Viðskiptabankar og sparisjóðir

Miðvikudaginn 13. desember 1995, kl. 15:15:41 (1876)

1995-12-13 15:15:41# 120. lþ. 64.2 fundur 232. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (eiginfjárkröfur, innstæðutryggingar o.fl.) frv., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur


[15:15]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Með frv. því sem hér er lagt fram eru lagðar til breytingar á lögum nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði. Áður hef ég lagt fram frumvörp sem liggja til breytinga á öðrum sviðum fjármálamarkaðarins.

Með þátttöku sinni í Evrópska efnahagssvæðinu skuldbatt Ísland sig til að lögtaka meginefni ýmissa tilskipana Evrópusambandsins á sviði fjármálaþjónustu. Lög nr. 43/1993 voru sett í kjölfar aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu og var bankalöggjöfin samræmd ákvæðum ýmissa þágildandi tilskipana Evrópusambandsins á þessu sviði.

Ljóst er hins vegar að aðild okkar að samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði leiðir til þess að innlend löggjöf á þessu sviði verður áfram í stöðugri mótun með hliðsjón af Evrópuréttinum. Þetta frv. er liður í þeirri þróun. Jafnframt er ljóst að enn frekari breytinga kann að verða þörf á umræddri löggjöf til þess að fylgja þeirri þróun sem hér á sér stað og á sér stað hjá Evrópusambandinu.

Ástæða þeirra breytinga sem hér eru lagðar til eru einkum af þrennum toga:

Í fyrsta lagi verði samþykkt að nokkrar nýjar tilskipanir Evrópusambandsins skuli vera hluti af samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði. Þær tilskipanir leiða þó ekki allar til breytinga á lögum þar sem unnt var að taka tillit til efnis þeirra við samningu laganna á sínum tíma og með setningu reglugerðar. Ákvæði tveggja tilskipana kalla þó á breytingar á ákvæðum laganna um eiginfjárkröfur viðskiptabanka og sparisjóða og innlánatryggingakerfi.

Í öðru lagi hefur komið í ljós að þrátt fyrir að íslensk bankalöggjöf hafi í meginatriðum verið samræmd helstu tilskipunum ESB sem í gildi voru þegar Ísland gerðist aðili að samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði, þá eru enn nokkur atriði sem lagfæra þarf með breytingum á lögum þessum. Hefur Eftirlitsstofnun EFTA bent á nokkur atriði þar að lútandi.

Í þriðja lagi hafa með framkvæmd laganna komið í ljós nokkur atriði í núgildandi löggjöf sem betur mættu fara.

Herra forseti. Ég vil þá víkja að helstu breytingum sem lagðar eru til í því frv. sem hér liggur fyrir. Veigamestu breytingarnar sem lagðar eru til í frv. snúa annars vegar að ákvæðum um eigin fé, eiginfjárhlutfall viðskiptabanka og sparisjóða en hins vegar að ákvæðum um innstæðutryggingar. Í 8. og 9. gr. frv. eru lagðar til breytingar á 54. og 55. gr. laganna um eigið fé og eiginfjárhluta viðskiptabanka og sparisjóða. Þær breytingar eru gerðar til samræmis við ákvæði tilskipunar Evrópuráðsins, nr. 6/1993, frá 15. mars 1993 um eiginfjárkröfur fjárfestingarfyrirtækja og lánastofnana. Megintilgangur hennar er að tryggja að eiginfjárhlutfall fjárfestingarfyrirtækja og lánastofnana endurspegli ýmiss konar áhættu sem fyrirtækið tekur á sig vegna markaðsáhættu og vegna gengisáhættu. Þá er í tilskipuninni kveðið á um lágmarksstofnfé fjárfestingarfyrirtækja.

Einnig er þar að finna ákvæði er lúta að hámarki lána og ábyrgða til einstakra viðskiptavina eða fjárhagslega tengdra viðskiptavina og ákvæði er lúta að eftirliti á samstæðugrundvelli.

Í frv. til nýrra laga um verðbréfaviðskipti sem ég hef þegar lagt fram er m.a. kveðið á um eiginfjárkröfur fjárfestingarfyrirtækja í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar. Hér er lagt til að ákvæðum þessara laga verði breytt til samræmis við orðalag hliðstæðra ákvæða í fyrrgreindu frv. til laga um verðbréfaviðskipti.

Mikilvægasta breytingin frá gildandi lögum er sú að viðskiptabönkum og sparisjóðum verður heimilt að telja nýjan lið, eiginfjárþátt C, til eigin fjár. Um er að ræða víkjandi lán sem tekin eru til minnst tveggja ára. Ýmis skilyrði gilda um þennan eiginfjárþátt og eru þau talin upp í ákvæðinu.

