Laun forseta Íslands

Mánudaginn 11. desember 1995, kl. 16:21:32 (1827)

1995-12-11 16:21:32# 120. lþ. 59.3 fundur 224. mál: #A laun forseta Íslands# (skattgreiðslur) frv., Flm. ÓHann
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur


[16:21]

Flm. (Ólafur Hannibalsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um laun forseta Íslands, sem ég flyt ásamt fimm öðrum flutningsmönnum. Í sjálfu sér þarf ekki að hafa langt og mikið mál um þetta frv. Að vísu væri kannski freistandi að bregða svolítið á leik og ræða nokkuð um forsetaembættið í sambandi við þetta mál. En ég mun ekki falla fyrir þeirri freistingu heldur halda mér við efnið.

Þetta mál er ákaflega einfalt. Frv. er í tveimur greinum: Orðin ,,og undanþeginn öllum opinberum gjöldum og sköttum`` í 2. gr. laga um launakjör forseta Íslands, nr. 10/1990, falli brott og að lög þessi öðlist gildi 1. ágúst 1996, þ.e. þann dag sem nýr forseti tekur opinberlega við embætti. Jafnframt falli niður 1. tölul. 4. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981.

Það er ef til vill eðlilegt að þær spurningar sem vakna við flutning þessa máls séu í fyrsta lagi um tímann. Af hverju er þetta flutt nú? Þar er því til að svara að í stjórnarskránni segir það um launagreiðslur til forseta Íslands að ákveða skuli með lögum greiðslur af ríkisfé til forseta og þeirra sem fara með forsetavald og óheimilt skal að lækka greiðslur þessar til forseta kjörtímabil hans. Um uppruna þessa ákvæðis veit ég ekki mikið en mann grunar engu að síður að þetta séu leifar af þeim ákvæðum í stjórnarskrá Íslands sem fluttust yfir til lýðveldisins með bráðabirgðabreytingum á þeirri stjórnarskrá sem Kristján konungur IX. færði okkur úr föðurhendi 1874. Með leyfi forseta vil ég vitna í grein sem dr. Bjarni Benediktsson skrifaði árið 1951 í Tímarit lögfræðinga um lögkjör forseta Íslands, en þar segir á þessa leið til að skýra þetta ákvæði:

,,Þetta síðasttalda ákvæði er sett til þess, að Alþingi geti ekki beitt fjárkúgun við forseta eða hann verði því um of fjárhagslega háður, og nær það ekki aðeins til hinna föstu launa, heldur einnig til annarra greiðslna sem forseta er veittur réttur til með lögum.``

Þetta orðalag bendir eindregið til þess að þegar konungur færði þjóð sinni, hinni dönsku og íslensku, stjórnarskrá upphaflega og færði nokkur völd í hendur þingsins, hafi verið reynt að verja konungdæmið með því að þetta þing sem nú fékk skattlagningarvald í ríkinu geti ekki gengið of nærri réttindum krúnunnar. Og ef ágreiningur yrði milli konungs og þingsins, gæti þingið ekki hefnt sín á konungi með því að svipta hann að einhverju leyti þeim fríðindum sem hann hefði, enda tók hann áreiðanlega megnið af tekjum sínum í formi ýmis konar fríðinda. Þetta tel ég og aðrir flm. óeðlilegt. Það er mjög óeðlilegt að launakjör forsetans felist að verulegu leyti í skattfríðindum og ég segi að verulegu leyti því ég hef heyrt nefndar tölur sem eru eitthvað á þá leið að a.m.k. þriðjungur eða upp undir 40% af launakjörum forseta felist e.t.v. í þessum skattfríðindum.

Með því að veita embættismönnum slík fríðindi er þeim að nokkru leyti í sjálfsvald sett hvernig þeir taka laun sín. Þeir geta notað þessi fríðindi meira eða minna eftir því sem þeim sýnist og það er að öllu leyti skynsamlegri háttur að laun embættismanna ríkisins séu afmörkuð með lögum og farið nokkuð strangt eftir þeim lögum. Ég vil leyfa mér í sambandi við þetta að vitna aftur til fyrrnefndrar greinar Bjarna Benediktssonar sem hann skrifaði árið 1951 þar sem hann er með nokkrar skemmtilegar hugleiðingar um það hvað í því felist þegar sagt er að forseti skuli t.d. hafa ókeypis bústað, ljós og hita. Hann tekur þar fram að þá sé að sjálfsögðu einungis átt við embættisbústað forseta sem honum er skipað að hafa í Reykjavík eða nágrenni samkvæmt lögum og tekur þá fram að forseti eigi ekki kröfu til neins annars bústaðar á kostnað ríkisins heldur en þessa. Síðan tekur Bjarni fram að auðvitað beri ríkinu að leggja til í bústaðinn hæfileg húsgögn og annað slíkt, svo og að halda honum við með sæmilegum hætti. Um slíkar aðgerðir beri forseta að vísu að hafa hliðsjón af fjárlögum, en vitanlega eigi hann rétt á hæfilegu viðhaldi bústaðar og búsmuna, nægilegu ljósi og hita og verði hann sjálfur að meta það innan hóflegra marka.

