Fíkniefna- og ofbeldisvandinn

Þriðjudaginn 12. desember 1995, kl. 15:49:57 (1842)

1995-12-12 15:49:57# 120. lþ. 60.91 fundur 135#B fíkniefna og ofbeldisvandinn# (umræður utan dagskrár), RG
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur


[15:49]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er mitt álit að það hafi verið mjög þýðingarmikið að þingflokksformenn sameinuðust í því að leita eftir því að fá umræðu hér á hv. Alþingi um fíkniefnavandann. Ég nefndi það í framsöguræðu minni að þingmenn og þingflokkar hefðu flutt tillögur varðandi þessi mál. Þannig hefur Alþfl. nokkrum sinnum flutt heildstæðar tillögur um auknar varnir gegn vímuefnum sem reyndar hafa ekki náð fram að ganga. En það er eðli slíkra tillagna að þær varpa ljósi á málið og leiða oft til þess að umræða og jafnvel aðgerðir eigi sér stað. Þessar tillögur lutu að rannsóknum á fíkniefnamálum, námsefni í vímuefnavörnum og að regluleg úttekt væri gerð á vandanum og samræmi í sérfræðilegri aðhlynningu og umönnun svo eitthvað sé nefnt. Það sem okkur skortir í dag er að heildarstefnumörkun eigi sér stað og það getum við sameinast um. Hvað á að gera á hverju sviði á næstu 2--4 árum? Er langtímastefna í undirbúningi og hvernig er hægt að byggja fólk upp í fræðslugeira og undirbúa kennara og lögreglu sem heimsækja skóla í þessu þýðingarmikla máli?

Ég fagna því að búið er að koma á laggir forvarnasjóði og eins og fram kom í máli heilbrrh. eru til ráðstöfunar 50 millj. að þessu sinni, en ég vek athygli á því að það sem var til ráðstöfunar áður var yfir 40 millj. þannig að þarna er aukning, en þetta er ekki ný fjármögnun. Það er líka afar mikilvægt að verið er að taka á fræðslu í skólunum og ég fagna því sem fram kom hjá menntmrh. að námsefni tengt vímuefnafræðslu sé nú að koma inn í skólana og að taka eigi á þessum málum í kennaranáminu.

Ég tek líka undir það að fíkniefnavarnir í skóla leysa ekki aðra af sem vinna úti í þjóðfélaginu og ég vil sérstaklega taka undir það sjónarmið að hið óeigingjarna starf sem unnið er á vettvangi bæði félagasamtaka og af hálfu einstaklinga sem hafa gert það að hugsjónastarfi sínu að vinna að þessum málum er ómetanlegt og mikilvægt í samspili hins opinbera og áhugafólks. Það hefur hins vegar lítið verið fjallað um hver á að móta stefnu í útgáfumálum, hvaða upplýsingaefni á að vera til staðar og í höndum þeirra sem eru að vinna að þessum málum og hver á að setja stefnumörkunina í fræðsluefnum, hið opinbera eða áhugasamtökin.

Ég geri mér fulla grein fyrir því og tek undir að það er ekki hægt að leysa vandann eingöngu með forvörnum en þær eru einhver mikilvægasti þáttur þess að komast fyrir þetta rosalega vandamál. Tillögum samstarfsnefndar ráðuneyta í ávana- og fíkniefnamálum hafa verið gerð nokkur skil hér og ég ætla ekki að endurtaka það. Þar er fjallað um ávana- og fíkniefnamál og opinber fjárlög fyrir utan það sem þegar hefur verið nefnt, en ég spyr sérstaklega dómsmrh. um ákvæði í 5. lið tillagna þessarar nefndar. Tillögunum var skilað á þessu ári og þær varða löggæsluna. Þar segir að brýnt sé að gerð verði úttekt á skipulagi og framkvæmd á verkefnum leitarhunda við embætti lögreglu- og tollayfirvalda. Leitarhundar eru nú við fíkniefnadeild lögreglustjóraembættisins í Reykjavík, ríkistollstjóra og sýslumannsembætta á Keflavíkurflugvelli og talið er að með því að sameina þetta hundahald ættu þeir að nýtast betur, þjálfun starfsmanna verða auðveldari og samskipti verða efld hjá þeim sem sinna toll- og löggæslu.

Virðulegi forseti. Það er mitt mat að við stöndum einna best hvað varðar meðferðarúrræði og aðstoð til handa þeim sem þegar hafa lent í vanda og sannarlega verðum við áfram að hlúa að þeim málum.

Virðulegi forseti. Um leið og ég þakka þessa umræðu og fagna henni, þá vil ég geta þess að ég hóf mál mitt á tilvísun til þess að umræða væri í þjóðfélaginu nú um aukna neyslu. Við heyrum um ákveðin svæði þar sem vímuefni eru nú í boði og óhug slær á þá sem nærri búa. Foreldrafélög í mínum heimabæ hafa rætt ótta sinn og hve vanbúnir foreldrar og skóli eru að bregðast við þegar óhugnaðurinn er kominn við garðshornið.

Hvað er það sem lokkar unglinga á grunnskólaaldri til vímuefnaneyslu og hvar skortir á í fræðslustarfi og uppeldi okkar að þeir skuli freistast til að prófa eina töflu, kannski þá sem reynist skilja milli lífs og dauða? Þessi umræða er mikilvæg sem innlegg í þá stefnumörkun sem þarf eiga sér stað.