hér eigi að leggja á einhvers konar Tyrkjaskatt. Og hvers vegna köllum við þetta Tyrkjaskatt? Jú vegna þess að ef leitað er í gervöllu OECD þá finnst eitt ríki, eða tvö reyndar, það eru Belgar líka sem eru svo lágt í skattprósentunni, 10% skatti, að íslensku ríkisstjórninni finnst möguleiki að byrja að íhuga málið. Fjármagnskattgreiðendur eiga ekki að sitja við sama borð og aðrir skattþegnar þessa lands. Þar eru engin skattleysismörk. Þar er ekki talað um nein skattleysismörk. Nei það er 10% Tyrkjaskattur sem á að setja hér á fjármagnseigendur og við vitum hvað það er sem vakir fyrir mönnum. Það er að verja stóru fjármagnseigendurna á Íslandi. Menn eru að reyna að finna leiðir til að hafa skattprósentuna sem allra lægsta en koma svo hér upp í ræðustól eins og hæstv. fjmrh. sem ekki einu sinni flytur þó frv. um þetta. Hann ætlar að byrja á gamalmennum. Hann ætlar að byrja á gamla fólkinu. Hann ætlar að byrja á því fólki sem ekki getur varið sig. En ég endurtek um fjármagnstekjur, að hvort sem sá sem aflar þeirra er ungur að árum eða gamall, á að skattleggja þá alla. Ég tek undir það. En það eiga allir þjóðfélagsþegnar að sitja við sama borð að þessu leyti.

Og síðan aðeins varðandi hin viðkvæmu mál, hæstv. fjmrh. Hin viðkvæmu mál. Í hvaða samfélagi býr hæstv. fjmrh. Friðrik Sophusson? Í hvaða samfélagi býr hann? Við vitum það ósköp vel að á Íslandi er mikil og ranglát tekjuskipting. Við sjáum hana allt í kringum okkur. Við sjáum hana í stóru glæsikerrunum, í stóru einbýlishúsunum annars vegar. Munaðarlífi annars vegar og hins vegar vitum við að það eru stórir þjóðfélagshópar, heilar stéttir sem eiga erfitt með að framfleyta sér og sínum. Þetta þekkjum við. Og nefndir á vegum fjmrn. og ríkisstjórna í tímans rás hafa allar komist að þeirri niðurstöðu að hér séu miklir fjármunir sviknir undan skatti án þess að nokkuð sé í alvöru aðhafst til að ná þeim fjármunum inn. Það er ekki gert. Í stað þess er ráðist á hina viðkvæmu hópa. Það er von að mönnum sé tamt að tala um hin viðkvæmu mál. Það eru öryrkjarnir. Það eru atvinnulausir. Það eru sjúklingar. Óþrjótandi tekjulind. Ég tek undir það sjónarmið að við eigum að leita allra ráða til að skila komandi kynslóðum skuldlausu landi. Ég tek undir það. En ég legg líka áherslu á að börnin okkar eigi annað og betra skilið en að við skilum því þjóðfélagi sem hefur rifið niður þá velferðarþjónustu sem þeir sem á undan hafa gengið hafa reist og byggt upp hér á landi. Og hér er komið sögunni að bandormslögunum sem hér eru til umræðu.

Ég vil byrja á því að fara nokkrum almennum orðum um bandorminn og taka undir það sjónarmið sem hamrað hefur verið á hér í dag og harðlega gagnrýnt, að í stað þess sem tíðkast hefur í ormum af þessari tegund á liðnum árum þar sem um er að ræða tímabundnar ráðstafanir í fjármálum, þá er að þessu sinni tekið á grundvallaratriðum í velferðarlöggjöfinni, lögum um almannatryggingar, lögum um heilbrigðisþjónustu, lögum til aðstoðar öldruðum og fötluðum. Það er verið að taka á sjálfum grundvellinum sem öryrkjar, aldraðir og atvinnulausir standa á. Hér eftir verða lífskjör þessara hópa háð ákvörðunum löggjafans hverju sinni. Ekki háð ákvörðunum með lögum, heldur með fjárlögum. Við þekkjum af reynslunni að þegar þeirri tryggingu, sem er eins konar vísitölubinding, er svipt brott er hætta á skerðingu. Þannig var hækkun persónuafsláttar í upphafi tengd lánskjaravísitölu. En í lok fyrsta staðgreiðsluársins var ákveðið að aftengja persónuafslátt hækkun lánskjaravísitölu, að hluta til. Þetta hefur haft í för með sér að skattleysismörk eru um 5.500 kr. lægri nú en ef tengingunni við lánskjaravísitöluna hefði verið haldið eins og gert var ráð fyrir í upphafi. Og nú er ég bara að tala um þessa tengingu.

