Staðgreiðsla opinberra gjalda

Þriðjudaginn 12. desember 1995, kl. 17:18:51 (1862)

1995-12-12 17:18:51# 120. lþ. 61.2 fundur 136. mál: #A staðgreiðsla opinberra gjalda# (álag á vanskilafé) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur


[17:18]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Efni þessa litla frv. og breytingartillagna efh.- og viðskn. er mestan part af hinu góða og tvennt sem þarna er á ferðinni eru tvímælalaust réttarbætur. Það varðar einkum og sér í lagi 1. tölul. brtt. á þskj. 325, um að við bætist ný grein sem verði 1. gr. frv. og færir þann tíma, sem námsmenn þurfa að hafa verið samfellt í námi til þess að sækja um breytingu á álagningu í staðgreiðsu, niður úr sex mánuðum í fjóra. Það er sjálfsagt réttlætismál og eðlilegt að menn geti, áður en allt of langur tími er liðinn og ljóst er að aðstæður þeirra eru að breytast vegna þess að þeir hafa tekið upp reglulegt nám og þá væntanlega einnig hætt vinnu ef slíku hefur verið til að dreifa, fengið eðlilegar lagfæringar á stöðu sinni gagnvart skattheimtunni.

Í öðru lagi er verið að gera breytingu sem varðar áfrýjunarrétt og er sömuleiðis eðlileg, að menn geti skotið þeim úrskurði sem þeir hafa sætt til skattanefndar en það sé ekki ríkisskattstjóri einn sem fari með það mál. Þetta er í samræmi við ábendingu sem komið hefur frá umboðsmanni Alþingis og flokkast undir lagfæringu og réttarbót í skattkerfinu.

Þriðji efnisþáttur þessa máls varðar svo það að í staðinn fyrir verðbætur á einum stað þar sem miðað hefur verið við lánskjaravísitölu og upphæðir færðar fram í samræmi við það, þá skuli nú koma tiltekið álag. Nú er það svo að fyrirvari minn lýtur ekki að því að þetta sé í sjálfu sér óeðlileg efnisbreyting ef aðstæður eru þannig og ákvörðun þessarar álagsupphæðar er þannig úr garði gerð eða þannig með farið að það komi sanngjörn útkoma. Hins vegar er það svo að á nokkrum stöðum í frumvörpum hæstv. ríkisstjórnar eru sambærilegar breytingar á ferð og fyrirvari minn, herra forseti, lýtur aðallega að því hvernig þessi mál eru fram sett af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Því ég hygg að nánast í flestöllum tilvikum sem þessi breyting er að gerast sé um það að ræða að verið er að afnema ákveðna tryggingu réttinda launamanna sem falist hefur í fastri viðmiðun eða verðtryggingu upphæða og þá er það þannig að menn gerast óskaplega heilagir og eru á móti allri slíkri sjálfvirkni og slíkri verðtryggingu og slíkum viðmiðunum og segja: Burt með það, burt með það og í staðinn skuli koma fastar upphæðir samkvæmt fjárlögum eða þá einhver föst álagsprósenta eða upphæð eins og hér á í hlut.

Á hinn bóginn vottar ekki fyrir þessu sama þegar kemur að því að afnema þá verðtryggingu og sjálfvirkni skuldbindinga launamanna og þar er komið að hinni hlið málsins. Menn eru ekki samkvæmir sjálfum sér í þessum efnum. Það er til að mynda ekki verið að hrófla við verðtryggingu fjárskuldbindinga almennings, en hins vegar er verið að afnema mikilsverða tryggingu sem launamenn hafa haft í ýmiss konar verðbótum eða tengingu af þessu tagi. Það er gert undir merkjum þessarar krossferðar gegn sjálfvirkni og verðtryggingu í kerfinu, en margir óttast af eðlilegum ástæðum að það sem fyrst og fremst vaki fyrir mönnum eða á bak við liggi séu tilhneigingar til að skerða ýmis þessi réttindi sem þarna eiga í hlut. Ég hef þess vegna fyrirvara, herra forseti, á þessum málum sem slíkum, hvernig að þeim er staðið af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Ég tel að í sumum tilvikum séu ekki efnisrök á ferð heldur málamyndarök og það til að mynda þó að þessi breyta í skattalögum væri áfram færð upp með verðbótum skiptir að mínu mati engum sköpum og er ekki í sjálfu sér neitt stórkostlegt réttlætismál að afnema það.

Ég vek líka athygli á því að ef verðbólga er innan skikkanlegra marka, þá má í sjálfu sér einu gilda hvort einhverjar lítils háttar verðbreytingar sem mælast í 1--2 prósentustigum á hverju ári eru fram settar eða leiðrétt er fyrir þeim með verðtryggingu eða hvort einhver slík álagsprósenta upp á 0,2% af tiltekinni upphæð innan tiltekinna tímamarka er notuð. Það er auðvitað sama útkoman eða mjög svipuð útkoma.

Hitt er afar afdrifaríkt hvernig staðið er t.d. að ákvörðun ýmissa réttinda launamanna og tengingu þeirra við verðlagsþróun almennt í landinu. Þar eru menn að rjúfa samhengi í mörgum tilvikum og smíða sér rök af þessu tagi sem ég hef verið að nefna og eru að mínu mati oft og tíðum málamyndarök. Þá eru menn í heilagri krossferð gegn öllu sem heitir verðtrygging og sjálfvirkni og guð má vita hvað. En ég hef ekki orðið var við það að menn væru af sama hetjuskap að afnema þá verðtryggingar yfirleitt, og þar með talið af því sem mestu máli skiptir fyrir almenning í landinu, þ.e. öllum þeim fjölmörgu skuldbindingum sem menn eru með á herðunum og eru verðtryggðar í hólf og gólf. Að þessu lýtur fyrirvari minn, herra forseti.