Fíkniefna- og ofbeldisvandinn

Þriðjudaginn 12. desember 1995, kl. 15:55:05 (1843)

1995-12-12 15:55:05# 120. lþ. 60.91 fundur 135#B fíkniefna og ofbeldisvandinn# (umræður utan dagskrár), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur


[15:55]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég tek undir þær þakkir sem hér hafa verið færðar fram til þeirra sem höfðu frumkvæði að þessari umræðu í dag. Ég held að hún sé afar gagnleg og þakka hv. málshefjanda fyrir hans orð. Þar kom skýrt fram að ætlunin með þessari umræðu væri að hefja umfjöllun um þessi efni yfir hið hefðbundna dægurþras stjórnmálanna og hefðbundna þrætubókarlist þeirra sem hér sitja. Mitt mat er að umræðan hafi í öllum aðalatriðum farið eftir þessari ósk hv. málshefjanda ef undan er skilin ræða hv. 13. þm. Reykv.

Við erum að fjalla hér um mjög alvarlegan vanda sem steðjar að fjölmörgum í okkar þjóðfélagi, vanda sem er alþjóðlegur. Við sjáum það í þeirri skýrslu, sem hér hefur verið vitnað til og unnin var á vegum lögreglunnar í Reykjavík af Karli Steinari Valssyni afbrotafræðingi, að þar er talið að fíkniefnaiðnaðurinn velti meiri fjármunum en olíuiðnaðurinn í heiminum og aðeins vopnaiðnaður velti meiri fjármunum í heimsviðskiptum en fíkniefnaiðnaðurinn. Af þessu má glöggt sjá að við stöndum hér frammi fyrir mjög alvarlegum vanda sem vissulega hefur snert okkar þjóðfélag eins og flest önnur. Við vinnum að þessum málum á ýmsum sviðum. Ég geri ráð fyrir því að á flestum heimilum finni menn til ábyrgðar í þessum efnum. Sveitarfélög vinna að þessum málum með ýmsum hætti og í stjórnkerfinu er víða komið að því.

Vissulega er það svo að ábyrgðin er dreifð og stundum kemur það fram í þessari umfjöllun að mönnum finnst sem verkefnin séu dreifð á marga aðila og mörg ráðuneyti og þar af leiðandi sé ábyrgðin ekki jafnskýr. Ég get undir það tekið að það er mjög mikilvægt að reyna að samhæfa þá krafta sem að þessum málum vinna. Hins vegar verður ábyrgðin að liggja hjá ýmsum ráðuneytum og stofnunum þannig að sérþekking nýtist sem best.

Ég held að það sé engum vafa undirorpið að eitt mikilvægasta verkefni sem við stöndum frammi fyrir er að efla forvarnastarf í þessu efni eins og fyrirhugað er með þeirri endurskoðun á lögum um áfengis- og vímuefnavarnir sem hér hafa verið gerð að umtalsefni. En forvarnastarf innan lögreglu og á vegum lögreglu og enn fremur á vegum skólayfirvalda verður einnig mjög mikilvægur þáttur í þessu viðfangsefni. Samstarfsnefnd ráðuneyta sem fjallar um ávana- og fíkniefni og skipuð var af forsrh. og laut formennsku deildarstjóra í menntmrn. skilaði skýrslu á sl. vori sem kynnt var í ríkisstjórn. Það hafa ekki verið teknar sérstakar ákvarðanir á grundvelli þessarar skýrslu, en hvert ráðuneyti um sig hefur tekið hana til meðferðar og af hálfu dómsmrn. verður reynt að vinna eftir þeim ábendingum sem þar koma fram. En ég hygg að mikilvægast sé á þessu stigi að huga fyrst og fremst að fræðslu- og forvarnastarfi.

