Laun forseta Íslands

Mánudaginn 11. desember 1995, kl. 16:48:59 (1829)

1995-12-11 16:48:59# 120. lþ. 59.3 fundur 224. mál: #A laun forseta Íslands# (skattgreiðslur) frv., KPál
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur


[16:48]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég greiddi atkvæði gegn því þegar átti að taka þetta mál með flýtimeðferð á dagskrá. Það gerði ég fyrst og fremst vegna þess að ég tel ekki að þetta embætti sé í þeim kröggum eða sé með þeim hætti í okkar stjórnkerfi að ástæða sé til að taka það með einhverjum aðgerðum sem gæti í hugum manna þýtt að það þyrfti sérstakrar meðferðar við. Það var mín eina ástæða fyrir því að ég greiddi atkvæði gegn flýtimeðferð, ekki vegna neins annars.

Eðlileg umræða um þetta mál er að sjálfsögðu sú sem lýðræðið krefst og ég er tilbúinn til að taka þátt í henni. Ég tel persónulega að tillaga sem þessi þurfi að fá mjög mikla umræðu, ekki bara í þinginu heldur í þjóðfélaginu einnig. Hér er alls ekki um mikla fjármuni að ræða eins og kom fram hjá síðasta ræðumanni, heldur er um grundvallarafstöðu að ræða hjá einstökum aðilum, bæði á hv. Alþingi og eins úti í þjóðfélaginu að það skuli enginn einn maður í þessu landi vera hærri en aðrir varðandi lög landsins og þá í þessu tilfelli skattalög þó að ýmis dæmi séu til um það.

Ég er þannig þenkjandi í þessu máli að embætti forseta Íslands sé svo tengt lýðveldinu og upphafi þess að ef það á að vera að breyta því með einhverju móti þurfi að liggja verulega þungar ástæður fyrir slíku. Ég vil taka sem dæmi að sjómenn Íslands njóta sérstakra skattfríðinda á forsendum þess að þeir stunda hættulegt starf og í mínum huga vegna þess að þeir eru sá hópur í þjóðfélaginu sem stendur undir velferð þessa lands. Þess vegna höfum við alla tíð viljað umbuna þeim sérstaklega og láta með því í ljós hversu mikils þeir eru metnir í þjóðfélaginu. Sama finnst mér eiga við um forsetaembættið sem ég tel vera eins og hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir sagði áðan, hornstein lýðræðisins og að mínu mati eigi að njóta ákveðinna fríðinda sem ekki eru endilega öllum gefin en ég tel vera virðingarvott. Ég tel það óþarfa að leggja þetta til bara af grundvallarástæðum en ef menn á annað borð vildu gera eitthvað slíkt vildi ég gjarnan að nefndir eða þeir aðilar sem kæmu til með að fjalla um þetta gerðu á því almenna könnun meðal þjóðarinnar hvað henni finnst um að breyta stöðu forsetaembættisins með þessum hætti sem ekki skiptir neinu máli fjárhagslega fyrir ríkið og breytir í sjálfu sér engu öðru en ímynd embættisins í hugum þjóðarinnar.

Ég held að við eigum að fara varlega í þessu máli og minnast þess að frá því að lýðveldið var stofnað hefur setið á forsetastóli úrvalsfólk sem hefur á engan hátt rækt sína skyldu með þeim hætti að menn þurfi að taka svona mál upp. Ég tek þó undir mál sem tengjast þessum lögum eins og það að maki forseta sé undanþeginn skatti einnig. Auðvitað gæti það valdið einhverjum misskilningi og kannski er óþarfi að hafa slíkt inni. Ég er einvörðungu að tala um laun forseta Íslands en ekki makans sem getur að sjálfsögðu verið í störfum sem skapa verulegar tekjur en tengjast ekki að neinu leyti forsetaembættinu þannig að mér finnst réttlætanlegt að velta fyrir sér þeim þætti laganna. En að öðru leyti finnst mér að áður en tekin er ákvörðun um breytingu þurfum við að kanna mjög rækilega hvað þjóðinni finnst um þetta og þá með þeim meðulum sem þinginu og ríkisstjórninni eru tæk og hafa verið virkjuð með ýmsu móti.

Ég reikna með því að þetta frv. verði til umræðu í vetur en ég geri mér grein fyrir því eins og aðrir hv. þm. sem hér hafa tekið til máls að ef einhverjar breytingar eiga að verða á þessum málum þá þurfa þær að ganga í gegn á þessu þingi því að eftir að nýr forseti tekur við, væntanlega í sumar verður engu breytt varðandi þetta embætti.