Í 16. gr. frv. eru lagðar til verulegar breytingar á X. kafla laganna í því skyni að lögfesta meginatriði tilskipunar nr. 19/1994, frá 30. maí 1994, um innlánatryggingakerfi. Í tilskipuninni er skilgreining á hugtakinu innstæðurými önnur en sú skilgreining sem beitt hefur verið hér á landi. Undir skilgreiningu tilskipunarinnar falla þannig tiltekin verðbréf auk hefðbundinna innlána. Í þessu frv. er hins vegar lagt til að nýtt verði heimild í tilskipuninni til þess að undanskilja liði eins og verðbréf. Þess vegna er gert ráð fyrir að skilgreiningarhugtakinu innlán verði ekki breytt. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir að heimild tilskipunarinnar til að undanskilja aðra liði sem lækka trygginguna á einstökum liðum verði nýtt. Því er gert ráð fyrir að gildissvið tryggingarinnar hér á landi verði óbreytt frá því sem verið hefur að undanskildum innstæðum í eigu viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana sem verða skilyrðislaust að vera undanþegnir tryggingunni.

Hér á landi gildir að bætur skuli skertar hlutfallslega jafnt ef eignir Tryggingarsjóðs viðskiptabanka eða Tryggingarsjóðs sparisjóða duga ekki til að bæta innstæðu að fullu. Í tilskipuninni er hins vegar gert ráð fyrir því að innstæður upp að jafnvirði 20 þúsund ECU skulu bættar að fullu. Þeta þýðir að breyta verður innstæðutryggingunni hér á landi á þann hátt að samanlagðar innstæður innstæðueiganda undir þessu marki verða að fullu tryggðar, en hugsanleg skerðing vegna ónógrar eignar tryggingarsjóðanna verða að koma á þann hluta samanlagðrar innstæðu sem er umfram fyrrgreind mörk.

Í tilskipuninni er gert ráð fyrir að til greiðslu úr tryggingarsjóðum geti komið fyrr og undir öðrum kringumstæðum en gilt hefur hér á landi. Í tilskipuninni er miðað við að greiðsla skuli innt af hendi þegar viðskiptabanki eða sparisjóðir að mati lögbærra yfirvalda eru ekki af fjárhagslegum ástæðum færir um að endurgreiða nú þegar eða í nánustu framtíð innstæðu í samræmi við þá skilmála sem um hana gilda. Slíkt mat verður að liggja fyrir eigi síðar en þremur vikum eftir að staðfest var að hlutaðeigandi viðskiptabanki eða sparisjóður gat ekki endurgreitt innstæðuna.

Hér á landi hefur hins vegar verið miðað við að viðskiptabanki eða sparisjóður hafi verið tekinn til gjaldþrotaskipta. Því verður að breyta með lögum hér að lútandi.

Í 16. gr. frv. er lagt til að sá hluti af starfsemi Tryggingarsjóðs sparisjóða sem snýr að innstæðutryggingum verði sameinaður Tryggingarsjóði viðskiptabanka í ársbyrjun 1996 undir heitinu Tryggingarsjóður innlánsstofnana. Sá sjóður mun annast innstæðutryggingar hjá öllum viðskiptabönkum og sparisjóðum auk þess sem hann getur veitt þessum stofnunum víkjandi lán til að efla eigin fjárstöðu þeirra. Nýi sjóðurinn yfirtekur allar eignir og skuldir Tryggingarsjóðs viðskiptabanka og verður sá sjóður lagður niður. Lagt er niður að Tryggingarsjóður sparisjóða greiði Tryggingarsjóði innlánsstofnana 300 millj. kr. við stofnun þess síðarnefnda. Þessi fjárhæð er rétt rúmlega 1% af áætluðum tryggðum innstæðum í sparisjóðunum 1994 miðað við reglur frv. Heildareign Tryggingarsjóðs innlánsstofnana verður milli 1.800 og 1.900 millj. kr. við stofnun hans eða vel yfir 1% af áætluðum tryggðum innstæðum samkvæmt reglum frv. Sameining tryggingarsjóðanna leiðir því ekki til þess að viðskiptabankar og sparisjóðir þurfi að hefja inngreiðslur í hinn nýja sjóð.

Þá er lagt til að Tryggingarsjóður sparisjóða starfi áfram með sömu starfsheimildir og áður að undanskildum innstæðutryggingum. Tryggingarsjóður sparisjóða hefur á undanförnum árum gegnt veigamiklu hlutverki í endurskipulagningu sparisjóðakerfisins og átt þátt í að greiða fyrir sameiningu ýmissa sparisjóða og fjárhagslegri endurskipulagningu nokkurra. Þannig hefur hann átt þátt í því að auka öryggi sparisjóðanna. Ætla má hins vegar að þörf sparisjóðanna fyrir slíka aðstoð muni minnka á næstu árum. Þannig má ætla að sparisjóðaheildir verði öflugri ef frekari árangur næst í sameiningu. Auk þess hafa lög og reglur á þessu sviði tekið nokkrum breytingum á síðustu árum í þá átt að treysta öryggi í rekstri þessara stofnana.