[16:00]

Við þurfum vitaskuld að eiga mjög náið alþjóðlegt samstarf í þessu efni því að það eru ekki líkur á að okkur takist að vinna í alvöru að auknum vörnum gegn ávana- og fíkniefnanotkun nema í auknu alþjóðlegu samstarfi. Við höfum átt ágætt samstarf á Norðurlandavettvangi milli lögreglu og tollyfirvalda, höfum þó ekki getað sinnt því sem skyldi en þyrftum að gera það. Enn fremur er um að ræða samstarf á vegum Evrópuráðsins sem við höfum ekki haft tök á að sinna. Hugsanleg aðild að Schengen-samkomulaginu gæti líka gefið okkur aukna möguleika á slíku samstarfi. Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur tjáð mér að samskipti við lögregluyfirvöld í Flórída hafi gefið og muni gefa góða raun og miðla upplýsingum, ekki síst um lögregluforvarnastarf í skólum. Á öllum þessum sviðum þurfum við að taka á. Á vettvangi dómsmrn. lúta þessi mál fyrst og fremst að starfi lögreglunnar, ákvörðunum dómstóla og svo fangelsisyfirvalda að því er varðar refsingar.

Hér hefur verið vikið að starfi lögreglunnar og auðvitað er það svo að við getum lengi fært fram rök fyrir því að það starf megi efla og þangað megi verja meiri fjármunum. Ég hygg þó að ef við ætlum að sinna þessum málum sérstaklega í ríkari mæli en verið hefur þá verðum við að huga að enn frekari skipulagsbreytingum innan löggæslunnar sem geta gefið svigrúm til þess að meiri áhersla verði lögð á þennan þátt í lögreglustarfinu. Það eru vissulega möguleikar á því. Það er núna verið að vinna að endurskoðun laga um lögregluna og skipulag hennar þar sem eru uppi áform um verulegar skipulagsbreytingar ekki síst að því er varðar rannsóknaverkefni og málefni rannsóknarlögreglunnar. Sú vinna miðar öll að því að gera framkvæmd þeirra mála skilvirkari og markvissari.

Það er einnig á það að líta að umræða hefur orðið talsverð um refsiramma og refsiviðurlög við afbrotum af þessu tagi. Ég hygg að við höfum allrúman refsiramma á þessu sviði eins og ýmsum öðrum. Það er í sjálfu sér ekki vandinn. Það er alltaf mikið matsatriði hversu þungar refsingar eiga að vera. Ég beindi þeim tilmælum þó til dómara á dómaraþingi nú í haust að þeir yrðu að huga að þeirri umræðu sem fram hefur farið í þjóðfélaginu varðandi ofbeldisafbrot og ávana- og fíkniefnaafbrot með tilliti til refsinga og það væri þung krafa í þjóðfélaginu um að í dómum kæmi fram þyngri ábyrgð en verið hefur.

Ég hef hugleitt það nokkuð með hvaða hætti væri eðlilegast að vinna að þessum málum. Þessi umfjöllun kemur upp í ýmsum efnum og þess vegna gæti vel komið til álita, og það hefur verið til skoðunar í dómsmrn., hvort koma eigi á fót sérstöku afbrotavarnaráði sem fjalli um ýmis mál sem lúta að afbrotum almennt og þar á meðal refsiviðurlögum. Þau mál eru nú til athugunar.

Það þarf líka að huga að því hvernig reynt er að mæta þörfum ungra afbrotamanna eins og hv. 5. þm. Suðurl. minntist hér á áðan og það þarf að skoða sérstaklega. Ég held að það hafi verið tólf ungir afbrotamenn sem komu til refsingar á fjórum árum, frá 1989 til 1992, sjö þeirra komu aftur til afplánunar vegna ítrekunar á brotum. Það sýnir okkur að það er sérstök ástæða til þess að beina athyglinni að unga fólkinu, beina kröftunum að forvarnastarfinu til þess fyrst og fremst að freista þess að koma í veg fyrir það að unglingar rati inn á afbrotabrautina með þeim hætti sem því miður hefur orðið í of ríkum mæli.

Ég vil svo ítreka, herra forseti, þakklæti mitt til málshefjanda og þeirra sem gengust fyrir þessari umræðu hér í dag. Ég er sannfærður um að hún getur leitt til þess að við stjórnmálamennirnir reynum að stilla saman krafta okkar og vinna að framgangi þeirra umbótamála sem við erum að fjalla um og stuðlað geta að því að það dragi úr notkun þessara efna.