Einnig tekur hann fram að sama gildi um útlagðan kostnað forseta við rekstur embættisins sem til teljist risna, embættisferðalög, bifreiðar o.fl., en þó muni sá háttur hafa komist á, a.m.k. síðari árin, þetta er árið 1951 þegar forsetaembættið er aðeins sjö ára gamalt, að til risnu er goldin fastákveðin upphæð án hliðsjónar af því hvort henni er allri eytt í þessu skyni og sé það að vísu annað en lögin ætlast til.

[16:30]

Það er dálítið skemmtilegt og ástæða til, held ég, að benda á að dr. Bjarni telur ástæðu til í þessari grein sinni að halda svo litlum atriðum til haga eins og hvað teljist hæfilegt ljós og hiti og einnig með risnu ætlist lögin til að hún sé borguð eftir reikningi, en ekki í einhverjum summum án þess að lagðir séu fram reikningar því til sönnunar að öllu hafi verið varið til risnu. Ég held að það sé full ástæða til fyrir okkur að staldra aðeins við og hugleiða þessi mál. Það hefur farið svo með forsetaembættið á undanförnum áratugum að það má segja að komist hafi upp nokkurs konar helgi í kringum það. Menn eigi alls ekki að gagnrýna eitt eða neitt í embættisfærslu forseta þar sem hann sé eina sameiningartákn þessarar þjóðar og menn eigi ekki að vera með smálegt agg og nagg út í embættið. Það er að vísu rétt en þessi helgi má ekki ganga út í þær öfgar að hún leiði til einhvers konar hræsnisfullrar þagnar um málefni embættisins og forsetann á hverjum tíma. Og einmitt þessi ummæli dr. Bjarna benda til þess að forgöngumenn á fyrstu árum lýðveldisins hafa ekki skirrst við að ræða bæði smátt og stórt í sambandi við embættið og við megum ekki líta þetta embætti svo stórum augum að við gleymum því að það hefur sín takmörk eins og öll önnur embætti á vegum þjóðarinnar.

Það er full ástæða til að flytja þetta frv. nú vegna þess að á næsta ári fer fram nýtt forsetakjör og eins og ég hef rakið hér að framan verður lögum ekki breytt á kjörtímabili forsetans, eða a.m.k. alls ekki til lækkunar. Fyrir það er byggt í stjórnarskrárákvæðinu sem ég talaði um áðan. Ef menn telja á annað borð ástæðu til að gera þessar breytingar á launakjörum forsetans er rétt að gera það núna og kannski rétt að vekja athygli á því að frv. svipaðs efnis var flutt af hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni á 115. þingi, ef ég man rétt. Það náði ekki fram að ganga en var einmitt flutt í tilefni af því að þá stóðu til nýjar forsetakosningar. Því er eðlilegt að þetta sé flutt nú þegar líkt stendur á og það sé búið að ganga frá þessum málum áður en til forsetakjörs kemur.

Hin röksemdin er efnisleg. Af hverju ætti að breyta því skattfrelsi sem forsetinn hefur notið? Ég og meðflutningsmenn mínir teljum það mjög óeðlilegt að launakjör forsetans felist í skattfríðindum að miklu leyti og það sé miklu eðlilegra að embætti forseta falli inn í launakerfi ríkisins, hann beri skatta eins og aðrir þegnar þjóðfélagsins og sé ekki einangraður frá kjörum þjóðarinnar með þeim hætti að hann þurfi ekki að lúta ákvörðunum Alþingis varðandi skatta eins og allir aðrir þegnar. Ég tel raunar að þetta eigi að gilda um alla aðra þegna og alþingismenn eigi líka að gæta sín á því að undanþiggja ekki aðra hópa, þar með talda sjálfa sig undan sköttum og skyldum, hvorki í smáu né stóru. Við teljum að það fari best á því að launakerfi ríkisins sé gagnsætt, æðstu embættismenn þjóðarinnar hafi laun sem hefji þá yfir fjárhagsáhyggjur meðan þeir gegna starfi sínu, en um leið sæti þau almennri meðferð um skatta og opinber gjöld.

