Samstarfssamningur milli Norðurlanda

Mánudaginn 11. desember 1995, kl. 15:13:16 (1822)

1995-12-11 15:13:16# 120. lþ. 59.1 fundur 198. mál: #A samstarfssamningur milli Norðurlanda# þál., GHH
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur


[15:13]

Geir H. Haarde:

Virðulegi forseti. Við sjáum fyrir endann á ferli í samstarfi norrænu ríkjanna sem hófst fyrir um það bil ári í kjölfar þess að Finnland og Svíþjóð ákváðu að gerast aðilar að Evrópubandalaginu og í kjölfar atkvæðagreiðslu um sama málefni í Noregi. Eins og fram kom í máli ráðherrans hófst þá umfangsmikill endurskoðunarferill sem beindist bæði að innihaldinu í norrænu samstarfi og formi þess og skipulagi. Í raun og veru má segja að það að þessu skuli nú lokið um að bil ári eftir að ferill þessi hófst er mikilvægur árangur og að tekist hafi að ljúka málinu á hinum norræna vettvangi á ekki lengri tíma. Það sýnir jafnframt að þeir hafa rangt fyrir sér sem halda því fram að Norðurlandaráð sé það stöðnuð stofnun að hún geti ekki tekið hinar minnstu ákvarðanir um skipulagsbreytingar á eigin starfsemi. Það er auðvitað allt saman rangt.

Vissulega má segja að á þessum ferli sem hefur tekið heilt ár hafa verið skiptar skoðanir. Það hefur komið fram, bæði í undirbúningnum fyrir þinghaldið í Reykjavík á síðasta vetri og í þeirri vinnu sem fram fór á vettvangi forsætisnefndar ráðsins í kjölfarið og það hefur sömuleiðis komið fram á aukaþingi því sem haldið var í Kaupmannahöfn í september að svo var. En aðalatriðið er þó að fengist hefur niðurstaða sem byggist á ákveðnum málamiðlunum og er þess eðlis að allir eiga að geta unað við hana.

[15:15]

Það er búið að fara núna í saumana á bæði hinum svokallaða Helsingfors-sáttmála sem og vinnureglum ráðsins sjálfs en þær verða til frekari meðferðar í kjölfar breytinga sem gerðar voru á þeim nú í nóvembermánuði sl. Allt horfir þetta til þess að laga starfsemina að breyttum tímum, gera ráðið og starfsemi þess sveigjanlegri og betur til þess fallna að bregðast við síbreytilegum aðstæðum og tryggja að á þessum vettvangi séu menn að tala um þá hluti sem skipta mestu máli á hverjum tíma en ekki bara að tala um það sem þeir hafa verið að tala um undanfarna áratugi.

Það er jafnframt rétt sem fram kom hjá hæstv. utanrrh. að áhrif stjórnmálaflokkanna og áhrif stjórnmálaskoðana manna munu væntanlega vaxa í kjölfar alls þessa. Það er ekki nema eðlileg þróun. Það er það sem menn hafa fyrir sér annars staðar í Evrópu, hvort sem er á vettvangi Evrópuráðsins þar sem íslenskir þingmenn þekkja slík vinnubrögð mætavel og sömuleiðis á vettvangi Evrópuþingsins. Ef menn vilja takast á við mikilvæg þjóðfélagsleg málefni komast menn ekkert hjá því að gera það á grundvelli stjórnmálaviðhorfa og pólitískra skoðana. Enda þótt það hafi verið okkur Íslendingum að mörgu leyti framandi að fikra okkur yfir í þess háttar vinnubrögð er það bara hlutur sem við verðum að sætta okkur við og horfast í augu við jafnvel þótt það geti kostað með einhverjum hætti minni áhrif einstakra landsdeilda, þar á meðal okkar eigin. Það þýðir einfaldlega að þingmenn verða að hasla sér völl með öflugri hætti á vettvangi hinna pólitísku hópa en auðvitað má segja sem svo að íslenskir þingmenn hafi ekki undan neinu að kvarta á þeim vettvangi enda eru ýmis dæmi þess að menn hafi hlotið ágætan og mikinn trúnað á vettvangi sinna norrænu flokksfélaga.

