Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Föstudaginn 08. desember 1995, kl. 18:49:48 (1801)

1995-12-08 18:49:48# 120. lþ. 58.4 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur


[18:49]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef nú þegar svarað í umræðunni flestöllu því sem fram hefur komið nema síðustu spurningu hv. þm. um 61. gr. Hún á að vera tiltölulega skýr og í greinargerðinni kemur einnig fram við hvað er átt. Hér er ekki átt sérstaklega við sjúkrahús eða slíkar stofnanir. Hér er um almenna heimild að ræða og hér er fyrst og fremst verið að opna fyrir að hægt sé að afhenda verkefni, t.d. sveitarfélögum eða einkaaðilum þegar það fellur betur að markmiðum þjónustunnar eða starfsins. Eftir sem áður ber auðvitað ríkið og viðkomandi ráðuneyti ábyrgð á því að starfsemin sé unnin og þjónustan innt af hendi með þeim hætti sem lög bjóða eða ætlast er til í fjárlögum ríkisins. Hér er verið að opna möguleika því oft gerist það að hægt er að sameina stofnanir. Hægt er að taka út úr stofnunum tiltekin atriði og veita til annarra aðila, ekki síst sveitarfélaga. Hér er verið að opna fyrir það án þess að það þurfi að breyta lögum sérstaklega hvað þetta snertir.

Virðulegi forseti. Ég á von á því að á næsta ári fari fram á vegum ríkisins talsverð endurskoðun á rekstrinum. Við þurfum á því að halda fyrir fjárlagaárið 1997 og það kann að vera eðlilegt að hafa einhvern sveigjanleika til að undirbúa slíkar breytingar. Hér er hins vegar ekkert sérstaklega átt við sjúkrahús og ég á ekki von á því að það þurfi að beita þessu ákvæði hvað það snertir. En ég útiloka það hins vegar alls ekki.