Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Föstudaginn 08. desember 1995, kl. 19:42:39 (1808)

1995-12-08 19:42:39# 120. lþ. 58.4 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur


[19:42]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru þrjú atriði sem mig langar til að gera hér að umtalsefni. Í fyrsta lagi vil ég minna hv. þm. á að fjárlög eru líka lög. Menn eiga að fara að fjárlögum þannig að Tryggingastofnun ríkisins getur ekki ákveðið, ef ekki eru skýrar lagaheimildir til, að veita bætur upp á sitt eindæmi ef það brýtur í bága við fjárlög. Ég er ekki að segja neitt annað en það sem felst í þessari yfirlýsingu minni.

Í öðru lagi vil ég að það komi hér fram að það er ekkert athugavert við það að minni hyggju að taka sjálfvirknina úr sambandi þegar talað er um bætur eins og almennar tryggingabætur frá almannatryggingum ríkisins, vegna þess að smám saman er lífið að breytast og við þurfum að taka tillit til þess að fjárhagur fullorðins fólks hefur batnað og mun batna meira þegar lífeyrissjóðirnar skila meiru til þess fólks sem hefur sparað í þá áratugum saman.

Í þriðja lagi vil ég segja að þetta sem hér er gert ráð fyrir og kallast af sumum fjármagnstekjuskattur, sem eru auðvitað algjör öfugmæli vegna þess að hér er verið að tala um fjármagntekjuskerðingu á bætur en ekki laun, að þá skal það tekið fram að ef einstaklingur hefur ekki lífeyrisgreiðslur eða launatekjur getur hann líklega haft skattfrjálst samkvæmt þessu ákvæði upp undir 40 þús. á mánuði í vaxtatekjur og þarf þá að eiga í banka líklega milli 7 og 9 millj. til þess að bætur fari að skerðast hjá honum. Og ég spyr hv. þm.: Er það virkilega svo að hann sé að verja það fyrir okkur að slíkar tekjur megi ekki undir nokkrum kringumstæðum skerða bótarétt?