Fíkniefna- og ofbeldisvandinn

Þriðjudaginn 12. desember 1995, kl. 16:05:49 (1844)

1995-12-12 16:05:49# 120. lþ. 60.91 fundur 135#B fíkniefna og ofbeldisvandinn# (umræður utan dagskrár), HG
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur


[16:05]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það er ekki vafi á því að vandi vegna neyslu fíkniefna fer dagvaxandi hér á landi. Því er þessi umræða tímabær. Maður heyrir frásagnir af því að fíkniefni af ýmsum toga séu að verða sjálfsagður þáttur í kvöldsamkomum æskufólks í landinu, borin á borð eins og hver önnur aðföng sem þykja nauðsynleg á gleðistundum. En slíkar stundir breytast í andhverfu sína ef fíkniefnin fá þar að vera hluti af veislunni.

Hæstv. dómsmrh. minntist á Schengen-samkomulagið, Schengen-sáttmálann í sambandi við möguleika á alþjóðlegu samstarfi í þessu efni. Ég ætla að gera það hér að sérstöku umtalsefni í örstuttu máli. Það er einmitt sérstakt áhyggjuefni að þessar vikurnar er að því unnið af stjórnvöldum hér á landi að Ísland tengist svonefndum Schengen-sáttmála sem tíu ríki innan Evrópusambandsins hafa gert sín á milli. Ef þetta verður niðurstaðan taka Íslendingar að sér vörslu ytri landamæra Evrópusambandsins að því er varðar vegabréfaeftirlit og ýmislegt sem því tengist. Jafnframt yrði vegabréfaskoðun innan svæðisins afnumin og óheimilt að taka svonefndar stikkprufur nema rökstuddur grunur um misferli liggi fyrir. Á öllum Norðurlöndum eru miklar áhyggjur hjá þeim sem mest fylgjast með fíkniefnavandanum að aðild að Schengen-sáttmálanum beint eða óbeint muni torvelda mjög baráttuna gegn ólöglegri dreifingu fíkniefna. Á þetta minnti ég í umræðum sem hér fóru fram á Alþingi um Schengen-sáttmálann fyrir skömmu, þó að þar verði um óbein tengsl að ræða eða sérstakan aðildaraukasamning. Hafa verður í hug í þessu sambandi að í Mið- og Suður-Evrópu er allt önnur og vægari stefna ríkjandi gagnvert fíkniefnum en á Norðurlöndum, m.a. að því er varðar götumarkaðinn og það að hafa fíkniefni undir höndum til persónulegra nota er ekki í reynd refsivert athæfi í ýmsum þessara landa. Því hefur verið til svarað að gæsla á gæsla á ytri landamærum Schengen-svæðisins verði hert. Meðal þeirra sem gæta munu þessara ytri landamæra verða m.a. Miðjarðarhafslöndin sem hingað til hafa ekki verið þekkt fyrir sérstaka árvekni gagnvart smygli fíkniefna. Þá er það og staðreynd að verulegt magn fíkniefna er framleitt innan Schengen-svæðisins í löndum eins og t.d. Hollandi og er dreift milli þessara landa og smyglað til annarra. Mest allt kannabis sem berst til Svíþjóðar er þannig talið koma inn yfir landamærin frá Schengen-ríkjunum. Sama gildir um efni eins og amfetamín og stóran hluta LSD og svonefnda alsælu. Þá er vitað að mikill hluti þess heróíns sem berst til Norðurlanda er unnið úr morfíni og ópíum á Ítalíu, aðallega á Sikiley. Innan Schengen-svæðisins eru sterk öfl að verki sem slaka vilja á hindrunum gagnvart fíkniefnum og jafnvel afnema þær. Hvergi í Schengen-sáttmálanum er rætt um að vinna gegn því að fólk hafi fíkniefni í fórum sínum til persónulegra nota. Ég tel það furðulegt, virðulegur forseti, að af ríkisstjórnarinnar hálfu skuli ekki vera meiri áhyggjur í þessum efnum þegar rætt er um Schengen-sáttmálann og ég hvet hæstv. viðstadda ráðherra til þess að láta slíka vandlega úttekt fara fram áður en nokkur skuldbindandi skref eru stigin af hálfu Íslands í sambandi við tengsl við þennan sáttmála.