Raforkuframleiðsla Hitaveitu Suðurnesja og Landsvirkjunar

Miðvikudaginn 13. desember 1995, kl. 14:40:51 (1869)

1995-12-13 14:40:51# 120. lþ. 63.1 fundur 141. mál: #A raforkuframleiðsla Hitaveitu Suðurnesja og Landsvirkjunar# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur


[14:40]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Mér þykir þetta fróðlegar upplýsingar sem hér koma fram hjá hæstv. iðnrh. Fyrr á þessu þingi spurðist ég fyrir um starfrækslu Steingrímsstöðvar í Soginu. Það kom fram í svari hæstv. iðnrh. að hún hefði ekki verið rekin á fullum afköstum. Það kom líka fram að það væri fyrirhugað að eyða 220 millj. kr. til þess að gera við stöðuna, til þess að ná upp fullum afköstum, og mér skildist á umræðunni sem spannst í kjölfarið að það væri með tilliti til fyrirhugaðrar álversstækkunar í Straumsvík.

Get ég dregið þá ályktun af því sem hæstv. iðnrh. segir að það sé ekki þörf á þessum framkvæmdum við Steingrímsstöð beinlínis til þess að framleiða nægilegt rafmagn til að halda uppi starfrækslu stækkunarinnar í Straumsvík?