Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 12. desember 1995, kl. 16:59:25 (1858)

1995-12-12 16:59:25# 120. lþ. 61.6 fundur 241. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úreldingarstyrkur krókabáta) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur


[16:59]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta er kannski ekki mjög mikið stórmál sem hér er á ferðinni en varðar framlengingu til eins árs um heimild til að greiða hærri prósentu vegna úreldingar krókaveiðibáta heldur en greidd er til annarra skipa eða gildir um önnur skip. Það er jafnframt lagt til að sú prósenta verði að hámarki 80% af húftryggingarverðmæti bátanna. Ástæðan er væntanlega ósköp einfaldlega sú að þrátt fyrir það tilboð sem í gangi hefur verið upp á 45% af sömu viðmiðun þá hefur nánast ekkert gerst í formi úreldingar úr þessum hluta flotans. Það á sér aftur þá skýringu að þau tilboð sem mönnum bjóðast í bátana í frjálsri sölu eru yfirleitt heldur betri en þeir fengju út úr þessari úreldingu. Af eðlilegum ástæðum velja menn frekar þann kost.

Í ljósi þeirrar stefnu sem mörkuð var og afgreidd hér á þingi á síðasta vetri er eðlilegt úr því að svo hefur farið að menn reyni þá að fylgja þessu eftir með hærri tilboðum, hvað sem menn vilja svo segja um málið að öðru leyti og nauðsyn þess að draga sérstaklega saman í þessum hluta flotans. Eins og kunnugt er þá er ætlunin að gera það annars vegar með þessum tilboðum og hins vegar með mun strangari kröfum um endurnýjun eða úreldingu á móti endurnýjun báta þegar krókaveiðibátar eiga í hlut.

En úr því að málefni Þróunarsjóðs sjávarútvegsins og úreldingarmál fiskiskipa eru hér á annað borð komin á dagskrá þá vil ég rifja upp orðaskipti sem urðu hér milli mín og hæstv. sjútvrh. fyrir nokkrum dögum og varða framtíðarstefnumótun almennt í sambandi við úreldingarkröfur varðandi fiskiskip og þá hreinlega spurninguna um framtíðarfyrirkomulag þessara mála, hvort reikna eigi með því um, ég segi nú ekki ókomin ár, en alla vega í næstu framtíð, að kröfur verði gerðar til þess að afköst minnki með þeim hætti sem gert hefur verið eða aukist að minnsta kosti ekki þegar endurnýjun er á ferðinni. Raddir hafa heyrst um að hverfa frá þessu fyrirkomulagi og láta aflamarkskerfið eitt og sér vera ráðandi stýritæki. Mönnum væri þá meira í sjálfsvald sett með hvaða hætti þeir tækju þann afla og á hvernig skipum. En á meðan þetta fyrirkomulag gildir hlýtur eðli málsins samkvæmt að vera afar bagalegt að hafa uppi einhverja óvissu um framtíð þess. Það sem ég lagði sérstaklega áherslu á í orðum mínum um daginn, og vil endurtaka við hæstv. sjútvrh., er nauðsyn þess að mótuð verði stefna og kveðið upp úr um það alveg afdráttarlaust að eitthvert tiltekið fyrirkomulag í einhvern tiltekinn tíma muni gilda í þessum efnum.

Ég vil fyrir mitt leyti láta það sjónarmið koma fram að úr því að lögin sem slík, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, eru hér til meðferðar verði a.m.k. í síðasta lagi við afgreiðslu þess máls hér frá þinginu búið að ganga frá því í formi yfirlýsingar eða einhverrar stefnumótunar hvaða reglur skuli gilda um þetta efni. Hér er einnig á dagskrá breyting á lögum um stjórn fiskveiða og þá eru hér undir þau tvö lagafrv. sem þetta kemur sérstaklega við. Ég held að það sé þá tilvalið tækifæri til þess að eyða þeirri óvissu sem skapast hefur á þessu hausti m.a. vegna umræðna og ályktana á þingi Landssambands íslenskra útvegsmanna og umræðna sem spunnust í kringum það. Ég held að það sé alveg lágmark að það liggi fyrir á hverjum tíma til að minnsta kosti næstu eins til tveggja ára hvernig þessum málum verði háttað þannig að þeir sem eru að taka stórar og afdrifaríkar ákvarðanir um endurnýjun í sínum fyrirtækjum, þar sem úreldingarkvöðin, tonnin, getur hlaupið á tugum og allt upp undir hundruð millj. kr. þegar stór skip eiga í hlut --- það er ekki boðlegt að ætla mönnum að hafa ekki eitthvert fast land undir fótum varðandi slíkar ákvarðanir. Lægi hins vegar fyrir með hvaða hætti þetta yrði eitthvað inn í framtíðina, jafnvel þó að þá kæmu til breytingar sem væru samkvæmt fyrir fram ákveðnu skipulagi þá væri um allt aðra hluti þar að ræða.