En við þurfum náttúrlega ekki að fara langt til að fá sönnun þess að afnám tengingar bótakerfisins við launaþróun og verðlagsþróun í landinu er varhugaverð vegna þess að gert var ráð fyrir því, fyrir aðeins nokkrum dögum að skerða þessar bætur um 600 millj. Þá er ég að tala um atvinnuleysisbætur og örorkubætur. Þetta eru ekki bara reikningskúnstir. Við erum ekki að fást við einhverjar tölur eða kennisetningar þegar hæstv. félmrh. segir hér áðan að hann sé andvígur hvers kyns vísitölubindingum í kerfinu. Við erum að tala um lífskjör þessa fólks og lífskjör þessara hópa. Hann er annar tónninn í yfirlýsingunni frá Sjálfsbjörg t.d. sem send var út 17. nóvember. Þar er ekki vikið að þessari kerfisbreytingu sem einhverjum reiknikúnstum. Þar er talað um þetta sem mannréttindi. Það er það sem við erum að ræða hér í dag. Við erum að ræða um mannréttindi. Í tilefni þeirra orða hér áðan um að samtök launafólks hefðu komið að þessu máli og þeim hefði verið kynntar þessar breytingar snemma í haust, vil ég segja þetta: Í yfirlýsingum sem komið hafa fram hjá öllum helstu samtökum launafólks á Íslandi hefur verið hamrað á því að ekki yrði skorið á þessi tengsl. Ég endurtek fullyrðingu sem ég setti fram fyrir fáeinum vikum. Svo lengi sem heildarsamtök á vinnumarkaði koma að gerð kjarasamninga á einn eða annan hátt verður það aldrei liðið að kjör þessara hópa, og þá er ég að tala um öryrkja, atvinnulausa og lífeyrisþega, verði skert eins og til stóð fyrir fáeinum dögum eða vikum. Það verður aldrei liðið.

Þetta þýðir það einfaldlega, ef menn ætla að halda sig við þá ráðstöfun að skera á tengslin, að verið er að efna til ófriðar á vinnumarkaði á hverju einasta ári.

[18:45]

Mig langar til að víkja að 41. gr. varðandi mæðra- og feðralaun, ekki vegna þess að ég vilji ekki fara í aðrar greinar frv. einnig heldur af því að mig langar til að vekja athygli á henni fyrir það að hún er dæmigerð um ákveðna þróun. En ástæðan fyrir því að ég ætla ekki að fara yfir allt frv. er sú sem ég gat um í upphafi að það búið er að fjalla um það í mörgum ræðum í dag. En samkvæmt þessari breytingu er gert ráð fyrir að mæðra- og ferðralaun með einu barni falli niður. Í greininni segir að þau nemi nú 1.048 kr. á mánuði og lækka bætur um sömu fjárhæð á hvert barn með tveimur og þremur börnum. Árið 1992 var þessi upphæð 56.784 kr. Árið 1995 var þessi upphæð komin niður í 12.000 og nú á árinu 1996 er hún 0 kr. Þetta er pólitík hinna mörgu skrefa til lífskjaraskerðingar á Íslandi. Þeir segja að þetta sé svo lítið, þetta eru 1.000 kr. á mánuði. Þetta voru tæplega 57.000 kr. árið 1992. Fór niður í 12.000 kr. 1995 og nú niður í 0 kr. Með tveimur börnum var þessi upphæð árið 1992 148.776 kr., 1995 var hún komin niður í 60.000 kr., á næsta ári verður hún 48.000 kr. Svona fara menn að því að skræla utan af velferðarkerfinu á Íslandi. (Gripið fram í: Þetta var nú Jafnaðarmannaflokkur Íslands.) Það er von að hæstv. fjmrh. tali um hin viðkvæmu mál. Það er viðkvæmt mál þegar sífellt eru valdir út þeir hópar sem síst skyldi.

Hæstv. forseti. Í 61. gr. segir: ,,Gerð er tillaga um að ráðuneytum verði heimilt að færa verkefni milli stofnana eða fela sveitarfélögum og einkaaðilum að veita lögbundna þjónustu fyrir hönd ríkissjóðs, enda sé það talið hagkvæmt. Við það er miðað að mögulegt sé að breyta þjónustusvæðum og að um tímabundna samninga um þjónustuviðskipti verði að ræða.`` Mig langar til að spyrja fulltrúa hæstv. ríkisstjórnar hvað sé átt við með þessari einkavæðingarklásúlu? Eru þetta einhverjar sérstakar ráðstafanir sem gilda inni á sjúkrahúsum? Ef ég man rétt var því sýndur áhugi í einhverjum plöggum frá hæstv. ríkisstjórn að stofna hlutafélög um skurðstofur og aðrar deildir inni á sjúkrastofnunum. Mig langar til að vita hvað það er sem vakir fyrir hæstv. ríkisstjórn með þessari sakleysislegu klásúlu.