Nú kunna menn að hafa skiptar skoðanir um þetta og það hefur komið til í forsetakosningum að einstakir frambjóðendur hafa lýst yfir vilja sínum til þess að breyta þessu og falla frá skattfrelsinu, en þá er það of seint. Hvað sem líður góðum vilja forsetaframbjóðenda í þessu efni, ræður hans vilji ekkert um það. Um það segir prófessor Jónatan Þórmundsson í greininni ,,Skattskylda einstaklinga`` sem kom í Tímariti lögfræðinga, 1. hefti 1982, með leyfi hæstv. forseta:

,,Hvorki forsetinn né maki hans geta afsalað sér skattfrelsi sínu almennt. Ef svo væri, gætu þessir aðilar í raun breytt lögum. Ríkisvaldið ákveður einhliða í lagaformi jafnt skattskyldu sem skattfrelsi. Ef forsetinn kýs að inna af hendi til hins opinbera fjárhæðir, sem svara skattgreiðslum af tekjum, eignum og öðru, er þar um frjáls framlög að ræða, sem ekki hagga við skattfrelsinu. Skattyfirvöldum væri óheimilt að ákvarða forseta og maka hans skattgreiðslur, þótt beiðni bærist frá þeim þess efnis. Þar að auki mæla efnisrök gegn slíkum afsalsrétti. Löggjafarástæður þessara skattfrelsisákvæða eru opinbers eðlis og varða hefðbundna virðingu og forréttindi þjóðhöfðingja, en ekki persónuleg sjónarmið þess, er gegnir embætti hverju sinni.``

Hér ber að sama brunni og hjá dr. Bjarna að Alþingi ber að ákvarða launakjör forseta áður en kjörtímabil hans hefst og innan kjörtímabilsins verður kjörunum ekki breytt.

Nú kann einhver að spyrja: Hver eiga launin að vera ef skattfrelsið er afnumið? Það tel ég vera utan við efnisatriði þessa frv. Fyrst ber Alþingi að láta vilja sinn í ljós um það hvort hann vilji halda í þessi skattfrelsisákvæði sem ég tel þar að auki hafa orðið úrelt með þeirri breytingu sem lögð var til og samþykkt á Alþingi á 65. gr. stjórnarskrárinnar, svokallaðri jafnræðisreglu, þar sem er viðurkennt að allir þegnar þessa þjóðfélags skuli jafnir fyrir lögunum. En þó að í stjórnarskránni standi að Alþingi skuli með lögum ákvarða greiðslur og ríkisfé til forseta og þeirra sem fara með forsetavald, mun það vera svo að Alþingi hefur fyrir löngu framselt þennan rétt sinn til Kjaradóms, alveg eins og með það að ákvarða sín eigin kjör. Það kemur því til kasta Kjaradóms ef þetta frv. verður samþykkt að ákveða í hverju þessi skattfríðindi hafa verið fólgin, hversu miklu þau nemi og úrskurða þá um hver skuli vera kjör forseta Íslands.

Ég vil að lokum benda á það að nafni minn, Ólafur Þ. Þórðarson, flutti frv. svipaðs efnis einn fyrir fimm árum. Nú eru meðflutningsmenn mínir að þessu frv. fimm úr öllum flokkum. Ég held að það sýni þverpólitískan stuðning við frumvarpið og jafnframt að það hefur orðið hugarfarsbreyting á þeim árum sem liðin eru á milli þessara frumvarpa, þannig að nú sé ekki aðeins tímabært að samþykkja það vegna þess hvernig á stendur varðandi forsetakjör, heldur sé tími þessa frv. kominn efnislega.

Það er kannski rétt að taka fram í framsöguræðu minni að ástæðan fyrr því að enginn alþýðuflokksmaður er með í flutningi þessa frv. er ekki sú að ég hafi viljað útiloka þá ágætu menn eða þeir hafi ekki viljað það. En ég var kominn í tímaþröng með að leggja það fram á þeim tíma sem mögulegt var að ég gæti komið því fram og mælt fyrir því þann tíma sem ég er varamaður á þingi. Alþýðuflokksmönnum gafst því ekki tími til að ræða það í sínum hópi eins og venjan mun vera þegar þeir ákveða að vera meðflm. að frumvörpum. Það segir ekkert efnislega um afstöðu þess ágæta flokks eða þingmanna hans til frv.

Ég mun ekki hafa þessi orð öllu fleiri en vonast til að þetta frv. finni náð fyrir augum Alþingis og verði samþykkt í tíma fyrir næstu forsetakosningar.