Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Föstudaginn 08. desember 1995, kl. 19:52:07 (1815)

1995-12-08 19:52:07# 120. lþ. 58.4 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur


[19:52]

Svavar Gestsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alltaf meiri hluti fyrir því að fara að lögum á Alþingi en það eru stundum deildar meiningar um það hvað eru lög og hvernig þarf að breyta lögum. Út á það gengur þetta mál. Hæstv. ráðherra hefur ekki svarað því hvort hún telji að það sé meiri hluti í heilbr.- og trn. fyrir málinu. Er hún þar með að segja eða gefa í skyn að Sjálfstfl. sé að þverskallast við að breyta lögunum þannig að bílareglugerðin verði lögleg? Er hæstv. heilbrrh. að segja að Sjálfstfl. sé að þvælast fyrir í þessu máli? Það verður auðvitað að vera alveg skýrt. Ég geri mér grein fyrir að fjmrh. getur verið tiltekið vandamál í þessu máli. En hann þarf nú ekki að ráða öllu hér. Er það Sjálfstfl. sem er þversum í málinu? Er það þess vegna sem hæstv. ráðherra vill ekki að hv. þm. Össur Skarphéðinsson kalli saman fund í nefndinni fyrr en á mánudag eða þriðjudag? Hvort þarf að gera? Það þarf að breyta þessu fyrir jól og ég er sannfærður um að stjórnarandstaðan er öll tilbúin til að flýta svo meðferð þessa máls að það verði að lögum fyrir hátíðar. (Heilbrrh.: Það er góð samvinna við Sjálfstfl. ég þarf ekki að segja meira.)