Herra forseti. Ég ætla ekki við þessar aðstæður að fara að endurtaka það sem ég hef oft áður sagt, efasemdir mínar um fyrirkomulag þessara mála í heild sinni og nauðsyn þess að móta einhverja stefnu en búa ekki ár eftir ár við fyrirkomulag af því tagi sem við gerum að það er í raun og veru með þessari úreldingarkröfu, og þó sérstaklega með kauptilboðum Þróunarsjóðs á meðan þau voru jafnhagstæð og best varð, verið að leggja mikinn viðbótarkostnað á útgerðina í hvert skipti sem kemur að endurnýjun fiskiskips því í hverju einasta tilviki þarf að kaupa í raun tonnin sem í hinu nýja skipi verða og um leið keppa þá við tilboð Þróunarsjóðsins í þeim efnum. Meðan þetta er gert án nokkurrar yfirlýstrar eða mótaðrar stefnu um tilganginn, þ.e. hversu mikið eigi þá að draga úr afkastagetu í flotanum og hvort allar tegundir fiskiskipa skuli þar settar undir einn hatt, til að mynda núna nótaskipaflotinn þar sem enginn deila er um að mikil þörf hefur skapast fyrir endurnýjun. Flotinn er nánast eins og hann leggur sig úreltur, samræmist ekki kröfum tímans um meðferð hráefnis og hindrar að við Íslendingar getum þróað áfram okkar iðnað í þessum efnum í átt til aukinna gæða og sambærilegs verðs og er að gerast í nágrannalöndunum. Svo er komið að nú eru menn helst að reyna að endurnýja sinn nótaskipaflota með innflutningi á tíu til tuttugu ára gömlum nótaskipum frá nágrannalöndunum sem þó eru tæknilega mun betur búin heldur en obbinn af íslenska flotanum. Þetta hljóta allir menn að sjá að er vandræðaástand, nánast neyðarástand, og það sem hindrar alveg sérstaklega að menn komist af stað í þessari endurnýjun nótaskipaflotans eru úreldingarreglurnar eins og þær eru í dag, m.a. vegna þess að eigi að taka hina nýjustu tækni í gagnið í nýjum skipum, einangraðar lestir og kælikerfi, þá kostar það um 20% afkastaminnkun miðað við óbreytta stærð eða öfugt, að kaupa þarf á móti úreldingu sem svarar 120--130% af þeirri burðargetu sem á að nást í hinu nýja skipi.

Þetta, herra forseti, held ég að sé í raun og veru öllum mönnum ljóst en af einhverjum ástæðum er algjör pattstaða uppi milli þeirra manna sem þarna vilja engar breytingar og hinna sem geta hugsað sér þær og hana verður einhvern veginn að rjúfa. Ég er líka þeirrar skoðunar og lýsti þeim sjónarmiðum þegar lögin um Þróunarsjóð komu hér fyrst fram á sínum tíma og nafni sjóðsins var breytt úr Hagræðingarsjóði yfir í Þróunarsjóð, að þessi sjóður væri síður en svo neinn þróunarsjóður í sjávarútvegi heldur þvert á móti samdráttarsjóður, sjóður sem væri sérstaklega settur á stofn á kostnað útgerðarinnar í landinu til að draga saman umsvif í íslenskum sjávarútvegi og úrelda út úr sjávarútveginum alla þá umfram afkastagetu sem ella yrði hvatning til að nota í annað, t.d. að sækja á fjarlæg mið eða í vannýttar tegundir. Ég stend við það enn að sjóðurinn eins og hann er hugsaður er tímaskekkja að langmestu leyti.

Annan þátt gagnrýndi ég og margir fleiri á þessum tíma og það var að sjóðnum var, eins og frv. var upphaflega fram sett, alls ekki ætlað að standa fyrir neinum eiginlegum þróunarverkefnum í sjávarútvegi eða styðja þau. Þar varð að vísu nokkur breyting á í meðförum Alþingis á sínum tíma og það komu inn í lögin rýmri heimildir heldur en voru í upphaflega frv. til þess að sjóðurinn gæti ráðstafað fjármunum í stuðning við þróunarverkefni t.d. erlendis. En hér er nú upplýst að ekkert hafi orðið úr því enn sem komið er og að einhverju leyti sé þar við ágalla í löggjöfinni að sakast. Það er auðvitað sjálfsagt mál að líta á það hvort nauðsynlegt sé að gera breytingu þannig að sjóðurinn geti beinlínis styrkt eða stutt við bakið á álitlegum verkefnum á þessu sviði. Er það örugglega skynsamlegt að slíkt sé hægt þó margt hafi verið að gerast í þeim efnum fyrir eigin rammleik greinarinnar.

Að síðustu segi ég það, herra forseti, að það er sjálfsagt mál að reyna að greiða fyrir þessari litlu breytingu þannig að hún komi til framkvæmda og frv. nái afgreiðslu fyrir áramót. Það sama á við um hitt málið sem hér er á dagskrá og tengist þessum málefnum smábátanna, og þó fyrr hefði verið, liggur mér við að segja því það er bagalegt að allt of langt líði á þetta fiskveiðiár áður en leikreglurnar að þessu leyti liggja ljóst fyrir.