Eins og fram er komið var með lögum nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði, lögfest meginefni þeirra tilskipana ESB sem áður voru í gildi. Til þess að tryggja fullnægjandi samræmingu hefur Eftirlitsstofnun EFTA í samvinnu við viðskrn. og Seðlabanka Íslands farið yfir íslensk lög með tilliti til þess hvort náðst hafi fullnægjandi samræmi milli hennar og tveggja tilskipana í ESB, þ.e. 1. bankatilskipunarinnar, nr. 780/1977, og 2. bankatilskipunarinnar, nr. 645/1989. Í kjölfar þessarar athugunar hefur verið ákveðið að leggja til tilteknar breytingar á lögunum.

Helstu breytingarnar sem rekja má til þessarar sameiginlegu endurskoðunar íslenskra stjórnvalda og Eftirlitsstofnunar EFTA eru eftirfarandi:

1. Lagt er til að ákvæðum 4., 26. og 89. gr. laganna um veitingu, synjun og afturköllun starfsleyfis verði breytt, sbr. 1., 4. og 20. gr. frv. Þannig er lagt til að kveðið verði ítarlega á um efni og fylgigögn umsóknar um starfsleyfi. Auk þess vantar í lögin ákvæði um að starfsleyfi verði afturkallað ef stofnun hefur ekki starfsemi innan 12 mánaða frá veitingu þess og enn fremur vantar ákvæði um að ákvörðun ráðherra um veitingu leyfis skuli liggja fyrir innan 6 mánaða frá því að umsókn barst til hans.

2. Lagt er til að ákvæðum 3. mgr. 46. gr. laganna um eignarhlut í viðskiptabanka eða sparisjóði í öðrum fyrirtækjum verði breytt til samræmis við ákvæði tilskipunar, sbr 5. gr. frv.

3. Lagt er til að í lögunum verði kveðið á um að dótturfyrirtæki eins eða fleiri viðskiptabanka eða sparisjóðs í öðru ríki Evrópska efnahagssvæðisins geti starfað hér á landi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Jafnframt er lagt til að kveðið verði á um sambærilegan rétt innlendra fyrirtækja til að starfa annars staðar á hinu Evrópsku efnahagssvæði. Þessar heimildir ná einnig til umræddra dótturfyrirtækja, en með því er átt við hina svokölluðu þriðju kynslóð fjármálastofnana. Ákvæði þessa efnis eru í 17.--19. gr. frv.

Þá er í 21. gr. frv. lagt til að kveðið verði á um að bankaeftirlitinu beri að aðstoða lögbær yfirvöld í öðru ríki á hinu Evrópska efnahagssvæði gerist innlendur viðskiptabanki eða sparisjóður brotlegur við lög þess ríkis.

Auk þess sem hér er á undan rakið hafa við framkvæmd laganna komið í ljós nokkur atriði sem betur mætti fara. Þannig er í 2. gr. frv. lagt til að fellt verði á brott ákvæði laganna um að ríkisviðskiptabankarnir skuli leita eftir samþykki Alþingis til að taka víkjandi lán til að efla eiginfjárstöðu sína, sbr 1. gr. frv. Þetta er gert að tillögu Seðlabanka Íslands sem bent hefur á að ríkisbankarnir taki lán með margs konar hætti án sérstakrar heimildar Alþingis, svo sem með sölu verðbréfa og víxla og slíkar lántökur feli í raun í sér ríkari skuldbindingar en víkjandi lán. Því þykir rétt að umrædd ákvæði verði felld brott úr lögum.

Einnig má nefna að lagðar eru til nokkrar breytingar á VII. kafla laganna um ársreikning, endurskoðun og samstæðureikningsskil. M.a. eru lagðar til breytingar til samræmis við lög nr. 144/1994, um ársreikninga, og fyrirliggjandi er frumvarp um verðbréfaviðskipti. Þá er lagt til að reglur sem bankaeftirlitið setur samkvæmt ákvæðum kaflans verði bindandi en ekki almennar og leiðbeinandi eins og nú er.

Þá má nefna að lagt er til að ákvæðum laganna sem kveðið er á um, Lánastofnun sparisjóðanna hf., verði breytt með tilliti til þess að Sparisjóðsbanki Íslands hf. hefur verið stofnaður.

Herra forseti. Ég hef nú rakið meginefni þessa frv. og legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. efh.- og viðskn.