Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Föstudaginn 08. desember 1995, kl. 19:50:26 (1813)

1995-12-08 19:50:26# 120. lþ. 58.4 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur


[19:50]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi þakka hæstv. heilbrrh. fyrir svörin og spyrja hana jafnframt þeirrar einföldu spurningar sem ég spurði hana áðan en hún svaraði ekki núna. Er meiri hluti í heilbr.- og trn. fyrir því að skjóta lagastoð undir reglugerðina um bílalán? Er meiri hluti fyrir því og er við því að búast að þessi nýju lög verði þá sett núna fyrir hátíðirnar? Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að fá um þetta upplýsingar og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ábendinguna varðandi Ríkisendurskoðun. Ég hafði satt að segja gleymt því. Það er rétt að Ríkisendurskoðun lét þetta nýlega frá sér fara. En það er æskilegt að fá svar við því hvort hún telur að það sé meiri hluti í heilbr.- og trn. Alþingis fyrir því að tryggja reglugerðinni um bílalán lagastoð. Ef svo er þá er auðvitað ekkert annað að gera fyrir hv. formann heilbr.- og trn. en að halda fund í nefndinni á morgun og ganga frá frv. um þetta efni þannig að það sé klárt og menn þurfi ekki að velkjast í vafa um það stundinni lengur.