Meginefnisbreytingin sem ákveðið var að ráðast í á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík var sú að flokka umfjöllunarefnin í þrjá meginflokka: Í fyrsta lagi hin hefðbundnu norrænu málefni. Í öðru lagi mál sem tengjast Norðurlöndum og Evrópu og í þriðja lagi málefni hinna svokölluðu nærsvæða Norðurlandanna. Í kjölfar þessarar ákvörðunar var deilt um það hvort ætti að hafa skipulag ráðsins með sams konar hætti, þ.e. á grundvelli þriggja meginnefnda sem má segja að skiptist landfræðilega eftir þessum forsendum eða hvort ætti að halda sig við hefðbundnari fagnefndir eins og tíðkast í flestum þjóðþingum og eins og verið hefur í Norðurlandaráðinu til þessa. Niðurstaðan varð sú að fara fyrri leiðina en jafnframt þannig að unnt verður að setja á laggirnar ef nefndirnar meta það sjálfar svo að það sé eðlilegt, bæði undirnefndir, sérstaka vinnuhópa og jafnvel nefndir sem starfa þvert á þessar þrjár stóru meginnefndir. Allt þýðir þetta meiri sveigjanleika í kerfinu en jafnframt hugsanlega í byrjun ákveðið los sem þýðir að það er mjög nauðsynlegt að þetta byrji myndarlega og að haldið sé þéttingsfast utan um þessi nefndarstörf þegar þau hefjast. Það er reyndar svo að fyrir fáeinum dögum var haldinn fyrsti fundur á vettvangi forsætisnefndar Norðurlandaráðs með hinni nýju forustu þessara nefnda þar sem farið var yfir þá þætti og ég sé enga ástæðu til þess að óttast að breytingarnar muni ekki takast vel og að nefndirnar verði ekki öflugar í sínu starfi.

Í þessu þingmáli er um að ræða staðfestingu á lokaniðurstöðu þessa ferils alls en í tillögunni felst hins vegar jafnframt að það verður auðveldra en áður að laga regluverkið enn á ný ef það er ósk manna að fenginni reynslu vegna þess að nú er verið að flytja ýmsar slíkar ákvarðanir sem áður áttu heima í Helsingfors-sáttmálanum sjálfum yfir í vinnureglur ráðsins sem það getur sjálft breytt og kallar ekki á fullgildingu í þjóðþingum aðildarlandanna. Þetta er annað dæmi um hinn aukna sveigjanleika sem nú er búið að byggja inn í þessa starfsemi.

Ég hafði ekki hugsað mér að fara frekari orðum um einstakar breytingar sem hér er gerð tillaga um. Utanrrh. hefur gert grein fyrir því en ég vil láta koma fram að lokum að starfið að þessum málefnum hefur tekið mikinn tíma hjá forsætisnefnd Norðurlandaráðs á þessu ári og hjá þeim þingmönnum sem þar hafa starfað, þar á meðal okkur þremur sem höfum setið þar fyrir Íslands hönd á þessu ári, þ.e. okkur 3. þm. Norðurl. e. og hv. 4. þm. Austurl., þeirra Valgerðar Sverrisdóttur og Hjörleifs Guttormssonar. Við höfum ekki allan tímann verið alveg sammála í þessu og haft mismunandi áherslur eins og eðlilegt er. Engu að síður tel ég að samstarfið hafi verið mjög gott og ég vil nota tækifærið og þakka þeim báðum fyrir ágætan stuðning við mig í starfi forseta þennan tíma sem ég hef gegnt því embætti á þessu ári meðan unnið hefur verið að þessu á vettvangi forsætisnefndarinnar.

Ég tek undir það sem hæstv. ráðherra sagði áðan. Formið er vissulega mikilvægt og skipulagið er mikilvægt en innihaldið er aðalatriðið og við Íslendingar höfum alltaf lagt áherslu á það að við höfum tekið þátt í þessu samstarfi af heilum hug og lagt í það sem við höfum getað vegna þess að það hefur skipt okkur efnislega mjög miklu máli sem þjóð og fyrir Íslendinga marga hverja sem einstaklinga að geta verið fullgildir borgarar í þessu norræna samstarfi. Ég held að aðalatriðið sé það að standa vörð um þann þátt málsins. Þó svo að þrjú Norðurlandanna séu aðilar að Evrópusambandinu hafa þau samt öll fullan hug á því að halda hinu klassíska, hefðbundna norræna samstarfi áfram þannig að það megi gagnast borgurum landanna svo sem verið hefur og fyrir þessu og þessu til stuðnings liggja pólitískar yfirlýsingar helstu ráðamanna allra landanna. Ég kvíði því ekki þó að hér séu breytingar í nánd og hér sé verið að taka ákvarðanir um breytt skipulag og þess háttar. Hin norræna samsemd hverfur ekki þó svo slíkar breytingar séu gerðar. Ég held að með þeim breytingum og með því verki sem nú er búið að vinna hafi tekist að festa í sessi þetta samstarf á breyttum tímum þó að vissulega hafi mátt segja fyrir ári síðan sem svo að viss hætta væri á ferðinni um að nú verði aðskilnaður milli annars vegar Noregs og Íslands og hins vegar Danmerkur, Svíþjóðar og Finnlands. Það verður ekki á þessum forsendum og það er vel og er ástæða til þess fyrir okkur Íslendinga að fagna því.